27.03.1958
Efri deild: 74. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (596)

100. mál, skattur á stóreignir

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Við lok 2. umr. um þetta mál talaði m.a. hv. 6. þm. Reykv. og tók undir það, sem ég hafði haldið fram, en kom með marga nýja vankanta á þeirri löggjöf, sem um ræðir, og lýsti þeim, sem ég hef ekki hreyft við. Hann sýndi t.d. fram á með ljósum rökum, hversu það væri fjarri sanni að halda því fram, að við flm.brtt. á þessari stóreignaskattslöggjöf viðurkenndum með því réttmæti löggjafarinnar, og studdi það algerlega mína skoðun hvað það snertir, og ætla ég þess vegna, að ekki þurfi fleiri orðum að því að eyða, að engin viðurkenning á réttmæti laganna felst í brtt., hvorki þeim, sem hér var um að ræða, né öðrum, sem nú verða fluttar. Mér fannst raunar og okkur flm. þessara till., þó að hv. d. felldi þær allar, að engar röksemdir aðrar kæmu fram en það, sem ljóst var orðið af umr., sem fram höfðu farið og sérstaklega ummælum hv. form. fjhn. og þá ekki síður hv. frsm. n., að vísbending frá ríkisstj. hefði þeim borizt um það, að hér væri um samningsmál ríkisstj. að ræða, sem ekki þyrfti breytingar á að gera. Þær brtt., sem við fluttum þá, hv. 6. þm. Reykv. og ég, voru að ég held að fleiri manna dómi, en okkar einna, vel hóflegar. En með því að 3. umr. er ekki úti, vildum við enn freista þess, hvort ekki væri mögulegt að reyna eitthvað til að milda hin hörðu ákvæði þessara laga með því að flytja við þessa umr. brtt., sem að vísu liggja ekki fyrir prentaðar tímans vegna, en við ætlum þó að leyfa okkur að leggja fram skriflegar, svo sem hér segir:

Brtt. við frv. til l. um breyt. á lögum nr. 44 3. júní 1957, um skatt á stóreignir. Frá Jóhanni Jósefssyni og Gunnari Thoroddsen. Það er í fyrsta lagi það, að 2. gr. laganna breytist þannig: Í stað orðanna 20% í 2. málsgr. 1. töluliðar komi: 25%,. Í stað orðanna 40% í 1. málsgr. 2. töluliðar laganna komi: 55%. Í stað orðanna 25% í 2. málsl. 1. málsgr. 2. töluliðar komi: 35%. Í stað orðanna 40% í 2. málsgr. 2. töluliðar komi: 55%.

Í öðru lagi: Í stað orðanna „10 árum og séu ársvextir af þeim 6%“ í niðurlagi 1. málsgr. komi: 18 árum og séu ársvextir af þeim 3%.

Þessar brtt., sem að vísu eru of seint fram komnar og líka skriflegar, vil ég leyfa mér að afhenda hæstv. forseta og beiðast þess að þær komi undir álit og athugun hv. d.

Eins og allir sjá, er fjallað hér um sömu efni og fyrir lágu í brtt. hinum fyrri, en úr þeim er dregið þannig, að frá okkar hálfu er því stillt nú í enn meira hóf, en áður var og gat þó ekki talizt óhóflegt.

Ég veit ekki, hvaða hátt hæstv. forseti kýs að hafa á þessu, hvort hann t.d. vill gera fundarhlé og n. athugi þetta mál eða hann vill halda áfram umr. um það strax án tafar, og mundi ég þá vænta þess, að fram kæmi frá hv. formanni eða frsm. fjhn. þeirra álit um, hvort nokkru verði frekar til þokað í þessu máli, áður en ég held áfram að ræða um málið, en ég geri ráð fyrir því, að ég eigi aðra ræðu eftir, þó að ég hafi skýrt frá þessum brtt.

Skal ég svo ekki hafa öllu fleiri orð um þetta. En mér virðist, að hin mjög svo skilagóða ræða, sem hv. 6. þm. Reykv. flutti um málið við 2. umr., í viðbót við það, sem bæði ég og hv. þm. V-Sk. höfðum áður sagt, ætti að vera tilefni til þess, að hv. dm., ef þeir væru frjálsir gerða sinna, tækju eitthvert tillit til þessara brtt., sem nú koma fram, frekar en gert var við 2. umr., og kemur það þá væntanlega í ljós við framhaldsumr. í þessu máli, hvort þeir eru svo bundnir í báða skó, að þeir megi engum rökum hlíta.