27.03.1958
Efri deild: 74. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (603)

100. mál, skattur á stóreignir

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Mér þykir að vísu fyrir því, að hæstv. forseti vill ekki neitt meira á þetta líta eða um þetta tala í nefnd. En fyrst hann er þeirrar skoðunar og hv. frsm., sem hann skaut sér nú undir að vissu leyti, líka fráleitur því að ræðast við meira um það, hvort eitthvað mætti slaka til í þessu efni til að létta mönnum byrðina, sem hún er á lögð, þá verður vitaskuld ekki við því hróflað. Samkvæmt þingsköpum hefur forseti fullt vald til þess að ákveða,

hvort hann vill gera hlé á umr. og fresta fundi til að athuga einhver spursmál eða vill ekki.

Ég held, að það sé nú búið að reyna að fá fram ýmsar upplýsingar í þessu máli. Það voru upphaflega lagðar fyrir hæstv. fjmrh. spurningar um það, hvernig þessi stóreignaskattur mundi koma niður á atvinnuvegunum, og það að gefnu tilefni, að frá stjórnarherbúðunum og í ræðum ráðh., þegar lögin voru sett, var látið við kveða, að t.d. viss atvinnuvegur, sjávarútvegurinn, a.m.k. og kannske atvinnuvegirnir yfir höfuð, mundu ekki gjalda neitt afhroð við þessi lög. Hæstv. ráðh. leiddi hjá sér að svara því, eins og hann hefur yfir höfuð leitt hjá sér að vera við þessar umr. í heild sinni, og þær tilraunir, sem gerðar voru af hálfu fjhn. undir forustu hv. formanns hennar til að fá hv. skattstjóra til að gefa einhverjar upplýsingar í þessu efni, báru engan árangur, annan en þann að fá tvö meira og minna óheil bréf frá þeim volduga valdsmanni, sem heitir skattstjóri, sem gáfu engar upplýsingar, en slógu málinu á víð og dreif, — og í raun og veru í síðara bréfinu, sem hér kom, var slegið út í svo miklar öfgar í bréfi embættismannsins, að engu var líkara en hann væri að „gera grín“ að fyrirspurnum hv. form. fjhn. Það getur vel verið, að hann hafi gert það ósjálfrátt, hv. skattstjóri, að ganga svona frá þessu, en mér fannst það ómaklegt, ekki sízt við hv. form. fjhn., að senda honum svona öfugugga- og útúrsnúningssvar.

Það hefur komið hér fram dálítið umtal um það, að lögin í heild sinni hefðu verið brot á stjórnarskránni. Ég hef haldið því fram, og hv. form. fjhn. hefur borið í vænginn a.m.k., ef ekki mótmælt, og hafa rök hans ekki verið það sterk, að ég hafi getað sannfærzt um, að hann hefði sjálfur þá sannfæringu, að hér væri ekki um stjórnarskrárbrot að ræða. En hann hefur sjálfur, hv. form. fjhn., vísað til þess, að dómstólarnir væru hér til aðgangs og verndar fyrir þá, sem þættu lögin skerða sín réttindi, og er það núna komið í ljós, a.m.k. ekkert leyndarmál, þó að það kannske liggi ekki opinberlega fyrir, að til þessa mun draga.

Í sambandi við það, sem hv. form. fjhn. sagði á sínum tíma, að það væri skrýtið að vera að flytja brtt. við þau lög, sem maður mætti búast við að hæstiréttur á sínum tíma ógilti eða dómstólarnir ógiltu, ætla ég mér að vísa til ræðu hv. 6. þm. Reykv, (GTh) í fyrradag við 2. umr. málsins, þar sem var sýnt glöggt fram á, að það var í alla staði eðlilegt að bera fram brtt., með því þó að farið sé með mál til dómstólanna, þá veit enginn, hvernig það getur þar farið, og má segja, að breytingarnar séu þá fram fluttar til vara, ef dómstólarnir litu öðrum augum á það mál, en ætla mætti eftir atvikum.

Ég hef verið kannske ákveðnastur í að halda því fram, að með setningu laganna hefði verið um brot á stjórnarskrá að ræða. En þó hafa aðrir hv. dm. í ýmsum ræðum sínum, þ.e.a.s. þeir, sem hafa talað í sama anda og ég, vikið að hinu sama, þ. á m. hv. 6. þm. Reykv. Og mér er sagt, að við lagasetninguna sjálfa á því þingi, sem það var gert, 1957, hafi hv. þm. N-Ísf. vikið að því, áður en málið var endanlega afgr. út úr þessari hv. d., að hér mundi vera gengið fullnærri réttindum borgaranna, eins og þau eru ákveðin í stjskr., m.ö.o.: að hér væri mjög höggvið nærri því, að um stjórnarskrárbrot væri að ræða.

Hæstv. forseti hefur stundum vísað til þess, að það muni enginn hafa krafizt forsetaúrskurðar í þessu máli. Það getur vel verið, að það hafi ekki verið. En ég ætla, að það megi finna stað fyrir því að, að þessu efni var vikið, áður en lögin voru endanlega afgreidd frá þinginu, af einum hv. dm., að hér væri um stjórnarskrárbrot að ræða. Og ef dæma má ástandið á þinginu 1957, að það hafi verið eitthvað svipað og „stemningin“ hjá stjórnarliðinu nú og auðsveipni þeirra við stjórnarvöldin, þá geri ég ráð fyrir, að eins og nú hefur verið snúizt við mjög hóflegum brtt. til að milda sum ákvæði þessara laga, sem okkur þykir stefna til óhagræðis fyrir atvinnu landsmanna, eins og nú hefur verið tekið undir það, bæði af hæstv. forseta og öðrum í d., hans flokksmönnum og samstarfsliði ríkisstj., þá hefði það verið næsta lítil von á þinginu rétt á undan, að forseti hefði úrskurðað þetta mál frá vegna þess að það bryti í bága við stjórnarskrá ríkisins. Ríkisstj. mundi hafa sennilega þá eins og nú getað gefið að tjaldabaki sínum fylgismönnum þær fyrirskipanir að anza engu í þessu efni, eins og sýnt er samkvæmt því, sem fram kom í ræðu hv. frsm. í þessu máli við 2. umr., að hún hefur nú í heild sinni gert við flokksmenn sína gagnvart brtt. okkar.

Það er þá ekki úr vegi, að ég m.a. geri einhverja tilraun til þess að finna þeim orðum stað, er ég hef mælt hér við meðferð máls þessa í garð þessarar löggjafar, að mér virðist, að lögin hefðu verið og væru stjórnarskrárbrot.

Ég veit til þess, að meðal þeirra lögfræðinga, sem eru valinkunnir og landskunnir, sem ýmsar greinar atvinnulífsins hafa snúið sér til í þessum vandkvæðum, er sú skoðun ríkjandi, að samkvæmt 67. gr. stjskr., nr. 33 1944, sé eignarrétturinn friðhelgur og enginn verði skyldaður til að láta af hendi eign sina, nema almenningsþörf krefji; til þess þurfi lagafyrirmæli, og komi fullt verð fyrir. Þetta lagaákvæði er, eins og vitanlegt er, einn af hyrningarsteinum þess þjóðskipulags, sem við Íslendingar höfum, og á því byggist allt þjóðhagskerfi okkar, — einmitt á þessu lagaákvæði byggist allt þjóðhagskerfi landsmanna.

Þrátt fyrir þetta ákvæði er engum vafa bundið, að heimilt er að leggja skatt á þegnana til að standa straum af þeim kostnaði, er leiðir af rekstri ríkisins. En skattur er gjald til þess opinbera, sem fengið er með því að leggja jafna og almenna fjárhagsbyrði á alla þá, sem eins eru settir fjárhagslega. Fullnægi lagaákvæði um fjárhagsálögur ríkisvaldsins á þegnana ekki þessum skilyrðum, er ekki um skatt að ræða, heldur eignarnám, og ber þá að greiða fullt endurgjald fyrir þau verðmæti, sem tekin eru, ella er gjaldaálagningin ógild, þar sem hún brýtur í bága við ákvæði 67. gr. stjskr.

Lög nr. 44/1957 eru ekki í samræmi við margnefnd eignarréttarákvæði stjskr.; fyrst og fremst er skattgjaldið samkv. lögunum svo hátt, að telja má vafalaust, að fjölmargir skattgreiðendur fái ekki undir gjaldinu risið. Hér má líka benda á það, að þegar það lagafrv. var borið fram á Alþ., sem síðar varð að lögum um stóreignaskatt, var áætlað, að skattgjaldið mundi nema um 80 millj. kr., en eftir að skatturinn hefur verið lagður á, hefur komið í ljós, að hann nemur miklu hærri fjárhæð, eða 135 millj. kr. Við hvora fjárhæðina sem miðað er, er hér um svo hátt gjald að ræða, að það verður ekki talinn skattur, heldur hreint eignarnám. Þá er gjaldendum mismunað á hinn herfilegasta hátt, þar sem þess er ekki gætt í mörgum tilvikum að leggja jafna og almenna fjárhagsbyrði á þá, sem eins eru settir fjárhagslega, og er fyrirsjáanlegt, að margir einstaklingar og fyrirtæki geta ekki staðizt samkeppni við þá aðila, sem engan eða lítinn skatt greiða. Ég held, að ég hafi bent á þetta misræmi í fyrri umræðum hér, en vil nú benda á, að það er stórt atriði í þessu máli.

Hæstv. fjmrh. reyndi að fela sig á frumstigum þessa máls á bak við lögin frá 1950 um stóreignaskatt, sem sett voru út af gengisfallinu. Þessi skattur var svo hár, að nauðsynlegt var talið að veita skattgreiðendum allt að 20 ára gjaldfrest. Þeir aðilar, sem skattlagðir voru samkv. þeim lögum, skulda enn yfirleitt um 2/3 hluta þessa skatts. Hér hefur verið fellt að hafa þennan frest 20 ár, eins og vitað er, og er ég nú að reyna að færa þá kröfu niður eða gera tillögu um að færa þá kröfu niður, og undirtektirnar frá hv. frsm. fjhn. hef ég heyrt, þó að d. eigi eftir að greiða um það atkvæði.

Á bak við þennan stóreignaskatt frá 1950 var hæstv. fjmrh. að fela sig með sinn eignarnámsskatt frá síðasta ári og taldi, að sjálfstæðismenn hefðu gortað af því að leggja hann á. Ég mótmælti því þá þegar. En hitt er annað mál, að þar var þó samhliða verið að lækka krónuna um 74%, og var það höfuðástæðan fyrir því, að stóreignaskattur sá var á lagður. Þó munu hafa verið ákaflega deildar skoðanir um það, hvort rétt hefði verið að leggja hann á samkv. stjskr. landsins. Hann á því alls ekki samleið með hinni nýju skattálagningu, sem ég er hér að átelja, skattinum frá 1957, því að hann er vitaskuld ekki á lagður fyrir almennar þarfir landsmanna, heldur fyrir vissa hópa og vissar fjármálastofnanir í landinu þeim til gengis, en alls ekki varðandi landsfólkið allt, og hann er nú svo hár, sá skattur, að hann er talinn vera þrisvar til fjórum sinnum hærri, en skatturinn frá 1950.

Svo er útfærslan á þessu svo einkennileg, eins og kom fram við 2. umr. hjá hv. 6. þm. Reykv., sem taldi ýmis dæmi um, hvað lagaákvæðin væru furðulega frek og útfærsla þeirra einkennileg, og ég get bætt því við, að skattgreiðendur telja, að óheimilt sé með öllu að jafna eignum félaga á einstaklinga, svo sem gert er í lögunum. Í þess stað ber að telja einstaklingum til eignar eignarhluta þeirra í félögum á því verði, sem ákveðið er í gildandi lögum um tekju- og eignarskatt, og er hér sérstaklega átt við hlutabréf í hlutafélögum, en um þau segir svo í e-lið 19. gr. l. um tekju- og eignarskatt frá 1954: „Hlutabréf skulu talin með nafnverði, ef hlutafé er óskert, en annars með hlutfallslegri upphæð, miðað við upphaflegt hlutafé.“

Það er nú öllum kunnugt hér, sem þekkja stóreignaskattslögin, hvernig farið hefur verið með eignamat samkv. þeim á hlutabréfunum. Ég minnti á það í frumræðu minni um málið, þar sem ég tók dæmið af hlutabréfi í Eimskipafélaginu, sem hafði verið 750 kr. upphaflega, en væri metið á 77 þús. kr. eftir þessu mati til stóreignaskattsgjalds.

Það er sem sé einkennandi fyrir þá löggjöf og útfærslu hennar áframhaldandi, að þar beita ríkisvaldið og skattayfirvöldin öllum ráðum til þess að fara sem dýpst ofan í vasa borgaranna og virðast ekkert skeyta um ákvæði stjskr., sem eiga að löghelga og vernda rétt einstaklingsins.

Með leyfi hæstv. forseta, vildi ég mega lesa hér upp úr ritgerð, sem kom í opinberu málgagni um það leyti, er stóreignaskattslögin voru sett eða verið að setja þau. Er þar farið nokkuð inn á það, sem ég hef hér verið að tala um, sem sé ágalla þess frv. varðandi stjskr. og eignarréttinn og mannréttindi yfirleitt. Höfundurinn, sem er vel þekktur lögfræðingur, vísar í upphafi til þess, er segir í stjskr., með leyfi hæstv. forseta:

„Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eigur sínar, nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli, og komi fullt verð fyrir.“

„Þegar lögin frá 1950,“ segir svo í þessari ritgerð, „um gengisskráningu o.fl., voru sett, urðu skiptar skoðanir um, hvort ákvæði þeirra um stóreignaskatt færu í bága við stjskr. Dómstólarnir komust að þeirri niðurstöðu, að svo væri ekki að því er snerti aðalatriði þessara ákvæða. Álitið var, að skatturinn væri m.a. gengishagnaður, sem Alþ, hefði gefið með annarri hendinni og væri nú verið að taka með hinni. Um þetta mátti að sjálfsögðu lengi deila. Marga grunaði, að hér væri skapað fordæmi, sem yrði notað síðar, og þetta kom á daginn.

Nú rétt fyrir páskana (það var á s.l. ári) lagði ríkisstj. fram frv. til l. um skatt á svonefndar stóreignir. Nú þarf ekki að réttlæta hann með neinum lögum um gengisfellingu. Í grg. frv. er bara talað um „ráðstafanir í efnahagsmálum, ósamræmi í eignaskiptingu, óviðráðanlega erfiðleika við rekstur atvinnuveganna, breytingar á fjármálakerfi landsins til að stöðva verðbólguna og koma efnahagsmálunum á traustari grundvöll“ o.fl. þessu líkt. Þessi grg. er ekki sannfærandi. Allir hljóta að sjá, að þessi skattur ræður ekki bót á neinum þeim fjárhagslegu þjóðfélagsmeinum, sem þarna er minnzt á, og honum er heldur ekki ætlað það hlutverk. Skattinum er fyrir fram ráðstafað til óarðbærrar fjárfestingar, þ.e.a.s. til íbúðabygginga og þá fyrst og fremst í Reykjavík, en til þeirra hluta er skatturinn eins og dropi í hafið, sérstaklega þar eð hann á ekki að greiðast nema smátt og smátt á næstu 10 árum.

Allir vita, að hér er bara um að ræða efndir á loforðum, sem hagkvæmt og útlátalítið þykir að gefa við allar kosningar, loforð um það að jafna eignamuninn og koma öllum einkarekstri og frjálsu framtaki fyrir kattarnef. Þar með væri fengin hin langþráða þjóðnýting, sem stefnir að því að smækka þjóðfélagsþegninn, en stækka ríkið og vald þess og þeirra, sem því stjórna.

Í frv., segir höfundur svo enn fremur, „er ekki minnzt á neinar knýjandi eða óvenjulegar ástæður, er réttlætt gætu slíkt eignarnám sem þar er gert ráð fyrir. Ástæður, sem þar eru nefndar, hafa verið fyrir hendi mörg undanfarin ár og verða fyrir hendi, meðan ríkisstj. og Alþ. bæta ekki ráð sitt í afskiptum sínum af fjárhags- og atvinnumálum ríkisins. Verði þetta frv. að lögum, er opin leið til þess að setja slík lög og framkvæma sams konar eignarnám á hverju einasta ári, og þá mætti og minnka hina frjálsu eign eftir vild, hækka skattmatið og skattgjaldið, svo að betur gengi að gera þá eignalausa, sem eitthvað hafa getað efnazt. — Þá væri hinn illa séði efnamunur úr sögunni og um leið allur einkarekstur, sem nú á tímum verður ekki haldið uppi nema með mikilli einkaeign. Þá verður hinu kommúnistíska takmarki náð, að ríkið eða réttara sagt þeir menn, innlendir eða útlendir, sem þá næðu ríkinu á sitt vald, yrðu allt í öllu og hefðu ráð hvers einasta borgara í hendi sér.

Nái þetta frv. samþykki Alþ., og telji hæstiréttur það síðan góð og gild lög, verða 67. og 69. gr. stjórnlaganna eftir það einskisnýt pappírsgögn, — 69. gr. vegna þess, að athafna- og atvinnufrelsi er fyrst og fremst undir því komið, að þjóðfélagsþegninn megi hafa með höndum eigin atvinnurekstur, frjálsan og sjálfstæðan, en þurfi ekki að sækja atvinnu sína undir aðra og vera undir yfirráðum annarra. Það er t.d. þetta almennt þráða frelsi, sem enn þá gerir það eftirsóknarvert að vera bóndi á Íslandi, en ekki það, að því starfi fylgi miklar tekjur eða náðugir dagar. En íslenzkur bóndi, sem ætlar sér að vera eða verða vel stæður, þannig að hann geti með búskap sínum tryggt sér og konu sinni og við skulum segja nokkrum uppkomnum börnum góða framtíðaratvinnu, getur verið gildur stóreignamaður samkv. frv. þessu.“ (Forseti: Ég óska, að hv. þm. talaði eitthvað um frv., sem fyrir liggur.) Ég er að tala um lögin, sem ég er að gera brtt. við, herra forseti. (Forseti: Hvorki um frv., sem fyrir liggur, né tillögurnar nú nokkuð lengi.) Nei, ég var einmitt að láta hæstv. forseta heyra rök, sem hann hefur verið að reyna að mótmæla, þegar ég hef komið með þau, rök fyrir því, að lögin um stóreignaskatt væru stjórnarskrárbrot, og það álít ég að komi umræðunum við. (Forseti: Ef þm. heldur því fram, að frv., sem fyrir liggur, sé stjórnarskrárbrot.) Ég held því fram, að stóreignaskattslögin, sem brtt. mínar eru stílaðar við, séu stjórnarskrárbrot, og hæstv. forseti hefur í líki 1. þm. Eyf. verið að mótmæla þeirri minni skoðun, og ég er einmitt að láta hann og aðra heyra fleiri rök fyrir því, að stóreignaskattslögin voru stjórnarskrárbrot á sínum tíma. Nú, en þetta verður ekki svo langt, að hæstv. forseti þurfi að ókyrrast mjög út af því.

„Rétt er að athuga þá spurningu, hvort þessi fyrirhugaði stóreignaskattur sé í eðli sínu skattur, er hinum almenna löggjafa sé heimilt að leggja á ákveðinn hóp skattþegnanna, eða hvort sé um að ræða eignarnám, sem er því aðeins löglegt, að skilyrði 67. gr. séu fyrir hendi og fullar bætur komi fyrir.

Af fyrirmælum stjórnarskrárinnar um skattlagningu verður ekki betur séð, en að skattar séu í eðli sínu árstillög skattþegnanna til þjóðfélagsins á borð við ársgjöld meðlima í öðrum félögum. Þessi meðlimagjöld til ríkisins skal áætla samkv, 42. gr. stjskr. með frv. til fjárl. fyrir það fjárhagsár, sem í hönd fer, og skal í frv. fólgin grg. um tekjur ríkisins og gjöld. Aðferðin er og á að vera sú að áætla öll nauðsynleg útgjöld ríkisins á fjárhagsárinu og ákveða svo, á hvern hátt tekna skuli aflað til að standast útgjöldin. Ef gjöldin fara fram úr áætlun eða tekjur verða minni en gert var ráð fyrir, er heimilt að ráða bót á því með svonefndum fjáraukalögum.“

Ég ætla, að með tilvísun til þessarar merku ritgerðar og til fleira, sem ég hef fram fært hér við þessa umr., hafi ég fyllilega andmælt skoðunum hv. form. fjhn. á því, á hvern hátt lögin um stóreignaskatt í heild sinni snerti stjskr. og réttindi þegna þessa lands til þess að njóta verndar hennar. Þeir, sem á þessum tíma hafa samþ. þessi lög, hafa allir skrifað undir það að halda stjskr. gagnvart þegnunum, þegar þeir komu fyrst á þing, og það virðist því vera, að þeir hafi ekki vandlega kynnt sér eignarréttargreinar stjskr. og mannréttindi þegnanna yfirleitt, þegar þeir samþ. lögin um stóreignaskattinn, eða sem réttilega ætti að nefna um eignarán, vegna þess að þau eru lög um eignarnám án þess að uppfylla þær kvaðir, sem stjskr. leggur á hendur löggjafanum, ef þvílík eignarnámslög eru sett.

Hæstv. ráðh. hefur lítið haft við það að vera við þessa umr., og hæfir það kannske ekki hans stóru persónu að gefa þeim neinn gaum, og hæstv. forseti hefur heldur amazt við því, að ég væri að tala hér um stóreignaskattinn, þó að það sé eiginlega fyllilega þinglegt og réttmætt, þegar ég er að flytja brtt. við þau lög.

Ég held, að bæði hæstv. forseti og ég tala nú ekki um hæstv. ríkisstj. muni sjá framan í það, áður en lýkur, hver áhrif það hefur á atvinnu fólksins í landinu að haga löggjöfinni á þann veg, sem gert var með stóreignaskattinum, og það er eðlilegt. Ég hef sýnt fram á það hér í umræðunum, því hefur ekki verið mótmælt með rökum, að sjávarútvegurinn út af fyrir sig geldur þarna 30 millj. kr. afhroð. Einhverjir verða að borga það, og allir, sem sjávarútveg stunda, standa aftur undir atvinnu fjölda fólks hver um sig, og með því að veikja viðnámsþol þessara manna, veikir ríkisstj. og Alþ. atvinnulífið og kjör fólksins í landinu. Eðlileg afleiðing af þess háttar löggjöf, — ég tala nú ekki um, þegar hún er gerð hvað ofan í annað, — er, að ungt fólk fælist frá því að hugsa um sjálfstætt atvinnulíf, enda grípur sú hugsun meira og meira um sig. Það er ekki bara flóttinn úr sveitunum, sem við erum vottar að, heldur flóttinn frá atvinnuvegunum, hvar svo sem er, og jafnvel flóttinn úr landinu. Það hefur vakið athygli síðustu mánuðina, hve margt fólk flytur hér af landi burt. Það er ekki ólíklegt, að sú skattalöggjöf og skattarán, sem ríkir á ýmsum sviðum, en kemur fram í sinni ferlegustu mynd í svokölluðum stóreignaskattslögum, eigi ríkan þátt í því að flæma fólkið ekki aðeins úr sveitinni og til sjávarhéraða, heldur hreint og beint frá landinu eða a.m.k. frá ábyrgð á öllum atvinnuvegum.

Þegar eignarrétturinn, sem á að vera tryggður í grundvallarlögum ríkisins eða stjskr., er fótum troðinn, eins og farið er með hann af þeirri löggjöf, er hér um ræðir, og allar tilraunir til að milda hin illu áhrif löggjafarinnar eru vægðarlaust kæfðar af stjórnarliðinu, þá er ósköp líklegt, að margir sjái fram á það utan þingsalanna, að það er næsta tilgangslítið fyrir menn, unga eða gamla eða þar í milli, að vera að basla við að spara og eignast eitthvað til þess að geta annaðhvort veitt atvinnu eða a.m.k. haft af atvinnu sjálfir.

Niðurstaðan verður því sú, að fólk fælist frá því að spara og færist meira í þá áttina að leggja allar sínar áhyggjur á aðra og þá helzt á bæjarfélag eða ríki, og er það náttúrlega alveg í anda þeirra manna, sem vilja helzt hafa ríkisforstöðu á öllum hlutum, eins og greinarhöfundur kemst hér að orði í því, sem ég las hér upp áðan af prentuðu máli, með leyfi hæstv. forseta. Austrænt ríkisvald virðist vera metið meira í augum núverandi valdhafa í landinu, heldur en vestræn mannréttindi. Vestræn mannréttindi hafa verið með þessum ólögum fótumtroðin, en mjög ýtt undir strauminn til hins austræna ríkisvalds, og kann það að vera að nokkru leyti vegna þess, að stjórnin styðst svo mjög sem vitað er við kommúnista, því að sú stefna er þeim náttúrlega harla kærkomin, að sem flestir borgarar landsins verði ófærir um að standa undir atvinnurekstrinum og að sem flestir borgarar landsins þurfi að leita á náðir ríkisins á einhvern veg til framfærslu. En ég hefði ekki álitið, að það ætti að vera áhugamál fyrir borgaralegan flokk, eins og t.d. Framsókn, að efla þá stefnu.

Hæstv. forseti gaf mér ábendingu um það, að ég ætti að halda mér meira við það frv., sem fyrir lægi. (Forseti: Og tillögurnar.) Og tillögurnar, já. Tillögurnar hafði ég rætt mikið við 2. umr., og ég held, að hv. frsm. eða hv. form. fjhn., annar hvor eða báðir, hafi sagt, að á þeim væri lítill munur og þeim fyrri, og finnst mér því ekki bein þörf á því að rökstyðja þær í þetta sinn mjög sérstaklega fyrir hv. d. Rökstuðningurinn fyrir þeim í dálítið stærra formi var fluttur fyrr, og mér þótti óþarfi að fara að endurtaka hann. En ef hæstv. forseti leggur á það áherzlu, þá get ég náttúrlega lesið upp aftur það, sem ég sagði við 2. umr. um þær. (Forseti: Ég átti ekki við það. Náttúrlega er enginn þm. skyldugur til að halda langar ræður.)

Frv. sjálft hefur ekki í sér annað ákvæði, en að framlengja frest fyrir ríkisstj., sem var framlengdur með brbl., frest fram yfir áramótin til að vinna þau verk að stóreignaskattinum, sem áttu eftir lögunum að vera unnin fyrir áramót. Um það er ósköp fátt að segja. Það er vitanlegt, að það hefur verið mikið verk að koma því af fyrir áramót, og um framlengingu frestsins og það, sem gert hefur verið eftir áramótin, hef ég ekkert að segja annað en það, að ég álít, að þeim mun minna sem hefði verið gert í þessu máli, þeim mun betra. Þeim mun minna sem unnið er að ólögum í landinu, þeim mun betra, því að það er, eins og ég drap á áðan, farinn að koma fram vottur þess í þessu þjóðfélagi, að ólögin eyði landinu, enda var því að fornu spáð.

Mér þykir hæstv. fjmrh. sýna þessari hv. d. heldur litla virðingu, þar sem hann nú við þessar síðari umr., 2. og 3. umr., hefur ekki sézt koma hér í ráðherrastól, og er þó hér, eins og þegar hefur verið tekið fram af öðrum, en mér, um eitt hið þýðingarmesta mál að ræða. En það er náttúrlega hæstv. forseti, sem verður mest fyrir því barði, að ráðherrar sýna sig ekki í d., þrátt fyrir það þó að sé verið að ræða þeirra eigin áhugamál, sem verið hafa og eru.

Ég skal svo ekki tefja fyrir framgangi málsins út af fyrir sig og svo fremi ekki gefst tilefni eyða meiri tíma í umr. um þetta mál. Ég sé fram á það, að sérstaklega verði okkar brtt. enn á ný felldar, þá verður það að eðlilegum hætti, að sá hluti þjóðarinnar, sem hefur orðið fyrir misbeitingu valds við setningu stóreignaskattslaganna, hlýtur að snúa sér til dómstóla landsins, og verður þá hver að hlíta því, sem þar verður seinast niðurstaða, það má segja í hæstarétti. En það er farið að verða eftirtektarvert, ef þingið fer æ ofan í æ að setja löggjöf, sem gengur svo nærri stjórnarskránni og eins og í tilfellinu um stóreignaskattinn þverbrýtur undirstöðu mannréttindaákvæða stjórnarskrárinnar, að þegnarnir neyðast til þess að leita til dómstólanna sér til verndar.

Þeir, sem þannig eru leiknir, þegar um óbilgjarna valdhafa er að ræða, sem í skjóli þess, að þeir sitja á þingi og í ríkisstj., fótumtroða mannréttindi þegnanna, eiga ekki annars úrkosta, en að leita til dómstólanna.