25.03.1958
Neðri deild: 72. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (656)

148. mál, ríkisreikningar

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það var aðeins eitt atriði, sem mig langaði til að minnast á við þessa umr. Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að ríkisreikningurinn er í þetta sinn eins úr garði gerður og áður hefur verið. En það er eitt atriði, sem ég hefði viljað beina til hans, hvort hann vildi taka til athugunar. Það er að sjálfsögðu ekki hægt að gera það í þetta sinn varðandi þennan ríkisreikning, en mætti gera það við næsta ríkisreikning.

Eins og öllum hv. þm. er kunnugt, hefur á undanförnum árum orðið allverulegur greiðsluafgangur hjá ríkissjóði og honum verið ráðstafað í tiltekna hluti. Ég hygg hins vegar, að hv. þm. muni komast að raun um, að það er dálítið erfitt að finna út úr ríkisreikningnum, hver er raunverulegur greiðsluafgangur ríkissjóðs, og það byggist á uppsetningu reikningsins. Þetta stafar ekki af því, að það sé á neinn hátt rangt frá honum gengið eða á neinn hátt viljandi verið að villa um fyrir mönnum, heldur er hann bókhaldslega þannig upp settur, að það er illgerlegt nema með allverulegri þekkingu á þessum málum að finna út, hver er afkoma, raunveruleg afkoma ríkissjóðs, þ.e.a.s. hvort það er raunverulegur greiðsluafgangur eða ekki hjá ríkissjóði.

Ég hef átt þess kost að sjá sérstaka útreikninga í þessu sambandi, sem upp hafa verið settir til þess að finna út greiðsluafganginn á undanförnum árum, en það kemur í ljós, að út úr ríkisreikningnum sjálfum er næsta erfitt að finna þetta nema fyrir fróða menn. Þetta álít ég mjög bagalegt, og þó að ekki sé vafalaust hægt að breyta uppsetningu ríkisreikningsins sjálfs, þá mun vera mjög auðvelt að láta fylgja með sérstakt yfirlit, sem þetta sýnir. Sjóðsyfirlitið er ekki raunverulegur mælikvarði í þessu efni, og þyrfti því að koma þarna til sérstakt yfirlit, sem glöggt leiddi þetta í ljós, þannig að auðvelt væri að sjá þetta frá ári til árs. Þessu vildi ég beina til hæstv. ráðh., hvort hann teldi ekki ástæðu til að gera hér á nokkra bragarbót, til upplýsingar fyrir þingmenn.

Það er enn fremur annað atriði í sambandi við ríkisreikninginn, sem alltaf veldur töluverðum deilum. Það kann vel að vera erfitt að setja reikninginn upp á þann hátt, að glöggt verði séð í skyndingu, hver raunveruleg niðurstaða sé í því efni. En hv. þingmönnum er kunnugt um, að það hafa verið hér oft uppi töluverðar deilur um það, hvernig ætti að líta á 20. gr., eignahreyfingar, hvað af henni væri eðlilegt að taka með í fjáraukalög og hvað ekki, og það hefur stundum munað allverulegum upphæðum, sem á milli hefur borið, t.d. skilnings fjvn. á því, hvað eðlilegt væri að taka með í fjáraukalög, og skilnings ráðuneytisins. Þetta er vitanlega einnig mjög bagalegt, að ekki skuli vera hægt að setja þetta upp á þann hátt, að það liggi nokkurn veginn í augum uppi, og sýnist vera eðlilegast, að 20. gr. sé þannig upp raðað, einstökum liðum hennar, að teknir séu sér allir þeir liðir, sem eðlilegt er að komi í fjáraukalög. Það er að sjálfsögðu enginn ágreiningur um það, að í fjáraukalög eiga að koma allir þeir liðir, sem í fjárlögum eru hverju sinni, ef þeir fara fram úr áætlun, enda eru þeir sérstaklega upp settir í 20. gr., en það koma einnig til ýmsir aðrir viðbótarliðir í þeirri grein, sem er jafnsjálfsagt að taka með í fjáraukalög, og enn fremur aðrir liðir, sem ekki er eðlilegt að þar séu teknir með. Þessu er einnig allverulega erfitt að átta sig á, eins og komið hefur fram í ágreiningi um þetta efni, og ég teldi, að það væri til mikilla bóta, ef auðið væri að haga uppsetningu þessarar gr. þannig, að það lægi ljóst fyrir með því að fletta upp reikningnum, hvernig ástatt er um það, hvað er eðlilegt að telja að þessi gr. fari mikið fram úr áætlun hverju sinni, svo að auðvelt verði um samanburð.

Þessum tveimur atriðum vildi ég leyfa mér að beina til hæstv. ráðh., en sé ekki að öðru leyti ástæðu til þess að orðlengja um ríkisreikninginn á þessu stigi málsins að minnsta kosti.