25.03.1958
Efri deild: 73. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (592)

100. mál, skattur á stóreignir

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Það hefur verið lesið upp hér nýtt plagg frá hv. skattstjóra, og þar fullyrðir hann í lok bréfsins, að það sé ómögulegt að skipta eignarskattinum eftir atvinnugreinum, svo að nokkurt vit sé í.

Það er í sjálfu sér náttúrlega talsvert fróðlegt að fá þessa yfirlýsingu frá jafnfjölvitrum manni á þessu sviði og skattstjórinn hlýtur að vera. En hæstv. ríkisstj. hafði við umr. um þetta mál á því þingi, sem lögin voru sett, margsinnis fullyrt það, að t.d. sjávarútvegurinn eða hans fyrirtæki yrðu ekki fyrir neinum óþægindum af þessum stóreignaskatti. Hv. skattstjóri upplýsir nú, að það sé ekki hægt, svo að nokkurt vit sé í, að skipta skattinum niður á atvinnufyrirtæki, og er þá sýnt, hve mikið vit hefur verið í fullyrðingum hæstv. ríkisstj. á sínum tíma. Það virðist þá hafa verið heldur lítið vit í því að kveða upp úr með það, að t.d. sjávarútvegurinn ætti ekki að bera þunga þessa skatts.

Ég hef frá góðum heimildum hins vegar upplýsingar um það, að um 30 millj. af stóreignaskattinum leggist ýmist beint á sjávarútveginn eða hans fyrirtæki. Og meðan hvorki hv. skattstjóri né hæstv. ráðh. gerir tilraun til að hrekja það með nokkrum rökum, verð ég að álíta, að þeir kunnáttumenn, sem hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að um 30 millj. af skattinum leggist á þennan mjög svo nauðsynlega atvinnuveg, hafi rétt fyrir sér. Er þá sýnt, að loforð ríkisstj. í þessu efni hafa verið út í bláinn og að með álagningu stóreignaskattsins er verið að þrengja ákaflega mikið að þessari nauðsynlegu atvinnugrein, sem m.a. stendur fyrir svo til allri gjaldeyrisöflun í landinu. Við höfum því, hv. 6. þm. Reykv. og ég, haft fyllilega rétt fyrir okkur, þar sem við höfum farið fram á nokkra mildun í framkvæmd á þessum lögum, þó að hv. fjhn. hafi, að því er virðist eftir ábendingu hæstv. ríkisstj., skellt skolleyrunum við okkar brtt.

Það hefur sem sé verið upplýst í þessum umræðum af hv. frsm. fjhn., að ríkisstj. hafi beinlínis borið sig saman um þessa sérstöku brtt., og maður verður að ætla, að afstaða n. markist af því, hvernig ríkisstj. sjálf hefur snúizt við þessu, af því að það kom bert fram í orðum hv. formanns n. á sínum tíma á nefndarfundum, að ástæðan fyrir því, að ekki væri hægt að hreyfa hér staf eða kommu, — hann hafði nú ekki beint þau orð, — en ástæðan fyrir því, að ekki væri hægt að sinna þessum brtt., væri sú, að þetta væri mál, sem stjórnin hefði samið um. Hann nefndi nú, hv. formaður, að vísu framsóknarflokkinn á þeim fundi, en síðan hefur það upplýstst eftir framburði hv. frsm., að það er ríkisstj. öll. Sem sé, það er þá eina ástæðan, sem n. hefur fyrir því að hlusta ekki á okkur í þessu sambandi, sem viljum draga úr hinum slæmu áhrifum skattálagningarinnar, að það komi í bága við samning stjórnarflokkanna.

Hv. 1. þm. Eyf. lýsti því yfir, að sér virtist, að við með því að bera fram brtt. við stóreignaskattinn værum að viðurkenna réttmæti hans og slíkt væri ekki í samræmi við það, sem ég hef leyft mér að halda fram hér í d., að stóreignaskatturinn, eins og hann var úr garði gerður eftir lögunum frá 1957, væri stjórnarskrárbrot. Ég vil lýsa því yfir, að þetta er stór misskilningur hjá hv. formanni fjhn. Það felst engin viðurkenning í okkar brtt. um réttmæti þessa skatts, þó að við reynum núna á þessu þingi að fá fram brtt. til að draga úr því tilræði við atvinnuvegina, sem þar er framið, því að t.d. 30 milljóna skattálagning á sjávarútveginn út af fyrir sig er — ég leyfi mér að fullyrða það — tilræði við þann atvinnuveg, sem á hverju ári er fleytt fram með því að skattleggja þjóðina alla í svokallaðan styrktarsjóð eða hvað hann er kallaður, útflutningsuppbótasjóð, til þess einmitt að fleyta þessum atvinnuvegi. Þessum atvinnuvegi gerir hæstv. sama ríkisstj., sem stendur fyrir útflutningsuppbótunum, það að greiða tugi milljóna í stóreignaskatt, og gefur auga leið, að fyrir atvinnuveg, sem stendur eins höllum fæti og sjávarútvegurinn gerir á ýmsan hátt, er hér visvítandi eða ekki vísvitandi framið tilræði, sem miðar að því að hnekkja atvinnu fólksins í landinu, sem býr við atvinnukjör sín frá sjávarútveginum. Hið sama ætla ég að megi segja, þó að ég hafi ekki tölur fyrirliggjandi, um aðrar stórar atvinnuiðngreinar í landinu, t.d. iðnaðinn, að allt það, sem gert er til að hnekkja iðnaðinum á þennan hátt eða þeim, sem að honum standa, er og verður að síðustu högg í andlit vinnufólksins í landinu, sem hefur atvinnu við þessar atvinnugreinar.

Tilraun okkar hv. 6. þm. Reykv. til að draga úr þessum vondu áhrifum liggur í okkar brtt., sem eru svo hóflegar sem raun ber vitni, og í þeim felst engin viðurkenning á stjórnarskrárbrotinu, sem ég held fram að sé framið með setningu laganna um stóreignaskattinn, — engin. Það er bara verið að bera hönd fyrir höfuð sér eða lítils háttar verið að reyna að bera hönd fyrir höfuð atvinnuveganna gegn ofbeldi, eins og á sér stað alls staðar í heiminum, þar sem ofbeldi er beitt og á einhvern hátt er reynt að reisa rönd við því, en í því felst ekki viðurkenning á réttmæti ofbeldisins. Þetta vildi ég taka fram.

Ég hef því miður þreytt hæstv. forseta lengur, en ég ætlaði, en skal að tilefnislausu ekki gera það meira við þessa umr.