24.02.1958
Efri deild: 55. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (620)

97. mál, réttur verkafólks

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð og smávægileg fyrirspurn, sem ég vildi leyfa mér að gera til hv. n.

Eins og ég gat um við 1. umr., er ég því hlynntur, að þessi réttur verkamannsins sé viðurkenndur, en ég gat þess, að ég óttaðist, að ef það yrði ekki gert með samkomulagi, þá væri réttur verkamannsins minni, en hann ætti að vera. Það óttaðist ég, og í tilefni þess vildi ég leyfa mér að beina þeim fyrirspurnum til hv. nefndar: Hvað er hæft í því, sem kemur fram í grg. Vinnumálasambands samvinnufélaganna og einnig hjá Vinnuveitendasambandi Íslands, þar sem báðir þessir aðilar segja, að ef þessi löggjöf verði samþykkt, þá séu brostnar forsendur fyrir þeim samningum, sem gerðir hafa verið milli þessara aðila?

Um þetta vildi ég leyfa mér að spyrja. Ég þykist vita, að hv. nefnd hafi kynnt sér þetta. Og ef það er svo, að forsendurnar séu brostnar, þá óttast ég, að hlutur verkamannsins verði minni, en hann í raun og veru er hugsaður og ætti að vera.

Þetta óskaði ég að hv. nefnd vildi upplýsa.