07.02.1958
Efri deild: 48. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (615)

97. mál, réttur verkafólks

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það verður ekki um það deilt, að hv. þm. V-Sk. gerði þá athugasemd við þetta frv., að hér væri verið að leysa mál með löggjöf, sem á undanförnum árum hefði verið samningsatriði milli atvinnurekenda og verkalýðsfélaga.

Það er alveg rétt. Málið er árum saman búið að vera verkefni á samningaborðinu milli atvinnurekenda og verkalýðssamtakanna og ekki náð fram að ganga. En svona hefur það gengið um mörg mjög þýðingarmikil verkalýðsmál, að þau hafa ýmist alls ekki náð fram að ganga við samningaborðið ellegar á ófullnægjandi hátt, og þá hefur verkalýðssamtökunum leiðzt þófið og freistað þess að fá úr skorið um réttindamálin á löggjafarsviðinu, á Alþingi.

Þannig gekk það, eins og að var vikið hér, að lengi var barizt á sviði verkalýðsmálanna um að fá löghelgaðan hvíldartíma togarasjómanna, en gekk ekki, og þá er farið hér á stað með að reyna að tryggja þeim með lagasetningu 6 stunda hvíld. Það gekk erfiðlega. Þá hefur vafalaust verið sagt: Ja, nú er verið að grípa þarna inn í samningsrétt atvinnurekenda og verkalýðsfélaganna og farið inn á löggjafarsviðið með það. — Og það var verið að gera það þá. Svo tókst á Alþingi að fá lágmarkshvíldina, 6 stundir, lögfesta, síðan aftur bót á þeirri löggjöf, 8 stunda hvíld, og nú fyrir fáum árum vorum við hér að afgreiða 12 stunda hvíld á togurum, einmitt á löggjafarsviðinu.

Öll þessi mál eru á fyrsta stigi sínu samninga- og viðræðumál, en þegar menn vilja gera árangurinn varanlegan, taka þetta út af þrætu- og átakasviði atvinnurekenda og verkamanna, þá er leiðin að lokum sú að fá lagastaf fyrir réttindunum, fá þau lögfest. Og þannig er þetta samningamál, sem hefur staðið á dagskrá hjá atvinnurekendum og verkalýðssamtökum í meira en áratug, nú tekið út úr að beiðni verkalýðssamtakanna og óskað eftir lögfestingu í því formi, sem málið hefur nú verið lagt fram í.

Þá vík ég að hinu atriðinu, sem hv. þm. V-Sk. vék að. Honum fannst þetta vera atriði, sem ætti að fjalla um í vinnulöggjöfinni. Að vísu er þetta mál verkamanna, hins vinnandi fólks, og er þannig í eðli sínu vinnumál. En hvað er vinnulöggjöfin? Er hún löggjöf um slík mál? Nei, hún er það ekki. Hún heitir nú réttu nafni, þó að hún sé kölluð alltaf vinnulöggjöfin, — hún heitir: Löggjöf um stéttarfélög og vinnudeilur. Og hún fjallar um verkföll og verkbönn og sáttaumleitanir í vinnudeilum og er lagagrundvöllurinn, sem sáttasemjari ríkisins og héraðssáttasemjararnir í vinnudeilum starfa eftir.

Þetta mál mundi á engan hátt snerta vinnulöggjöf í þeim skilningi, sem við höfum enn, og er allt annars eðlis; jafnfjarskylt því að heyra undir þá löggjöf eins og hvíldartími togarasjómanna. Orlofsrétturinn og uppsagnarréttur verkamanna gagnvart atvinnurekendum á ekkert skylt við vinnudeilur, verkföll eða verkbönn eða sáttaverkefnin í sambandi við vinnudeilur og mundi því ekkert koma inn á það svið, sem vinnulöggjöfinni hjá okkur hefur verið markaður bás með fram til þessa. Hitt játa ég, að það væri vel hægt að hugsa sér að setja upp lagakerfi á allt öðrum grundvelli, en núverandi löggjöf um stéttarfélög og vinnudeilur fjallar um, sem sé um hin almennu réttindi hins vinnandi fólks, réttindi og skyldur vinnandi fólks, vinnulöggjöf í miklu víðtækari skilningi, og það mætti kannske ná yfir flest þau réttindamál verkalýðs, sem hafa verið lögfest fram að þessu, og setja það allt saman í einn lagabálk og slíkt heyrði þá undir þann þátt félmrn., sem fjallar um sérstök vinnumál, og víða í öðrum löndum, er sérstakt vinnumálaráðuneyti.

En í sambandi við þetta vék hv. þm. V-Sk. þeirri spurningu til mín, hvort vinnulöggjöfin sé ekki orðin úrelt. Hún er ekki úrelt neitt í sambandi við það, að það skuli ekki vera í henni lagaákvæði um uppsagnarrétt verkafólks. En hún er búin að standa núna allmörg ár og hefur lítið eða ekki verið breytt, síðan hún var sett, og þá var þetta frumsmíð, mjög vandasamt mál og viðkvæmt, og það er gefinn hlutur, að á þessu árabili eru bæði atvinnurekendur og verkamenn búnir að sjá ýmsa agnúa á þeirri löggjöf og hvorir um sig teldu vafalaust þörf á og réttmætt, að lögin væru nú endurskoðuð, þegar komin er slík reynsla á þau sem nú er komin. Og ég skal játa það, að ég er einn þeirra manna, sem telja fyllilega orðið tímabært að fara að huga að endurskoðun á vinnulöggjöfinni, og stend þar ekki í gegn og veit, að það mætti margt læra af reynslu undanfarinna ára og endurbæta þá löggjöf í samræmi við þá reynslu. Það tel ég vera sjálfsagt að gera, enda er þegar, að ég hygg, af báðum aðilum, Vinnuveitendasambandi Íslands og Alþýðusambandi Íslands, unnið að undirbúningi þessara mála, af hvorum aðila um sig út frá sínum sjónarmiðum, út frá þeim óskum um breytingar, sem hvorir um sig vilja fá á vinnulöggjöfinni. En ég geri ráð fyrir, að þar fari kannske óskirnar alls ekki saman. Við höfum ekki nein samskipti, þessir aðilar, um þessi mál, þótt við ræðum þau oft og tíðum okkar á milli, því að það er nú ekki svo, að þessir aðilar, eins og Vinnuveitendasambandið og Alþýðusambandið, séu þeir fjendur, að þeir ræðist ekki við. Það væri náttúrlega algerlega óheilbrigt og óeðlilegt mál. Við höfum um svo þýðingarmikil mál að fjalla dögum og vikum saman og árið um kring í raun og veru, að við verðum að vera í mjög nánu sambandi hvorir við aðra. En ég veit ósköp vel, að viðhorf Vinnuveitendasambandsins eru þau, að það vill í öllum aðalatriðum breyta vinnulöggjöfinni á þann hátt, að atvinnurekendur teldu sinn rétt betur tryggðan með löggjöfinni, en hann er nú, og Alþýðusambandið hins vegar vill aftur aðallega fá breytingar á löggjöfinni, sem tryggi betur rétt hins vinnandi fólks, þegar út í deilur er komið, verkföll eða verkbönn, og mundi miða aðalefni sinna brtt. við núverandi vinnulöggjöf við það, að umbætur fengjust í þá áttina.

Það má því búast við, að þetta yrði mjög mikið átakamál. En aftur á móti um mál eins og þetta er full ástæða til þess að ætla, að það sé mál, sem náist samkomulag um í fullri eindrægni hér á Alþingi, þegar málið er lagt öfgalaust fyrir, eins og hér hefur verið gert. Og því hef ég auk þess, sem ég hef nú vikið að um mismunandi eðli þessara mála, talið mjög óskynsamlegt, ef verkalýðshreyfingin hefði viljað láta afgreiða þetta mál í sambandi við breytingu á löggjöfinni um stéttarfélög og vinnudeilur, enda liggur fyrir, eins og hv. 4. þm. Reykv. sagði hér áðan, alveg sérstök ósk verkalýðssamtakanna um að afgreiða þetta mál nú á þessu þingi út af fyrir sig.

Ég get því sagt það, að endurskoðun laganna um stéttarfélög og vinnudeilur hefur í mörg ár verið í undirbúningi hjá Vinnuveitendasambandinu og Alþýðusambandi Íslands, og þeim undirbúningi er nú haldið áfram á nokkru breiðari grundvelli, og hygg ég því, að það líði ekki langir tímar, þangað til lögin um stéttarfélög og vinnudeilur verða tekin til endurskoðunar. Og þá er að athuga, hvort menn vilja færa verksvið þeirra mikið út fyrir þann ramma, sem sú löggjöf hvílir nú á, sem sé að fjalla um deiluatriðin milli aðilanna á vinnumarkaðinum, atvinnurekenda og verkafólks, samtaka þeirra, eða hvort það á í almennri vinnulöggjöf, líkt og hv. þm. V-Sk. hefur bent á, að færa inn í þá löggjöf hinar ýmsu greinar réttindamála hins vinnandi fólks í landinu. En þá yrði það gerbreyttur grundvöllur frá því, sem nú er, og allt önnur vinnulöggjöf, en við eigum við, þegar við nefnum það orð í dag.