24.02.1958
Efri deild: 55. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

97. mál, réttur verkafólks

Frsm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Frv., sem liggur fyrir, fjallar um verulegar kjarabætur til handa þeim verkamönnum, konum og körlum, sem fá laun sín greidd í tíma- eða vikukaupi. Þessar kjarabætur eru tvenns konar. Í fyrsta lagi er samkv. frv. ekki heimilt, eins og hingað til hefur tíðkazt, að segja slíkum verkamanni upp starfi fyrirvaralaust, hafi hann unnið í eitt ár eða lengur hjá sama atvinnurekanda, heldur ber honum þá minnst eins mánaðar uppsagnarfrestur. Hann öðlast því að þessu leyti sama rétt og mánaðarkaupsmenn hafa nú samkvæmt samningum. Í öðru lagi skal tíma- og vikukaupsmaður, sem á rétt á uppsagnarfresti, ekki missa neins í af launum sínum fyrstu 14 dagana, eftir að hann forfallast frá vinnu sökum veikinda eða slysa. Á í því efni að gilda um hann sama ákvæði og í gildi er varðandi fasta starfsmenn, en það er að finna í lögum um almannatryggingar frá 1956, 86. gr.

Í frv. er nánar tilgreint, hvenær launþeginn telst hafa unnið eitt ár hjá sama atvinnurekanda, og eru það minnst 1.800 klst. á síðustu 12 mánuðum og þar af a.m.k. 150 stundir síðasta mánuðinn fyrir uppsögn. Fjarvistir vegna slysa og sjúkdóma, orlofs, verkfalla og verkbanna teljast í þessu sambandi unnar stundir, og er þá miðað við 8 stunda vinnudag. Ef vinna fellur niður hjá atvinnurekanda af eðlilegum eða óviðráðanlegum ástæðum, er hann ekki skyldur til að greiða launþega kaup, og er það ákvæði haft til þess að koma í veg fyrir ástæðulausar uppsagnir af hálfu atvinnurekenda.

Ákvæði frv. um eins mánaðar uppsagnarfrest og að uppsögn skuli vera skrifleg og miðast við mánaðamót er gagnkvæmt, gildir bæði fyrir vinnuveitanda og launþega.

Loks er í frv. skýrt fram tekið, að ákvæði þessi haggi ekki samningum atvinnurekenda og launþega um greiðslu atvinnurekenda á sjúkrapeningum til starfsmanna sinna og að öll samningsbundin ákvæði, sem nú eru í gildi og ganga skemmra en frv. í kjarabótaátt, skuli vera ógild, en haldast, ef þau eru launþega hagstæðari, en ákvæði frv.

Heilbr.- og félmn. leitaði álits Alþýðusambands Íslands, Vinnumálasambands samvinnufélaganna og Vinnuveitendasambands Íslands á frv. Bárust n. álitsgerðir frá öllum þessum aðilum og auk þess frá Félagi íslenzkra iðnrekenda, og var þó veittur frestur til svara, óneitanlega helzt til stuttur.

Eins og gefur að skilja, skiptir nokkuð í tvö horn um álit þessara aðila á frv. Mun ég ekki fara út í þá sálma nú, enda óþarft, þar eð allar grg. eru prentaðar sem fskj. með nál. á þskj. 246.

Að athuguðu máli varð n. sammála um að mæla með samþykkt frv. með þrem smávægilegum breytingum.

Er 1. brtt. þess efnis að kveða nánar á um, hvað átt sé við með orðinu verkamaður í 1. gr. frv., sem sé að þar sé átt við bæði iðnlærðan og óiðnlærðan verkamann, og á það að sjálfsögðu jafnt við konu sem karl.

2. till., sem er ný grein, fjallar um það tilvik, að verkamaður fari samkv. beiðni atvinnurekanda síns um tíma í vinnu til annars atvinnurekanda. Skal sá tími þá talinn unnar vinnustundir hjá fyrrgreinda atvinnurekandanum hvað þann rétt hans snertir, sem 1. gr. ræðir um.

Loks er 3. till. einungis um breytingu á heiti frv. til fyllra samræmis við efni þess. Í 3. gr. er rætt um rétt fastra starfsmanna til launa í veikinda- og slysaforföllum auk þeirra tíma- og vikukaupsmanna, sem þar um ræðir. Því þykir n. rétt, að fastra starfsmanna sé getið í heiti frv., og það því frekar sem sams konar ákvæði um þá verður með samþykkt frv. fellt niður úr lögunum um almannatryggingar.

Með frv. þessu er ætlunin, að lögbundnar verði kjarabætur, sem verkalýðsfélögin hafa árum saman barizt fyrir að fá með samningum. Það er ekkert óvenjulegt við það, að kjör launþega séu ákveðin í lögum. Í 86. gr. almannatryggingalaganna er þannig ákveðið, að fastir starfsmenn skuli einskis í missa af launum sínum fyrstu 14 dagana, eftir að þeir forfallast frá vinnu vegna sjúkdóma eða slysa. Þetta er dæmi um lögfestingu á kjarabót. Hitt er að vísu algengara, að kjör launþega hafi verið rýrð með löggjöf á liðnum árum. Gerðardómslögin 1942 skertu rétt launþega. Hið sama var gert með vísitölubindingu um áramótin 1947 og 1948 og gengisskráningunni 1950. Það er því engin ástæða til að kalla þetta frv. „freklegt brot“ eða öðrum þvílíkum nöfnum, og það því síður sem í því felst réttarbót handa þeim starfsstéttum, sem eru á meðal hinna lægst launuðu í landinu og hafa ótryggasta atvinnu.

Frv. er ekki byggt á neinum eldri lögum um sama efni. Verði það að lögum, kann því svo að fara, að reynslan leiði í ljós einhverja ágalla. Ber þá að taka því, enda hægur nær, þegar reynsla er fengin, að endurskoða og færa til betri vegar.

Að lokum vil ég geta þess, að þótt öll n. mæli með samþykkt frv. með áður greindum breytingum, þá hafa tveir nm., þeir hv. 2. þm. Árn. og hv. 11, landsk, þm., nokkurn fyrirvara á, og er aths. þeirra birt í nál. Telja þeir frv. að ýmsu leyti ábótavant og undirbúningur málsins gallaður, en eru hins vegar sammála öðrum nm. um nauðsyn þess, að betur sé tryggt, en nú er, atvinnuöryggi tíma- og vikukaupsverkamanna.