25.03.1958
Neðri deild: 72. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

148. mál, ríkisreikningar

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það er alveg rétt, sem hv. 2. þm. Eyf. tók fram, að það þarf að reikna sér dálítið til, til þess að sjá eftir ríkisreikningnum, hver sé greiðsluafgangur eða greiðsluhalli í ríkisbúskapnum. Það hefur oft komið til orða í fjmrn., að það mundi máske rétt að láta fylgja uppsetningu á þessu sérstaklega, eins konar fylgiskjal með reikningnum. En það hefur aldrei orðið úr þessu, vegna þess að mönnum hefur fundizt, að það væri hægt að sjá þetta eftir reikningnum svo auðveldlega, að hverjum einum væri auðvelt að setja dæmið upp.

Það er sjálfsagt að taka þetta til athugunar, og gæti vel komið til mála að mínu viti að gera þetta, sem hv. þm. tók fram. En það yrði þá að vera, eins og ég held að hann hafi nú vikið að, eins konar fskj. með reikningnum. Þessa þarf ekki fyrir það, að reikningnum sé neitt ábótavant, eins og við vitum, heldur aðeins af því, að það þarf að taka út úr vissa viðskiptaliði á greiðslureikningnum, sem ekki hafa bein áhrif á sjálfa greiðsluniðurstöðuna. Eftir reikningnum er auðvitað ævinlega augljóst í einni tölu, hver rekstrarafkoman er, en á hinn bóginn þarf að skoða nokkra liði og setja þá upp fyrir sér til þess að komast að niðurstöðu um greiðslujöfnuðinn.

Það hefur myndazt nokkuð föst venja í umræðum um það, hvernig tölurnar eru settar upp til þess að finna greiðslujöfnuðinn eða hvað það er, sem kallaður er greiðsluhalli eða afgangur í ríkisbúskapnum. Þá hafa verið teknar með allar rekstrartekjurnar og það, sem innborgað er af áður lánuðu fé, en á móti hafa svo verið tekin öll rekstrarútgjöldin, afborganir af föstum lánum, og svo allt það, sem ríkið hefur fest á árinu til viðbótar og telst til eignaaukningar. Þannig hefur þetta verið sett upp og myndazt föst venja. Mismunurinn á þessu er kallað ýmist greiðsluhalli eða greiðsluafgangur. Þetta þýðir, að við tölum ekki um greiðsluafgang, nema ríkið hafi getað borgað öll sín rekstrarútgjöld og alla sína fjárfestingu og allar sínar föstu afborganir af rekstrartekjunum að viðbættu því, sem ríkið hefur fengið inn í afborganir og vexti af útistandandi fé. En svo hefur líka verið sá háttur hafður á hér til viðbótar, að ef ríkið hefur tekið löng lán til þess að koma upp arðbærum fyrirtækjum, hefur það ekki verið talið hafa áhrif á greiðslujöfnuð þess árs, eins og eðlilegt er. En þetta veldur auðvitað því, að það þarf að reikna dálítið upp úr eignahreyfingakaflanum til þess að sjá niðurstöðuna, því að fyrir utan þessar greiðslur eru í honum fjárhæðir eins og auknar innstæður á vissum reikningum og lækkanir eða hækkanir á lausaskuldum, sem ekki er talið með, þegar greiðslujöfnuðurinn er fundinn, þ.e.a.s. greiðsluhallinn eða greiðsluafgangurinn. Ég mun taka það til athugunar, sem hv. þm. sagði um þetta, og þetta er einmitt það, sem okkur hefur oft dottið í hug, þó að ekki hafi orðið úr því.

En það er eitt í þessu enn. Það getur aðeins komið fyrir, að það sé álitamál, hvernig eigi að setja upp viðskiptaliði í þessu sambandi. Við skulum segja t.d. fjárhæðir eins og þær, sem lagðar eru í húsbygginga- og framkvæmdasjóði ríkisstofnana, hvort það eigi að telja með útgreiðslum eða ekki, þegar greiðslujöfnuðurinn er fundinn, Það er fé, sem ekki hefur komið í ríkissjóð, en ekki heldur eytt, heldur lagt til hliðar hjá stofnununum sjálfum. Það getur sem sagt verið álitamál um einstaka liði.

Varðandi fjáraukalögin held ég að ekki séu mikil brögð lengur að ágreiningi. Ég stend í þeirri meiningu, að það sé komin nokkuð föst venja um, hvernig fjáraukalögin eru sett upp og þá hvaða liðir af 20. gr. eru teknir inn á fjáraukalögin. A.m.k. þarf að myndast um það föst venja hjá rn. og Alþingi. Þarf að vinna að því, að það verði algerlega föst venja um það. Annars er tilgangur fjáraukalaganna sá, að með því að setja upp fjáraukalög yfir allar greiðslur, sem ekki eru greiddar eftir fjárlögunum sjálfum, þá á að tryggja, að samþykktar séu endanlega allar greiðslur úr ríkissjóði. Samkv. því er nauðsynlegt að setja inn á fjáraukalögin allt það, sem ekki er þá bara hreyfingar á viðskiptareikningum eins og hlaupandi innistæðum og lausaskuldum.