27.03.1958
Efri deild: 74. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í B-deild Alþingistíðinda. (604)

100. mál, skattur á stóreignir

Forseti (BSt):

Ég skal taka það fram, að auk þeirra ástæðna, sem ég nefndi áðan fyrir því, að ég vildi ekki eiga frumkvæði að því að fresta þessu máli, hefur bætzt sú ástæða, að mér hefur borizt beiðni um fjarvistarleyfi frá þremur hv. dm, á morgun og dagana, sem eftir eru til páska, og með því að fresta fundinum t.d. til kvölds eða umr., væru þessir menn útilokaðir frá að taka þátt í atkvgr. um þetta mál (GTh: Má ekki fresta þessu fram yfir páska, þetta er nokkuð langt?) Ég veit ekkert um þinghald eftir páska, ekki nokkurn hlut, og það er ekki á mínu valdi, hvenær þingi lýkur.

Hv. þm. Vestm. (JJós) lét falla orð um, að það mundi ekki hafa verið til neins að biðja um forsetaúrskurð í fyrra um það, hvort frv. um stóreignaskatt kæmi í bága við stjórnarskrána eða ekki, vegna þess, að mér skildist, að ríkisstj. mundi hafa fyrirskipað forseta að kveða upp úrskurð á ákveðinn hátt. Þessu vil ég algerlega mótmæla, að a.m.k. ég láti fyrirskipa mér neitt um það, hvernig úrskurð ég kveði upp sem forseti. Ég hygg, að hv. þingmaður geti ekki nefnt dæmi þess, að ég hafi gert svo. Það hefur sjaldan komið fyrir mig að kveða upp úrskurð, en þegar það hefur komið fyrir, þá hef ég leitað ráða þess manns, sem ég hef vitað færastan og kunnugastan stjórnarskrá og þingsköpum, og yfirleitt haft hann til ráðuneytis.Hann er því miður andaður nú, en hann naut trausts allra þm., og sá maður var á lífi í fyrra.