28.10.1957
Efri deild: 10. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

5. mál, tollskrá o. fl

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þetta frv. er gamall kunningi hér á Alþ. og er aðeins um framlengingu á lögum, sem gilt hafa undanfarið, engin breyting á því önnur, en þessu frv. er ætlað að gilda fyrir árið 1958, en núgildandi lög um þetta efni gilda fyrir yfirstandandi ár.

Fjhn. hefur athugað þetta frv. og mælir öll með, að það verði samþykkt. Þó hefur einn nm., hv. 6. þm. Reykv. (GTh), sérstöðu nokkra og gerir fyrirvara að því er snertir síðustu mgr. 1. gr., þar sem hann er ekki því samþykkur, að 1% af vörumagnstolli og verðtolli verði varið eins og þar segir. Þó hefur hann ekki borið fram neina brtt. viðvíkjandi þessu.

Ég verð að segja það, þó að ég geri það ekki fyrir n. hönd, heldur mína eigin, að ég er ekki heldur vel ánægður með alla 2. gr. frv., að undanþiggja allar þær vörur, sem þar eru, því að sumar af þeim vörum eru ekki beinlínis nauðsynjavörur, ekki lífsnauðsynjavörur a.m.k. En það er ekki til neins að vera að fást um það: Þetta hefur verið svo undanfarin ár, og yrði sjálfsagt ekki árangursmikið að fara að bera fram brtt. viðvíkjandi því. Fyrir hönd n. legg ég þá til, að frv. verði samþ. óbreytt.