21.03.1958
Efri deild: 71. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

100. mál, skattur á stóreignir

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Í lok umræðnanna á dögunum, áður en þessu máli var frestað, beindi ég þeim tilmælum til hv. n., að hún aflaði sér upplýsinga um það, að hve miklu leyti stóreignaskatturinn lenti á atvinnuvegunum.

Hv. þm. Vestm. (JJós) hafði spurzt fyrir um þetta við 1. umr., — spurt hæstv. ráðh. um það, en hann bar því við, að hann hefði engin þau gögn í höndum, að hann gæti svarað þessu þá í deildinni.

Nú skilst mér, að hv. fjhn. hafi snúið sér til skattstofunnar með beiðni um að fá þetta upplýst. En eins og hv. frsm. sýndi fram á, er hann las bréf skattstofunnar um þetta efni, er það ekkert svar, hreinar vífilengjur og ekkert annað. Ég tel gersamlega ósamboðið Alþ. að taka á móti svona plaggi. Ef stofnun leyfir sér að svara ákveðinni fsp., sem Alþ. óskar eftir, á þennan máta, þá tel ég það ósæmilegt. Ég vænti þess, að hv. n. láti ekki við þetta sitja. Ég skora á hana að gera það ekki, því að það er augljóst mál, að ef það kemur í ljós, sem ég hygg að verða muni, að þessi skattur muni hvíla að verulegu leyti á atvinnuvegum landsins, þá er hér í alvarlegt efni komið; það skuluð þið sanna til.

Alþ. hefur um allmörg undanfarin ár orðið að leggja þungar byrðar á þjóðina til þess að halda atvinnuvegunum gangandi. Þegar svo á að koma ofan á þetta skattheimta á þessa sömu atvinnuvegi, þannig að þeir hljóta að sligast að meira eða minna leyti, þá ættu menn að sjá, hverjar afleiðingarnar verða.

Ég hygg, að ástæðan til þess, að ómögulegt er að fá upplýsingar um þetta atriði, sem hér er spurt um, sé sú, að það hefur komið í ljós, sem við spáðum hér á þinginu í fyrra margir hverjir, að þessi skattur mundi lenda æðiþungt á atvinnuvegunum. Ég minnist þess þá, að hæstv. fjmrh. tók þvert fyrir þetta, það kæmi ekki til mála. Ætli það sé nú ekki kominn á daginn okkar spádómur um þetta og þess vegna verði að leyna þessu fyrir þjóðinni?

Ég leyfi mér að endurtaka áskorun mína til hv. fjhn., að hún fái fyllri upplýsingar um þetta atriði. Ég teldi í alla staði rétt og reyndar sjálfsagt að fresta atkvgr. um brtt. á þskj. 310, þar til þessar upplýsingar liggja fyrir, því að ef það reynist svo, að skatturinn hvíli þungt á atvinnuvegunum, þá veitir sannarlega ekki af að milda innheimtu skattsins.