24.02.1958
Efri deild: 55. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (619)

97. mál, réttur verkafólks

Björn Jónsson:

Herra forseti. Hv. heilbr.- og félmn. hefur flutt tvær minni háttar brtt. við þetta frv., sem hér liggur fyrir. Ég tel, að báðar þessar breytingar séu til bóta, þar sem þær kveða skýrar á um tvö atriði, sem annars hefðu getað valdið misskilningi og e.t.v. deilum, og vil ég lýsa fullum stuðningi mínum við þær.

Þá hef ég leyft mér að flytja á þskj. 252 brtt., sem er að því leyti sama um að segja og hinar tvær brtt. heilbr.- og félmn., að henni er ætlað að taka af allan vafa um skilning á einu ákvæði frv., þ.e.a.s. á 2. gr. þess.

Ég vil álíta, að það hafi verið meining þeirra, sem sömdu frv., að þegar svo stæði á sem segir í 2. gr., að vinna falli niður um lengri eða skemmri tíma vegna ófyrirsjáanlegra atvika eða óviðráðanlegra, sem þar er nánar skýrt, og verkafólk verður af þeim sökum atvinnulaust, þá sé viðkomandi verkafólk, verkamaður eða verkakona, óbundið af ákvæðum 1. gr. um uppsagnarfrest af sinni hálfu. Þetta álit mitt styðst fyrst og fremst við það, að í 2. gr. segir: „enda missa launþegar þá eigi uppsagnarrétt sinn, meðan slíkt ástand varir“. Það hefur sem sé þótt ástæða til að taka það sérstaklega fram, að launþeginn missti ekki uppsagnarrétt sinn, meðan þetta ástand varir. Hins vegar er þess ekki getið, að launþeginn sé bundinn við uppsagnarfrestinn, eftir að svo er komið, að hann hafi ekki lengur stöðuga atvinnu, enda mundi slíkt reynast fráleitt og ósanngjarnt í framkvæmd. Það er full ástæða til að álykta, að ef það hefði verið meiningin, að launþeginn væri eftir sem áður bundinn af uppsagnarfrestinum, þá hefði það einnig verið tekið fram, alveg á sama hátt og það er tekið fram, að atvinnurekandanum beri að segja verkamanninum upp, meðan þetta ástand varir. Þennan skilning minn á 2. gr. styð ég einnig við viðtöl, sem ég hef átt við annan fulltrúa efnahagsmálanefndar Alþýðusambands Íslands, sem vann að samningu frv.

Í fljótu bragði kynni að virðast, að brtt. mín færi í bága við þá meginreglu frv., að uppsagnarfrestur sé gagnkvæmur og að sama skylda hvíli þar á báðum málsaðilum, launþega og atvinnurekanda, og er mér ekki grunlaust um, að sú skoðun hafi ráðið því, að hv. heilbr.- og félmn. hefur ekki flutt brtt. í sömu átt og mín till. fer þrátt fyrir tilmæli Alþýðusambands Íslands þar um. Ég ætla þó, að við nánari athugun verði alveg ljóst, að sá skilningur, ef fyrir hendi kynni að vera, að launþegi sé bundinn af uppsagnarfresti, eftir að hann hefur ekki lengur atvinnu hjá vinnuveitanda um skemmri eða lengri tíma, mundi alls ekki þýða gagnkvæman rétt beggja aðila, heldur aðeins einhliða skyldu launþegans, skyldu til þess að vera viðbúinn kalli atvinnurekandans, hvenær sem hann þyrfti á vinnuafli að halda, án þess að nokkur raunhæfur réttur kæmi í móti af hálfu atvinnurekandans.

Um þetta mætti nefna ýmis dæmi, t.d. það, að vinna félli niður í frystihúsi vegna hráefnisskorts og ekki væri vitað um fyrir fram, hvað lengi það ástand héldist, ef til vill yrði það nokkrar vikur, ef til vill mánuðir. Væri þá nokkur heil brú í því, að ef til vill fjöldi verkamanna yrði skyldaður til þess að bíða aðgerðalaus átekta, aðeins vegna þess að atvinnurekandanum þætti það hagkvæmt eða öruggara að geta átt vinnu þeirra vísa, þegar aftur yrði tekið til starfa? Væri þá rétt að hindra þessa menn í því að ráða sig t.d. í skiprúm eða einhverja aðra þá atvinnu, sem ekki væri hægt að yfirgefa, hvenær sem hinn fyrri atvinnurekandi kallaði? Slíkt væri vitanlega fráleitt og hefur heldur áreiðanlega ekki verið meining þeirra, sem frv. sömdu. Það virðist alveg augljóst, að gagnkvæmur uppsagnarfrestur hljóti að byggjast á því, að atvinnurekandinn sjái verkamanninum fyrir fullri eða a.m.k. allt að því fullri atvinnu og verkamaðurinn tryggi þá jafnframt atvinnurekandanum vinnuafl sitt, en einhliða skylda verkamannsins í þessu efni kemur ekki til nokkurra mála, eins og þó yrði, ef rangtúlkun 2. gr. væri hugsanleg á þann hátt, sem ég hef nú lýst.

Till. mín á þskj, 252 er þess eins efnis að taka af allan vafa um þetta atriði. Ég vil mega treysta því, að hv. heilbr.- og félmn. athugi þetta atriði og brtt. mína gaumgæfilega, og vil ég strax þakka hv. 4. þm. Reykv. fyrir hans undirtektir henni viðkomandi, og ég trúi því ekki, þegar nefndin hefur athugað þetta vel, að hún komist ekki að þeirri niðurstöðu, að tryggilegra sé að taka af allan vafa í þessu efni, svo að réttur skilningur á þessum ákvæðum 2. gr. sé að fullu tryggður. Samkvæmt þessu tel ég sjálfsagt að verða við óskum hv. 4. þm. Reykv. og hafði enda hugsað mér það, áður en hans tilmæli komu fram, um að taka mína till. aftur til 3. umr., svo að nefndin geti athugað hana, og geri ég það hér með.