07.02.1958
Efri deild: 48. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í B-deild Alþingistíðinda. (609)

97. mál, réttur verkafólks

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Nokkru fyrir jólin var lagt fram frv. það, sem hér er til umr., um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og um rétt til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla, en í jólaannríkinu vannst ekki tími til að afgr. málið.

Það er alkunnugt, að allir þeir, sem teljast vera fastir starfsmenn og fá kaup sitt greitt mánaðarlega, eiga við það öryggi að búa, að þeim verður ekki sagt upp starfi án fyrirvara. Venjulega er um 1–3 mánaða uppsagnarfrest að ræða hjá föstum starfsmönnum, en þó er nokkuð algengt, að fastir starfsmenn, einkanlega í þjónustu hins opinbera, hafi 6 mánaða uppsagnarfrest, og til er það, að háttsettir embættismenn njóti árs uppsagnarfrests. En þessu er allt annan veg farið með þá verkamenn, sem taka kaup sem tímakaupsmenn eða vikukaupsmenn. Slíkir menn hafa engan uppsagnarfrest. Þeim geta atvinnurekendur sagt upp fyrirvaralaust, þó að verkamaðurinn hafi jafnvel verið í þjónustu sama atvinnurekanda eða sama atvinnufyrirtækis árum eða áratugum saman. Við slíkan verkamann er hægt að segja að kvöldi, að loknu dagsverki: Við höfum ekki þörf fyrir vinnu þína að morgni né heldur framvegis. Þetta er mikið og átakanlegt öryggisleysi, enda hefur verkalýðshreyfingin um langt skeið reynt að fá viðurkenningu atvinnurekenda fyrir nokkrum uppsagnarfresti til handa þeim verkamönnum, sem lengi hafa unnið hjá sama atvinnurekanda, en fengið þó kaup sitt greitt í venjulegu tíma- eða vikukaupi. En af einhverjum ástæðum hafa atvinnurekendur samt aldrei viljað fallast á þetta, og þetta hefur ekki náðst fram með frjálsum samningum.

Ég hygg, að í grg. fyrir frv. sé nokkuð ljóslega og í stuttu máli skýrt, hversu óeðlilegt það er að láta tímakaups- og vikukaupsmenn, sem að staðaldri vinna hjá sama atvinnurekanda, ekki njóta sama réttar og fasta starfsmenn, en í grg. segir svo:

„Það sýnist ekki skipta öllu máli, hvort launþeginn fær laun sín greidd mánaðarlega eða hvort launin eru greidd vikulega, eins og tíðkast um laun tíma- eða vikukaupsmanna. Samband atvinnurekanda og launþega skiptir hins vegar mestu máli. Þegar samband þeirra er varanlegt árið út eða lengri tíma, virðist eðlilegt, að launþeginn eigi rétt á nokkrum fyrirvara, ef atvinnurekandinn vill segja honum upp starfi. Sama máli gegnir um atvinnurekandann. Eðlilegt virðist, að hann fái vitneskju um það með nokkrum fyrirvara, ef slíkur launþegi óskar að láta af störfum hjá honum. Þegar slíkt varanlegt samband hefur skapazt milli atvinnurekanda og launþega, gefur það sjálfkrafa þá von, að það muni vara áfram, nema sérstakar ástæður komi til. Hvor aðila um sig mun því jafnan vera illa undir það búinn, að samband þeirra rofni fyrirvaralaust. Það þykir því eigi óeðlilegt að lögfesta gagnkvæman uppsagnarfrest í þeim tilfeilum, þegar samband atvinnurekanda og launþega er svo varanlegt, að það sé órofið heilt ár eða meira.“

En þetta, að tryggja uppsagnarfrest tíma- og vikukaupsmönnum, sem unnið hafa hjá sama atvinnurekanda a.m.k. 1.800 klukkustundir á einu ári, þar af eigi minna en 150 klukkustundir síðasta mánuðinn fyrir uppsögn, og hafa þannig órofið samband við atvinnurekandann, er annað aðalatriði þessa frv. Ég hygg, að allir sanngjarnir menn hljóti að viðurkenna, að slíkt öryggi sé réttmætt og sanngjarnt og beri að festa í lögum til aukins jafnréttis við aðra.

Hitt meginefni frv. felst í 3. gr. þess og tryggir tíma- og vikukaupsmönnum þann rétt að missa einskis í af launum sínum fyrstu 14 dagana, eftir að þeir forfallast frá vinnu sökum sjúkdóma eða slysa. Þetta ákvæði er samhljóða ákvæði, sem um nokkur ár hefur verið í gildi í 86. gr. laganna um almannatryggingar, og tekur það til allra fastra starfsmanna. Með ákvæðum 3 gr. þessa frv. er ákvæðinu einnig ætlað að ná til þeirra tíma- og vikukaupsmanna, sem öðlast nú rétt til uppsagnarfrests, eins og fastir starfsmenn væru, samkv. ákvæðum 1. gr. þessa frv.

Verkalýðshreyfingin telur þetta vera mikið réttlætis- og jafnréttismál, og jafnframt er það óneitanlega þýðingarmikið öryggismál fyrir verkamenn, því að varla getur nokkur maður staðið í ömurlegri sporum, en þeim að fá allt í einu, fyrirvaralaust, að vita, að hann standi í sporum atvinnuleysingjans, án þess að hann hafi fengið nokkurt svigrúm til þess að leita sér atvinnu annars staðar. En á þessu er einmitt ráðin veruleg bót með lögfestingu þessa frv., sem þó er þannig byggt upp, að þar gætir fyllstu sanngirni og tilhliðrunarsemi gagnvart atvinnurekendum, og vitna ég í því sambandi sérstaklega til 2. gr. frv., sem er sett hér inn til þess að taka tillit til þess óstöðugleika, sem oft er í íslenzku atvinnulífi og atvinnurekendurnir sjálfir geta ekki ráðið við.

Ég vil vona, að þetta frv. fái hér skjóta og góða afgreiðslu í hv. d., og legg til, að málinu verði vísað til hv. félmn.umr. lokinni.