28.02.1958
Neðri deild: 58. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (669)

125. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Kjartan J. Jóhannesson:

Herra forseti. Ég er alveg sammála hæstv. ráðh., sem talaði hér áðan, um það, hvað mikils virði er fyrir útveginn að fá bætt það tjón, sem útgerðarmenn verða fyrir af þessum bráðafúa. Nú hagar þannig til, að þegar menn verða fyrir þessu tjóni, eiga þeir undir högg að sækja með það, hafa að vísu fengið ábyrgð ríkissjóðs fyrir lánunum, sem þeir hafa fengið, en það hefur oft farið í það mikill tími og verið erfiður róður. Ég held því, að það sé til bóta að skipa þessum málum fast, eins og gert er ráð fyrir hér.

Ég sakna aðeins eins í þessu. Mér er sagt, að nú sé farið að nota í Danmörku efni til þess að verjast þessum bráðafúa. Reynsla er kannske ekki komin mikil á það enn þá, en þó það mikil, að bátaábyrgðarfélögin dönsku taka í tryggingu báta, sem hafa verið varðir með þessu efni, en ekki aðra báta. Ef þetta er rétt, þá held ég vert væri fyrir okkur að athuga þetta og vil beina því til þeirrar n., sem fær þetta frv. til meðferðar, að þetta mál sé athugað nánar.

Það er vitanlega mests um vert fyrir okkur, ef hægt væri að koma í veg fyrir, að þessa fúa verði vart eða komi fram í þeim skipum, sem við látum byggja hér eftir. Þetta hefur farið sívaxandi undanfarið, og það er miklu meira vert fyrir okkur að koma í veg fyrir, að það haldi áfram að verða svo í vaxandi mæli, heldur en þó að við jafnvel getum komið okkur niður á, hvernig eigi að greiða skemmdirnar, þegar þær verða, að hvað miklu leyti af ríkissjóði og að hvað miklu leyti bátaeigendur eigi sjálfir að bera kostnaðinn, eins og virðist vera gert ráð fyrir, en þó ekki fyllilega ljóst í hvaða hlutföllum í þessu frv., sem hér liggur fyrir.

Það var aðallega til þess að vekja athygli á þessu, að ég tók til máls, að fyllilega verði athugað um þetta nýja lyf, ef svo mætti segja, sem farið er að nota í Danmörku og með það góðum árangri, að bátaábyrgðarfélögin dönsku taka að sér að tryggja þá báta, sem eru byggðir og varðir með þessu lyfi, um leið og þeir eru byggðir, en ekki aðra báta.