28.02.1958
Neðri deild: 58. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (668)

125. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur sjútvmrn. látið semja, og fjallar það um að koma þeim mikla vanda, sem stafar af þurrafúa í vélbátum, af því stigi, sem það hefur verið, en ríkissjóður hefur staðið í miklum ábyrgðum vegna þeirra miklu áfalla, sem bátaeigendur hafa orðið fyrir af völdum þurrafúans. En nú er ætlunin að koma þessu máli á tryggingagrundvöll, og sýnist svo vegna athugana, sem gerðar hafa verið á málinu, að það muni verða öllu heppilegra form til þess að snúast við þessum vanda. Það má, svona til þess að rifja þetta mál nokkuð upp, hvernig vandinn hefur hvílt á ríkissjóði, skýra frá því, að á fjárlögunum 1955 var fyrst heimild fyrir ríkisstj. til þess að ábyrgjast lán fyrir þá bátaeigendur, sem yrðu fyrir því óhappi eða áfalli, að bráðafúi kæmi upp í bátum þeirra. Þá var heimilað að verja allt að 2 millj. kr. í þessu skyni. Næsta ár, 1956, var á fjárlögum veitt 1.3 millj. kr. ábyrgð og 1957 sama upphæð, 1.3 millj. Og 1958 er nú heimild til þess að verja 8 millj. kr. í þessu skyni, enda lágu þá fyrir upplýsingar um, að stórskemmdir höfðu orðið á mörgum skipum og mátti í raun og veru horfast í augu við þá alvöru, að flestir vélbátar, keyptir inn á ákveðnu árabili, mundu vera með stórskemmdum eða meiri eða minni skemmdum af völdum þurrafúans. Ríkisstj. hefur sem sé rætt um þetta mál og komizt að þeirri niðurstöðu, að heppilegra væri að koma þessu vandamáli á grundvöll tryggingaformsins, og er frv. miðað við það.

Ég legg til, að frv. verði vísað að umr. lokinni til sjútvn., þó að það sé nú öðrum þræði og aðallega tryggingamál.