28.02.1958
Efri deild: 58. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í B-deild Alþingistíðinda. (626)

97. mál, réttur verkafólks

Frsm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. flytur á þskj. 268 tvær brtt., sem hv. d. eru að vísu kunnar, því að báðar voru fluttar við 2. umr. þessa máls, en teknar aftur þá.

Fyrri till. má heita samhljóða till., sem hv. 8. landsk. þm. flutti við 2. umr. málsins, og er um það, að nýrri málsgr. verði bætt við 2. gr. frv. Í 2. gr. frv. er ákvæði um, að ef atvinna fellur niður af ófyrirsjáanlegum ástæðum eða eðlilegum ástæðum, þá skuli atvinnurekanda ekki gert að greiða launþega bætur. Nefndin hefur nú á milli umr. athugað þetta atriði á ný og komizt að þeirri niðurstöðu, að réttmætt sé, að á móti þessu hagræði atvinnurekandans komi eitthvað til handa verkamanninum, sem þannig missir vinnu án þess að fá laun, og varð sammála um, að það yrði bezt gert með þeim hætti að heimila verkamanninum í slíkum tilfellum að segja upp án uppsagnarfrests. Um þetta fjallar fyrri till. nefndarinnar.

Síðari till. er um fyrirsögn frv. og er algerlega samhljóða till. n. við 2. umr. Hún var þá tekin til baka, sökum þess að hæstv. forseti hafði bent á, hvort ekki mundi vera hægt að stytta fyrirsögn frv. Þetta athugaði n., en komst að þeirri niðurstöðu, að það mundi ekki vera auðvelt, án þess að það kæmi þá niður á skýrleik fyrirsagnarinnar. Það þykir hentugt, að í fyrirsögn frv. komi fram efni þess, þannig að auðvelt sé að átta sig á efni laganna eftir fyrirsögninni, og með tilliti til þess taldi n. ekki fært að stytta fyrirsögn frv.

Annað þarf ég ekki að taka fram, að ég held, í sambandi við brtt. á þskj. 268.