07.03.1958
Efri deild: 63. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í B-deild Alþingistíðinda. (558)

100. mál, skattur á stóreignir

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru nokkur orð út af ræðu hv. þm. Vestm. Satt að segja finnst mér hún bera þess vott, að hann hafi ekki kynnt sér þetta mál, eins og hann hefði þurft að gera, jafnþunga dóma og hann felldi um málið.

Það er auðfundið, að hv. þm. langar til þess að deila um þetta mál, og skal ég veita honum það að minnast örfáum orðum á sumt af því, sem hann tók fram.

Hann kallaði þessa skattálagningu eignarán, harkalegt eignarnám og annað þaðan af kröftugra í sinni ræðu, — sagði, að þetta mundi vera gert samkvæmt kröfu kommúnista og þeir einir væru ánægðir með þetta mál, — að þessi skattálagning væri þannig, að hún mundi gera marga gjaldþrota og leggja atvinnulíf landsins í rústir.

Jæja. Þetta er nú ekkert lítið, sem stendur hér til að gera samkvæmt því, sem hv. þm. Vestm. álítur. En ef við skyggnumst ofurlítið aftur í tímann, hlýtur okkur að finnast það mjög undarlegt, sem hv. þm. Vestm. heldur fram um þetta mál, vegna þess að fyrir nokkrum árum, eins og hann raunar gat um, átti Sjálfstfl. þátt í því að leggja á stóreignaskatt, sem áreiðanlega var á þeim tíma sízt lægri tiltölulega, en þessi stóreignaskattur er nú. Og það var ekki aðeins, að sjálfstæðismenn ættu þátt í þessu, heldur hafa þeir verið alveg óþreytandi að gorta af því að hafa gert þetta og hafa sagt þjóðinni, að þeir hafi átt frumkvæði að þeim efnahagsráðstöfunum, sem gerðar voru 1950. Alveg sér staklega hafa þeir gortað af því, að þeir hafi átt frumkvæði að þessum ráðstöfunum. En ein af þeim ráðstöfunum var álagning stóreignaskatts. Sem sagt, þegar sjálfstæðismenn eiga þátt í því að leggja á stóreignaskatt, þá er hann góður og sjálfsagður og þjóðarbjargræði, en ef einhverjum öðrum dettur það í hug, þá er það eignarán, harkalegt eignarnám, og á að verða til þess að setja allt þjóðfélagið úr skorðum.

Það tók þá ekki betra við, þegar hv. þm. fór að lýsa því, hvernig framkvæmdin væri á þessu máli. Mötin væru þannig, að þau næðu engri átt. Hann gekk meira að segja svo langt, að hann talaði um fölsuð eignamöt í því sambandi. Hann talaði um falsað eignamat og sagði, að handlangarar fjmrh. framkvæmdu þessi fölsuðu eignamöt til þess að geta rænt af mönnum eignunum. Þetta er nokkuð mikið sagt hjá hv. þm. og gefur ástæðu til þess að athuga ofurlítið og upplýsa, af því að hann hefur sýnilega ekki hirt um sjálfur að kynna sér, hvernig þessum mötum á eignunum er háttað. Hefði það þó verið í lófa lagið fyrir hann, bara með því að leggja það á sig að lesa sjálfa löggjöfina um stóreignaskattinn. En satt að segja er það lágmarkskrafa, þegar menn taka sig til eins og hv. þm. að gera eins konar úttekt á svona máli, að þeir geri það. En ég vil ekki ætla, að hv. þm. hafi gert það, því að mér dettur ekki í hug, að hann hefði viðhaft þessi ummæli, ef hann hefði gert það. Það stendur í lögunum, að fasteignir skuli metnar með því verði, sem ákveðið er í nýja fasteignamatinu, en þó skuli ekki bundið við þetta, heldur megi landsnefndin, sem starfaði að þessu mati, hækka einstakar eignir, ef hún telur ástæðu til samræmisins vegna. Það eru víst þessir handlangarar, sem hv. alþm. var að tala um, en síðan segir: „Nú er eigandi lóðar óánægður með mat landsnefndarinnar, og getur hann þá kært yfir því til nefndarinnar, en úrskurði hennar um kæruatriði má skjóta til yfirnefndar, sem skipuð er fimm mönnum. Fjórir þeirra séu kosnir hlutfallskosningu í sameinuðu Alþingi, en sá fimmti skipaður af hæstarétti.“

Þessa menn, fjóra tilnefnda með hlutfallskosningu í sameinuðu Alþingi og þann fimmta skipaðan af hæstarétti, leyfir hv. þm. Vestm. sér að kalla handlangara fjármálaráðherra, sem séu settir til þess að falsa möt og hafa af mönnum ranglega fé.

Það er ekkert leyndarmál, að fasteignamatið er mjög varlega sett, og ég hef engan heyrt halda því fram, að fasteignamatið væri þannig sett, að það væri ekki varlegt miðað við raunverulegt verðmæti eigna, fyrr en hv. þm. talaði um það hér áðan.

Þá er þessi hv. þm. að tala um mat á verðbréfum, og er það byggt á algerum misskilningi, því að hér kemur ekkert verðbréfamat til greina, heldur er þetta þannig, að eignir félaganna eru metnar eftir vissum reglum, sem í lögunum eru, og síðan er eignunum skipt inn á stóreignaskattsframtöl einstaklinganna í réttu hlutfalli við eign þeirra í félögunum. Verðbréfin sjálf eru alls ekki skattlögð, heldur er eignum félaganna skipt upp á einstaklinga, til þess að það komi fram, hvað hver maður raunverulega á miklar eignir, til þess að hægt sé að mæla stóreignaskattinn eftir eign hvers um sig, og þetta er nákvæmlega sams konar ákvæði og var í lögunum, sem Sjálfstfl. átti þátt í að setja og státaði sem mest af um árið.

Þá var hv. þm. að minnast á, að það væri alveg sérstaklega þunglega búið, skildist manni, að þeim, sem ættu skip og framleiðslutæki, í sambandi við þessa skattálagningu.

Ég vil nú biðja hv. þm. að kynna sér ofur litið, hvernig þessu er háttað samkvæmt þessari stóreignaskattslöggjöf annars vegar og hins vegar þeirri löggjöf, sem Sjálfstfl. hefur nú um langa hríð státað mest af. Þá mun hann sannfærast um, að í þessari löggjöf er miklu varlegar farið í mati á skipum, flugvélum og sérstökum eignum, sem notaðar eru beint við útflutningsframleiðsluna, en var í hinni löggjöfinni. Þessi orð hv. þm. hljóta að byggjast á algerum misskilningi. Þessi ákvæði, sem hér er um að ræða, eru þannig, að frá vátryggingarverði fiskiskipa er dregin há prósenta, áður en skattur er lagður á, og það er gerður sérstakur frádráttur frá matsverði frystihúsa, sláturhúsa og annarra húseigna, sem notaðar eru sem vinnslustöðvar sjávarafurða og landbúnaðarafurða, áðum en eignirnar eru lagðar á við aðrar eignir til skattsins.

Það eru þess vegna engin rök til fyrir þeim fullyrðingum hv. þm. Vestm., að hér hafi verið farið harkalega að, og allt þolir þetta fullkomlega samanburð við það, sem áður hefur átt sér stað.

Þá sagði hv. þm., að hér væri svo harkalega að farið, að menn mundu verða eignalausir og atvinnurekstur mundi stórlega skerðast við þessa skattálagningu.

Í sambandi við þessar fullyrðingar er fróðlegt að athuga, að það mun vera einhvers staðar á milli 1.000 og 2.000 millj., sem innheimt er árlega í sköttum, tollum og útsvörum og öllum slíkum gjöldum af Íslendingum, 1.000–2.000 millj., en hér er um að ræða 12–13 millj. árlega í stóreignaskatt ásamt vöxtum af því, sem útistandandi er á hverju ári.

Ég hef átt þátt í því með sjálfstæðismönnum að leggja gífurlega stórar fjárhæðir á þjóðina, og ég hef aldrei orðið sérstaklega var við, að þeir væru hikandi eða vílsamir í þeim sökum, enda er sannleikurinn sá, að engir hafa gengið hér lengra í skattálögum og allra sízt í álögum beinna skatta, en einmitt sjálfstæðismenn. Þeirra fjmrh. átti þátt í því að setja hér þá hæstu skattstiga, sem nokkurn tíma hafa verið settir í lög. En það er dálítið merkilegt að athuga það og bera það saman við þetta, að þegar kemur að því að leggja þá fjárhæð, sem ég greindi, á þá menn í landinu, sem eiga eina milljón eða meira, og það með því að meta eignirnar á margan hátt með mikilli tilslökun, eins og ég greindi frá, þá fyrst, þegar að þessari skattlagningu kemur, virðast sjálfstæðismenn kenna sín og fara að tala um, að það muni vera hætt við, að þetta geti sett þjóðfélagið úr skorðum.

Þá segir hv. þm. Vestm., að það hafi verið ætlunin að leggja á 80 millj., og lét liggja að því, að það hefði verið farið hálfgert aftan að mönnum, vegna þess að skatturinn reyndist meiri.

Ég tók það mjög greinilega fram í umr. um þetta mál, að það væri ekki hægt að áætla fyrir fram, hvað skatturinn gæfi. Þess var enginn kostur. Það var heldur alls ekki mögulegt 1950, að áætla það.

Menn nefndu ýmsar tölur þá, og menn nefndu tölur núna, sem menn vonuðust eftir að skatturinn gæfi, a. m. k. 80 millj.

Nú hefðu menn áreiðanlega ekki farið að leggja ofan á skattinn, þótt hann hefði reynzt undir 80 millj. kr., og eins er það ekki venja í álagningu beinna skatta að draga frá, þótt eitthvað fari fram yfir það minnsta, sem menn hafa áætlað.

Lögin um stóreignaskatt eru ekki um það að leggja á 80 millj. kr. Þau eru um að leggja skatt á eftir vissri reglu og eiga það algerlega á hættu, hvað út úr því kæmi, láta þar við sitja. Auk þess á skatturinn auðvitað eftir að lækka við kærur, eins og ég tók fram.

Hv. þm. spurði, hve mikið af þessum skatti mundi verða borgað af útvegsmönnum og fyrirtækjum þeirra. Það veit ég ekki, og ég veit, að hv. þm. hefur alls ekki gert ráð fyrir, að ég mundi vita það hér fyrirvaralaust. Fjmrn. hefur enga skrá fengið um þessa skattálagningu.

Þá spurði hv. þm., hversu mikið af skattinum frá 1950 væri óinnheimt. Þessari spurningu get ég vitaskuld alls ekki heldur svarað óundirbúið. Það má nærri geta, hvort ég muni hafa það í huga, hve mikið af skattinum frá 1950 muni vera óinnheimt.

Og loks spurði hv. þm., hversu mikið sömu aðilar ættu nú að borga, sömu aðilar og þeir, sem borguðu 1950. Það mætti vera undarlegur maður, sem gæti svarað spurningu eins og þessari fyrirvaralaust. Slíkt mundi þurfa að rannsakast, ef menn vildu fá þeirri spurningu svarað.

Þá minntist hv. þm. á, hvers vegna ekki hefði verið birt skrá yfir þennan skatt almenningi. Það stendur í tekjuskattslögunum, að birta skuli skrá um tekjuskatt almenningi. En í lögunum um stóreignaskatt frá 1950 var ekkert ákvæði um þetta, og þá var tekin ákvörðun um að birta ekki skrá um stóreignaskattinn, heldur tilkynna hverjum um sig, sem kæmi til greina, hvað hann ætti að borga. Þá leiddi af þessu, að þá fékk enginn aðgang að skattskránni. Hún var aðeins til afnota fyrir innheimtumennina. Það var ekki gert opinbert almenningi, hvað hver átti að greiða. Sami háttur hefur verið hafður á fram að þessu, að það hefur ekki enn verið lögð fram skrá almenningi til sýnis um álagningu stóreignaskattsins. En þessi krafa hv. þm. mun verða tekin til athugunar, hvort muni vera réttara að birta almenningi skrá yfir stóreignaskattsgreiðendurna. En það er sem sagt ekkert um það í lögunum, og þess vegna hefur það ekki verið gert fremur en 1950.

Þá spurði hv. þm. að því, hvort ég vildi ganga inn á einhverjar breytingar á lögunum, og nefndi í því sambandi tvö eða þrjú atriði. Um það vil ég aðeins segja: Ég mun ekki gefa neinar yfirlýsingar um það nú við þessa umræðu, en það er sjálfsagt, að þetta mál fái skoðun í nefnd. En með því er ég ekki að gefa neitt undir fótinn um það, að breytingar komi til greina. En ég tel það aðeins réttara, að uppástungur um breytingar fái athugun í nefnd, áður en farið er að rökræða þær fram og aftur hér í deildinni eða gefa um þær yfirlýsingar.