24.03.1958
Efri deild: 72. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

100. mál, skattur á stóreignir

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Hv. flutningsmenn brtt. gætu nú auðvitað komið því svo fyrir sjálfir, að þetta álit skattstjóra, ef það fæst, lægi fyrir, þegar d. tekur ákvörðun um brtt. Það væri ekki annar vandi, en að taka till. aftur núna til 3. umr., og mundi ég þá sem formaður n. reyna að ganga eftir því, að þessi áætlun lægi fyrir við 3. umr. Ef svo skyldi fara, að frv. yrði breytt, þá þarf það að ganga til Nd. aftur, og gæti nú farið að verða naumur tími fyrir páska. Þó tel ég að vísu fært að taka frv. út af dagskrá í dag, þó að leiðinlegt sé, að d. afgreiði þá ekkert mál í dag. Fyrra dagskrármálið var tekið út af dagskrá nú skv. ósk annars af hv. flm. þessara till., sem nú liggja fyrir, og yrði þá svo, að bæði dagskrármálin yrðu tekin út af dagskrá og þessi fundur árangurslaus.