20.03.1958
Efri deild: 70. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (651)

148. mál, ríkisreikningar

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Ég ber fram litla brtt. á þskj. 329 við þetta frv. um að hækka 13. liðinn um 100 þús. kr., og er það í samræmi við rekstrarreikning ríkisins.

Það er dálítið einkennilegt, að ég skuli þurfa að bera þessa brtt. fram, og líka það, að ég ber hana fram persónulega, en hún er ekki frá n. Mér þótti ekki taka því að kalla n. saman út af þessu, því að það einkennilega er, að nefndin var búin að samþykkja að bera fram þessa till. ásamt öðrum till., sem bornar voru fram við 2. umr., en af mér alveg óskiljanlegum ástæðum hefur það fallið niður einhvers staðar á leiðinni og þessi till. því aldrei verið formlega samþykkt í deildinni. En þó var nú frv. prentað í fyrstu þannig, að tekið hafði verið fullt tillit til þessarar brtt., og ekki þarf að breyta greiðslujöfnuðinum neitt, þó að till. sé samþykkt, vegna þess að till. n. um greiðslujöfnuðinn er byggð á því, að þessi breyting sé gerð, sem ég legg nú til. Ég lít því á þetta sem algert formsatriði og býst við, að enginn hafi neitt á móti því að leiðrétta frv. á þennan hátt.