24.02.1958
Efri deild: 55. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í B-deild Alþingistíðinda. (618)

97. mál, réttur verkafólks

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Eitt alvarlegasta vandamál hvers þjóðfélags hefur reynzt vera að sjá öllum þegnum sínum fyrir nægjanlegri og arðbærri atvinnu. Lausn þessa vandamáls er ekki einvörðungu nauðsynleg hvað við kemur fjárhag ríkisins á hverjum tíma, heldur og lífsviðhorfi einstaklingsins, sem atvinnuna skortir, þótt að sjálfsögðu hvort tveggja haldist nokkuð í hendur.

Vitur maður sagði eitt sinn, að það skaðlegasta fyrir hvert þjóðfélagslegt samfélag væri atvinnuleysið. Það er a.m.k. víst, að atvinnuleysið hefur verið og er enn í dag mesti bölvaldur allra alþýðuheimila, sem lífsafkomu sína byggja á erfiði fyrirvinnunnar. Eitt höfuðatriðið í fylgikvillum þessa bölvalds er það öryggisleysi, sem hinn vinnandi maður á við að etja. Verður atvinna á morgun? Tekst mér að sjá heimili mínu farborða? Verður sagt, að mín sé ekki þörf á morgun, og hvað tekur þá við?

Þessar og þvílíkar spurningar eru í huga alls þorra manna, er aðra hafa á framfæri, þeirra sem fyrir heimili eiga að sjá.

Á undanförnum áratugum má segja, að hér á landi sem og hvarvetna í hinum frjálsa heimi hafi orðið bylting í félagslegri framþróun. Hvarvetna er leitazt við að draga úr sárindum og sviða þeirra einstaklinga, er sérhvert þjóðfélag byggja, með hvers konar réttarbótum. Eitt erfiðasta vandamálið, sem enn þá er óleyst, er atvinnuleysið og fylgikvillar þess og þá fyrst og fremst öryggisleysið. Þrátt fyrir stóraukna hagsæld fyrir framgang félagslegra umbóta getur atvinnuleysisvofan birzt á ný, og enn þá virðist ekki mögulegt að hindra, að svo geti orðið. Í þess stað hafa verið uppi ýmsar till. um að draga úr sárasta sviða þessa neyðarástands, ef á skylli.

Það mál, sem hér er til umr., er tilraun í þá átt. Atvinnuleysistryggingarnar, sem um var samið í vinnudeilunni miklu 1955, voru einn áhrifaríkasti liðurinn í þessari gagnsókn. Með þeim var nánast ákveðið að safna fé í tvennum tilgangi: Í fyrsta lagi til þess að lána í atvinnutækjakaup og aðrar þær framkvæmdir, er miðuðu að því að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Í öðru lagi til þess að geta veitt bótaþegum fjárhagslega aðstoð á atvinnuleysistímum.

Ég tel megintilgang þessa frv. eiga að vera að auka öryggi launþegans á vinnustaðnum til þess að draga úr hinum nagandi ótta við fyrirvaralausa uppsögn, hvað sem langri og dyggri þjónustu líður. Í annan stað er hér og lögfest ákvæði um veikinda- og slysaforföll, því að fyrstu 14 dagana eftir að viðkomandi slasast eða veikist skal hann einskis í missa vegna þeirra forfalla.

Það hefur áður komið fram í umræðunum um þetta mál hér í hv. þingdeild, að það er hér fram komið sem efndir á samkomulagi, er gert var milli hæstv. ríkisstj. og verkalýðsfélaganna s.l. haust. Við umræðurnar og athuganirnar í heilbr.- og félmn., sem hafði málið til meðferðar, lýsti ég því yfir, að ég teldi málið spor í rétta átt, en teldi það að ýmsu leyti ganga of skammt, a.m.k. væru nokkur atriði þess ekki nógu ljós. Þær breytingar, sem n. hefur orðið sammála um að flytja á þskj. 246, eru þó allar til bóta að mínu áliti. Þau atriði, sem ég tel ekki nægjanlega ljós og þurfi nánari athugunar við, áður en málið verður endanlega afgreitt úr deildinni, eru þessi:

1) 1. mgr. frv. hljóðar svo: „Nú hefur verkamaður, iðnlærður eða óiðnlærður, sem fær laun sín greidd í tíma- eða vikukaupi, unnið hjá sama atvinnuveitanda í eitt ár eða lengur, og ber honum þá eins mánaðar uppsagnarfrestur frá störfum.“ Í 3. mgr. sömu greinar er svo atvinnurekanda veittur sami réttur til uppsagnarfrests, ef launþegi æskir að hætta störfum.

Ber nú að skilja þessi ákvæði svo, að á hinum tiltekna uppsagnarfresti sé launþega tryggð full átta stunda dagvinna? Ef svo er, er þá launþeginn óbundinn af uppsagnarfrestinum, sé ekki hægt að sjá honum fyrir þessari atvinnu eða samsvarandi þóknun?

Ég vona, að sú skýring verði á þessu gefin, að launþeganum séu tryggð þessi laun, meðan á uppsagnarfrestinum stendur, því að annars er fresturinn meiri kvöð á hann, en vinnuveitandann. Launþeginn byggir lífsafkomu sína og sinna á þessum launum, en það er hæpið að ætla, að vinnuveitandinn byggi afkomu fyrirtækisins á vinnu t.d. eins manns.

2) Í 2. mgr. 1. gr. er ákveðið það vinnustundamark, sem telst vera eins árs vinna, og þar með rétturinn til áðurgreinds uppsagnarfrests. Skilningur minn á þessu vinnustundamarki er sá, að 1.800 klst. á 12 mánuðum fyrir uppsögn þýði í rauninni fastráðningu, án þess að skýrt sé kveðið á um það efni. Sé svo hins vegar ekki, ber brýna nauðsyn til þess að gera þetta ákvæði frv. ákveðnara, um leið og nýrri málsgr. yrði bætt aftan við 2. gr. frv., þar sem verkamaðurinn yrði leystur undan ákvæðum uppsagnarréttarins, bjóðist honum önnur atvinna, þegar þannig stendur á. En 2. gr. fjallar um undanþágu atvinnurekenda frá því að greiða bætur, ef um ófyrirsjáanleg áföll er að ræða, svo sem þar er nánar frá greint, hráefni ekki fyrir hendi í fiskiðjuveri, útskipunarvinna ekki fyrir hendi hjá skipaafgreiðslu o.s.frv., o.s.frv.

Mér finnst aths. í frv. við þessa grein stangast nokkuð á við greinina sjálfa. Það er talað um að koma í veg fyrir ástæðulausar uppsagnir, þó að vinna falli fyrirvaralaust niður, og atvinnurekanda gert skylt að segja verkamanni sínum samt sem áður upp með eins mánaðar fyrirvara, þó að samanlögð vinna hans af fyrrgreindum ástæðum nemi ekki 150 klst. þann mánuð, sem óhappið kom fyrir. En bjóðist nú þessum sama verkamanni vinna hjá öðrum atvinnurekanda, er honum þá frjálst að taka hana án þess að vera bundinn af eins mánaðar uppsagnarfresti miðað við mánaðamót?

Hv. 8. landsk. hefur nú flutt brtt. eða viðbótartill. þessu til skýringar, og tel ég nauðsynlegt, að till, þessi verði samþykkt. Ég vildi þó mælast til þess við hann, að hann á þessu stigi málsins drægi till. til baka til 3. umr., þannig að n. gæfist kostur á að fjalla um þetta mál. Ég vona, að það sé skilningur þeirra, er lögin smíðuðu, að þá sé verkamaðurinn laus og óbundinn, þótt ekki sé það ljóst. Hins vegar er brtt. hv. 8. landsk., ef samþ. verður, alveg fullnægjandi ákvæði að þessu lútandi. Verkamanninum er ekki nægjanlegt að vera sagt upp með eins mánaðar fyrirvara. Honum er skylt að bíða þann tíma án nokkurrar launagreiðslu, ef hinn fyrri skilningur er réttur.

Við þessu er nauðsynlegt að fá svör, því að þess eru oft dæmi, að komið hafi til málarekstrar út af skilningi lagagreina í verkalýðsmálum yfirleitt, og þá hafa verið felldir dómar á þeim forsendum, sem talið er að þingmenn hafi samþ. lögin á.

Þrátt fyrir þessar aths. mínar, taldi ég ekki þörf á að hafa sérstakan fyrirvara í nál. eða flytja brtt., en freista í þess stað að fá um þær svör við þessa umr. eða í athugun hjá n., þannig að hv. n. gæfist færi á að ræða málið á ný fyrir 3. umr.

Við 3., 4., 5., 6. og 7. gr. hef ég engar aths. að gera, en greinar þessar fjalla um greiðslur vegna slysaforfalla, eru í meginatriðum lögfesting á gildandi samningaákvæðum um þessi mál og eru til mikilla bóta, þar sem slík mál eiga ekki að vera togstreituatriði í vinnudeilum, þau eru mannréttindamál.

Við 1. umr. málsins lýsti ég því yfir, að ég teldi frv. sem heild í framfaraátt og fagnaði því, að hér væri verið að efna þau loforð, sem verkalýðshreyfingunni var heitið s.l. haust. Ég vil ítreka þessi fyrri ummæli mín hér með, um leið og ég leyfi mér að hvetja til nákvæmrar athugunar á, hvernig einstök ákvæði frv. muni í raunveruleikanum verða framkvæmd.

Mér er það fyllilega ljóst, að allar nýjungar þurfa sína reynslu og að ekki er mögulegt að sjá alla árekstra fyrir. Á sama hátt verður að gera öll vafaatriði sem ljósust þegar í upphafi. Takmark slíkrar löggjafar hlýtur að vera það, að alls staðar, þar sem því verður við komið, verði verkamenn fastráðnir starfsmenn með þeim réttindum og öryggi, sem það veitir. Fyrr er settu marki ekki náð. Mér er það einnig fullljóst, að þessu verður ekki komið við í fjölmörgum starfsgreinum hins vinnandi manns. Með fastráðningunni yrði vinnuaflið þó hagnýtt á skipulegan hátt og hinum vinnandi manni veitt það öryggi, sem telja verður, eins og ég áðan sagði, til mannréttinda. Það á að tilheyra fortíðinni, að hægt sé að halda verkafólki að óþörfu í óvissu og öryggisleysi, sem engum þjónar, en vekur aðeins beiskju og tortryggni til samtíðarinnar.