27.03.1958
Neðri deild: 73. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í B-deild Alþingistíðinda. (637)

97. mál, réttur verkafólks

Frsm. (Gunnar Jóhannsson):

Herra forseti. Frv. til l. um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og um rétt þess og fastra starfsmanna til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla var lagt fram í Ed. og er flutt af hæstv. félmrh. Heilbr.- og félmn, Ed. leitaði álits nokkurra aðila um frv., og eru svör þeirra birt í áliti n. á þskj. 246. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara frekar inn á álit þessara aðila, nema sérstakt tilefni gefist þar til.

Heilbr.- og félmn. Nd. tók frv. til umr. og afgreiðslu 25. marz s.l. N. leggur til, að frv. verði samþykkt. Einn nm., Ragnhildur Helgadóttir, var fjarverandi vegna veikinda, sbr. nál. á þskj. 345.

Þegar málið var til umr. í Ed., voru gerðar á því nokkrar breytingar.

Það er fyrst, að 1. málsgr. 1. gr. orðist svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nú hefur verkamaður, iðnlærður eða óiðnlærður, sem fær laun sín greidd í tíma- eða vikukaupi, unnið hjá sama atvinnurekanda í eitt ár eða lengur, og ber honum þá eins mánaðar uppsagnarfrestur frá störfum.“ Þessi breyting er aðallega fólgin í því, að hér er því slegið föstu, að lögin nái jafnt til iðnlærðra sem óiðnlærðra verkamanna. Eins og þetta var upphaflega orðað í frv., þegar það var lagt fram, gat orkað tvímælis, hvort þetta ákvæði næði til iðnlærðra verkamanna.

Þá var bætt inn í frv. nýrri grein, sem nú er 2. gr. frv., eins og Ed. gekk frá því. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nú fer verkamaður fyrir tilmæli atvinnurekanda, sem hann vinnur hjá, til starfs um tíma hjá öðrum atvinnurekanda, og skal þá sá tími talinn unnar vinnustundir hjá hinum fyrrtalda atvinnurekanda, að því er réttindi þau snertir, sem um getur í 1. gr.“ Þessi viðbót virðist í alla staði eðlileg og eykur rétt verkamanna frá því, sem áður hefur verið.

Frv. fylgir allýtarleg grg., þar sem efni frv. og sérstakar greinar eru skýrðar. Í athugasemdum er á það bent m.a., að það hafi verið um langt skeið áhugamál verkalýðsfélaganna að fá viðurkenndan nokkurn uppsagnarfrest handa þeim launþegum, sem unnið hafa um lengri tíma hjá sama atvinnurekanda, en fengið laun sín greidd í venjulegu tíma- eða vikukaupi. Þá er bent á þá staðreynd, að fastir starfsmenn, sem fá laun sín greidd mánaðarlega, hafi slíkan uppsagnarfrest samkvæmt sérstökum samningi eða samkvæmt almennri viðskiptavenju. Uppsagnarfrestur fastra starfsmanna er frá einum og upp í þrjá mánuði. Það ætti ekki að skipta neinu máli, hvort launþegar fá laun sín greidd mánaðarlega eða hvort laun eru greidd vikulega, eins og tíðkast um laun tíma- og vikukaupsmanna. Það, sem mestu máli skiptir, er samband atvinnurekenda og launþega. Þegar samband þeirra er varanlegt árið út eða lengur, er eðlilegt og ég vil segja sjálfsagt, að launþeginn eigi rétt á nokkrum fyrirvara, ef viðkomandi atvinnurekandi vill segja honum upp starfi. Sama máli gegnir um atvinnurekandann. Það er eðlilegt, að hann fái vitneskju um það með einhverjum fyrirvara, ef launþegi, sem hjá honum vinnur, óskar eftir því að láta af starfi. Þegar slíkt samband hefur skapazt milli atvinnurekanda og launþega, er líklegt, að það muni vara áfram, nema sérstakar ástæður komi til. Báðir aðilar eru illa undir það búnir, að samband þeirra rofni fyrirvaralaust. Það er því ekki óeðlilegt að lögfesta gagnkvæman uppsagnarfrest í þeim tilfellum, er launþegi hefur unnið hjá sama atvinnurekanda í samfleytt eitt ár eða lengur.

Í 1. gr. frv., 2. málsgr., er ákvæði, sem kveður svo á um, að tíma- eða vikukaupsmaður teljist hafa unnið hjá sama atvinnurekanda í eitt ár, ef hann hefur unnið hjá honum samfleytt a.m.k. 1.800 klst. á síðustu tólf mánuðum, þar af a.m.k. 150 klukkustundir síðasta mánuðinn fyrir uppsögnina. Þetta svarar til 3/4 hluta af fullri dagvinnu. Hér á landi er t.d. útivinna oft mjög háð veðurfari og árstíðum, svo að telja má, að 2.800 vinnustundir á ári geti víðast talizt full vinna.

Um 2. gr. frv., sem bætt var inn í það í Ed., hef ég áður að nokkru rætt.

Í 3. gr. eru ákvæði, sem eiga að koma í veg fyrir ástæðulausar uppsagnir af hálfu atvinnurekenda, þar sem svo er fyrir mælt, að atvinnurekanda beri ekki að greiða launþega laun, þó að hann missi fyrirvaralaust vinnu hjá honum, þegar svo er ástatt, að vinna fellur niður af eðlilegum ástæðum. Í gr. er ákvæði um, að launþegi missi heldur ekki uppsagnarrétt sinn, meðan slíkt ástand varir. Bent er á nokkur dæmi þess, hvað átt sé við með orðunum „að vinna falli niður af eðlilegum ástæðum“, svo sem skortur á hráefni til fiskvinnslustöðva, út- og uppskipunarvinna er ekki fyrir hendi, fyrirtæki verður fyrir ófyrirsjáanlegu áfalli vegna bruna eða skipstapa. Í skýringum er bent á enn fremur um þessa gr., að þau dæmi, sem bent sé á, séu ekki tæmandi, margt fleira geti komið til greina, svo sem ef vinna fellur niður vegna verkfalla eða verkbanna.

Síðari málsgr. 3. gr. er þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Nú hefur verkamaður misst atvinnu sína af ofangreindum ástæðum og honum býðst annað starf, sem hann óskar að taka, og er hann þá ekki bundinn af ákvæðum 3. málsgr. 1. gr. um uppsagnarfrest, enda tilkynni hann strax atvinnurekandanum, ef hann ræður sig hjá öðrum.“ Þessari málsgr. var bætt inn í frv. í Ed. og er í alla staði eðlileg og sjálfsögð. Laun almennra verkamanna eru ekki það há, að menn þoli langvarandi atvinnuleysi, og sé um langvarandi vinnustöðvun að ræða af einhverjum óviðráðanlegum ástæðum, nær það vitanlega engri átt, að menn séu bundnir við fyrirtæki, sem enga atvinnu getur látið af hendi, enda munu fæstir atvinnurekendur ætlast til slíks af verkamönnum, sem hjá þeim hafa unnið.

4. gr. ákveður um, að fastir starfsmenn, tíma- og vikukaupsmenn, sem rétt eiga á uppsagnarfresti skv. 1. gr. laga þessara, skuli eigi missa neins af launum sínum fyrstu 14 dagana, ef þeir forfallast frá vinnu sökum sjúkdóms eða slysa. Efni þessarar greinar er í aðalatriðum það sama og efni 86. gr. almannatryggingalaganna. Þessi gr. er þó víðtækari. Ákvæði almannatryggingalaganna um þetta nær aðeins til fastra starfsmanna. Hér er lagt til, að ákvæðið gildi einnig um þá tíma- og vikukaupsmenn, sem rétt eiga til uppsagnar skv. 1. gr. frv. Hér er um allmikla réttarbót að ræða frá því, sem áður hefur gilt, fyrir almenna verkamenn.

5. gr. er um það, að atvinnurekandi geti krafið launþega um læknisvottorð, ef um slys eða veikindi er að ræða, eða hann sanni á annan hátt, að hann hafi verið óvinnufær. Þetta ákvæði er í flestum kaupgjaldssamningum milli atvinnurekenda og verkalýðsfélaga og er því að mestu aðeins staðfesting á því, sem áður hefur verið gert.

6. gr. kveður á um ákvæði laga þessara, haggist til samningur milli atvinnurekenda og launþega um greiðslur á sjúkrapeningum til starfsmanna sinna, hvort sem þeir séu greiddir til styrktarsjóða, stéttarfélaga eða beint til þeirra sjálfra. Í grg. er bent á, að launþegi hafi yfirleitt vanizt því að skoða slíkar sjúkragreiðslur sem hluta af launagreiðslum sínum, svo að afnám sjúkrapeningagreiðslunnar mundi hafa sömu áhrif fyrir þá og bein launalækkun.

Í 6. gr. eru venjuleg ákvæði varðandi viðskipti launþega og atvinnurekenda, t.d. að ákvæði, sem eru í samningum milli þessara aðila og veita launþega minni rétt, en lög þessi gera ráð fyrir, skuli ógild vera. Séu aftur á móti í samningum ákvæði, sem eru hagstæðari launþegum, skulu þau halda gildi sínu.

Ég hef nú í stuttu máli skýrt frv. að nokkru og rætt um öll helztu atriði, sem það hefur inni að halda. Ég tel frv. í heild hið merkasta og að í því felist miklar réttarbætur frá því, sem nú er. Aðalatriði þess hafa verið mörg undanfarin ár baráttumál verkalýðssamtakanna við svo að segja allar samningsumleitanir, sem fram hafa farið á milli atvinnurekenda og verkalýðsfélaganna. Sum af fagfélögunum hafa fengið inn í sina samninga sumt af þeim ákvæðum, sem eru í þessu frv., en hin almennu verkalýðsfélög hafa ekki með samningum náð þeim ákvæðum. Hinn almenni verkamaður hefur ekki haft neinn uppsagnarfrest, atvinnurekandinn gat, hvenær sem honum sýndist, sagt honum upp án nokkurs fyrirvara, jafnvel þó að viðkomandi verkamaður væri búinn að vinna árum saman hjá sama atvinnurekanda. Flestir munu sammála um, að slíkt öryggisleysi sé lítt viðunandi og að full þörf hafi verið á því að fá setta löggjöf, sem tryggi frekar, en orðið var verkafólk fyrir óþarfa uppsögnum af hendi atvinnurekandans.

Ég vil þó taka það fram til að fyrirbyggja allan misskilning, að margir atvinnurekendur hafa komið fram við verkafólk sitt með ágætum og ekki sýnt sig í að vera með óþarfa uppsagnir, og hafi til uppsagnar komið á fólki, sem búið hefur verið að vinna hjá þeim lengi á sama stað, hefur því í nokkrum tilfellum verið sagt upp með töluverðum fyrirvara. En þrátt fyrir einstakar undantekningar er það sameiginlegt álit verkalýðshreyfingarinnar, að hin mesta þörf sé fyrir löggjöf, sem dragi úr hinu tilfinnanlega öryggisleysi, sem verkafólkið nú býr við á þessu sviði. Hví skyldi embættismaður eða skrifstofumaður hafa slík forréttindi fram yfir hinar almennu vinnustéttir? Er vinna skrifstofumannsins eða embættismannsins það þýðingarmeiri, en verkamannsins, sem vinnur á eyrinni, byggir húsin, leggur götur og vegi, vinnur í hraðfrystihúsi, eða sjómannsins, sem sækir fiskinn á haf út og leggur oft og tíðum líf sitt í hættu við slík störf? Um þetta má að sjálfsögðu deila. En eitt er þó staðreynd: Við getum því aðeins lifað í landi voru, að við framleiðum nægilega mikið af góðri og vandaðri framleiðsluvöru til útflutnings. Ef útflutningur okkar dregst saman, hljóta lífskjör okkar að rýrna og jafnvel hrun getur verið á næstu grösum. Svo þýðingarmikil eru störf þessa fólks, sem vinnur að framleiðslustörfunum. Þess vegna ber þjóðfélaginu að gera allt, sem hægt er, til að örva fólk til slíkra starfa og um leið tryggja það fyrir óþarfa áföllum og skapa því sem bezta og öruggasta afkomu.

Þetta frv. er ein af mörgum leiðum, sem þarf að fara til að ná því marki, sem verkalýðshreyfingin hefur sett sér sem ófrávíkjanlegt mark að keppa að, en það er fullkomið atvinnuöryggi til handa öllum, sem vilja og geta unnið við hagnýt framleiðslustörf.

Ég vil svo að lokinni þessari umr. leggja til, að frv. verði vísað til 3. umr.