07.02.1958
Efri deild: 48. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (612)

97. mál, réttur verkafólks

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil eindregið taka undir þau orð, sem þegar hafa verið látin falla um þetta mál af hálfu hæstv. félmrh. og hv. 8. landsk. — Til skýringar því, sem hv. þm. V-Sk. (JK) sagði hér áðan, að sér fyndist einkennilegt, að þetta mál skyldi vera tekið upp nú eitt út af fyrir sig, án þess að allsherjar endurskoðun vinnulöggjafarinnar færi fram, þá held ég, að svarið við því hafi verið komið fram í ræðu hv. 8. landsk. þm., þar sem hann lýsti því mjög skilmerkilega, að hér er verið að efna loforð, sem ríkisstj. gaf, er heildarsamningar við fulltrúanefnd verkalýðsfélaganna eða alþýðusamtakanna voru gerðir á s.l. hausti. Það var gengizt inn á það þar, að flutt yrði löggjöf um þetta mál hér á Alþingi, og það er verið að efna þau loforð. Það er því óháð allsherjar endurskoðun vinnulöggjafarinnar, sem að sjálfsögðu margir geta verið sammála um og kannske flestir að þyrfti endurskoðunar við, þó að menn geti svo aftur að hinu leytinu ekki verið sammála um, hvaða atriði það eru í vinnulöggjöfinni, sem raunverulegrar endurskoðunar þyrftu við.

Hv. þm. V-Sk. talar um, að hér sé gripið inn í samningsrétt verkafólks og atvinnurekenda með flutningi þessa frv. Þetta er gömul saga og gamalt álit, sem ég hélt að væri úr sögunni í hópi alþm. Orlofslögin, vökulögin og öll þau framfaramál, sem lögfest hafa verið hér á Alþingi, að vísu eftir harða baráttu verkalýðsfélaganna, má segja að á sinn hátt gripi inn í samningsrétt verkafólks og atvinnurekenda. Mörg af þeim málefnum, sem upp koma í samningum atvinnurekenda og verkafólks, eru þannig vaxin, eins og það mál, sem hér er til umræðu, að þau eiga ekki að vera samningsatriði eða þrætuepli. Það er mannúðarmál, mannréttindamál, sem hér er á ferðinni, og þau eiga ekki að vera samningsatriði eða togstreituatriði milli verkalýðsfélaga og atvinnurekenda. Það er skylda þingsins að grípa þar inn í.

Ég vil þess vegna eindregið, eins og ég sagði í upphafi, lýsa stuðningi mínum við þetta frv. og vona, að hugsunarháttur eins og kom fram hjá hv. þm. V-Sk. sé úr sögunni varðandi slík mál, sem þetta, á hv. Alþingi.