18.03.1958
Neðri deild: 68. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

125. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til 2. umr. á þskj. 250, er flutt af hæstv. ríkisstj.

Það er upphaf þessa máls, að fyrir nokkrum árum fór að verða vart óvenjumikilla fúaskemmda í íslenzkum fiskibátum úr tré. Nú er það að vísu engin nýlunda, að tré fúni, og ekki heldur neitt einsdæmi, að fúaskemmdir komi fram í gömlum skipum. En hér var yfirleitt um nýleg skip að ræða og skemmdirnar furðumiklar miðað við það, sem áður hafði þekkzt hér á landi.

Þessi mikli skipafúi á síðustu árum hefur almennt gengið undir nafninu þurrafúi, sem sérfróðir menn telja nú rangnefni, en í frv. því, sem hér liggur fyrir, er í stað þess notað orðið bráðafúi, sbr. bráðafár, sem er ágætt orð og gefur til kynna það, sem sérstaklega einkennir þessar fúaskemmdir, að þær breiðast út á mjög skömmum tíma.

Eins og tekið er fram í grg. þessa frv., telja fróðir menn sig nú vita með vissu, hvað bráðafúanum valdi, og er að þessu vikið í grg. á þskj. 250 á bls. 3. Bráðafúanum valda lífverur úr jurtaríkinu, fúasveppir, og þá sérstaklega þær tegundir fúasveppa, sem tilgreindar eru í 1. gr. frv., einkum svonefndur kjallarasveppur eða „coniophora cerebella“.

Skemmdir af völdum þessara sveppategunda eru kunnar viða um lönd, og er ýmislegur fróðleikur um það efni í riti um fúa í tréskipum, sem Iðnaðarmálastofnun Íslands gaf út árið 1958.

Í þessu riti frá Iðnaðarmálastofnuninni er m.a. grg. um þetta efni frá þekktri vísindastofnun í Bretlandi, þýdd af dr. Sigurði Péturssyni gerlafræðingi, sem er starfsmaður við atvinnudeild háskólans. En skemmt tré úr íslenzkum skipum hefur verið sent til rannsóknar erlendis, og hafa þar fundizt fúasveppir þeir, sem ég hef áður nefnt.

Þá hefur nokkuð verið unnið að því að reyna að gera sér grein fyrir því, hvernig á því standi, að bráðafúinn hefur verið svo skæður sem raun er á í fiskibátum hér á landi, nú í seinni tíð, og í grg. frv. er einnig sagt frá helztu niðurstöðum í þeim efnum.

Þó má segja, að enn sem komið er sé þar fremur um líkur að ræða, en vissu. Á það er bent í grg. m.a., að meira sé um það nú en áður, að skip séu byggð úr hráum viði, sem ekki hafi fengið hæfilegan geymslutíma og rétta verkun, í öðru lagi, að loftstreymi sé ófullnægjandi í skipunum, og í þriðja lagi, að salt sé nú lítið notað í fiskibátum, miðað við það, sem áður var, en í því kunni að hafa verið nokkur fúavörn.

Við smíði tréskips hefur sem kunnugt er verið reynd notkun ýmissa fúavarnaefni, og er sjálfsagt að styðja tilraunir í þá átt. Verður að vænta þess, að sú stofnun, sem væntanlega bráðafúatryggingu hefur með höndum, fylgist með nýjungum, sem fram kunna að koma á þessu sviði, og beiti aðstöðu sinni til að hafa áhrif á notkun þeirra, eftir því sem reynsla gefur tilefni til.

Fyrir nokkrum árum voru svo mikil brögð orðin að bráðafúanum, að sýnt þótti, að hér væri um nýtt og alvarlegt vandamál að ræða. Þá var svo komið, að dýrar viðgerðir höfðu farið fram á mörgum skipum af þessum sökum, og varð þá að gera ráðstafanir til þess, að eigendur skipanna gætu staðið straum af viðgerðunum, þar sem erfitt var að fá nægileg lán í þessu skyni gegn tryggingu í skipunum.

Árið 1954 var ríkisstj. í 22. gr. fjárlaga fyrir árið 1955 heimilað að ábyrgjast með þeim skilyrðum, er hún setur, og gegn þeim tryggingum, er hún metur gildar, lán til útvegsmanna, sem orðið hafa fyrir tjóni vegna þurrafúa í fiskiskipum, og mega lánin nema allt að 2 millj. kr. Í fjárlögum fyrir árið 1956 og 1957 var veitt sams konar heimild og upphæðin þá ákveðin allt að 1.3 millj. kr. hvort ár, en í fjárlögum fyrir árið 1958 var enn bætt við 8 millj. kr. heimild í þessu skyni.

Alþingi hefur því, eftir því sem ég kemst næst, alls heimilað ábyrgð í þessu skyni, sem nemur 12.6 millj. kr.

Samkvæmt þeim upplýsingum, sem sjútvn, hefur fengið hjá atvmrn., hafa á árunum 1955–57, eða á þeim tíma, sem þessi ábyrgðarheimild hefur verið í gildi, eða mestum hluta hans, verið tekin lán með ríkisábyrgð vegna bráðafúa út á 42 fiskibáta, samtals að upphæð nálega 10.2 millj. kr., en auk þess liggja nú fyrir umsóknir um lán út á 10 fiskibáta, og ríkisábyrgðarlán vegna þeirra eru áætluð samtals um 4.8 millj. kr.

Ég skal taka fram, að þessar tölur eru nokkru hærri, en tilgreint er í grg. frv., og er það vegna þess að nokkuð er liðið síðan grg. var samin.

Hér er því um að ræða rúmlega 50 skip, sem þarfnazt hafa meiri og minni viðgerða vegna bráðafúa á því tímabili, sem hér er um að ræða, og kostnaður við hvert skip ca. 300 þús. kr. að meðaltali, en sumar viðgerðirnar hafa þó kostað miklu meira, en þeirri upphæð nemur.

Það er því auðsætt, að skipaeigendum er um megn að standa sjálfir straum af því tjóni, sem hér getur verið um að ræða. Virðist þá eðlilegast, eins og gert er ráð fyrir í frv., að koma upp sérstakri tryggingu gegn bráðafúa og þá jafnframt að gera það, sem unnt er, til að koma í veg fyrir skemmdirnar og finna þær sem fyrst, þar sem um þær er að ræða.

Í frv. er gert ráð fyrir, að Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, sem nú annast almennt vélbátatryggingar, hafi vátryggingu vegna bráðafúa með höndum og að skyldutryggingin nái til allra tréskipa með þilfari, sem ætluð eru til fiskveiða við Ísland.

Samkvæmt 5. gr. verða bráðafúatryggingarnar sérstök deild í Samábyrgðinni með sérgreindu reikningshaldi. Gert er ráð fyrir, að Samábyrgðin endurtryggi þann hluta áhættunnar, sem hún telur sér ekki fært að bera sjálf, og er þá jafnframt gert ráð fyrir, að ríkissjóður taki að sér endurtrygginguna fyrst um sinn, en reynt verði að fá endurtryggingu erlendis, þegar það þykir henta og þess er kostur.

Í samræmi við það, sem ég hef áður sagt eða bent á um nauðsyn þess, að fúaskemmdir finnist sem fyrst, er skipaskoðun ríkisins í 4. gr. gert skylt að láta fara fram sérstaka bráðafúarannsókn á tréskipum ár hvert og tilkynna Samábyrgðinni, ef bráðafúaskemmda verður vart.

Það er og vonandi, að með þessu takist að draga eitthvað úr útbreiðslu fúaskemmdanna og þá jafnframt viðgerðarkostnaðinum.

Þá má segja, að ekki sé útilokað, að einhver ný fúavarnaefni komi til sögunnar, og er, eins og ég sagði áðan, nauðsynlegt að fylgjast vel með öllum nýjungum, sem fram koma á því sviði, eins og raunar var bent á af einum hv. þm. við 1. umr. þessa máls.

Erlendis er nú farið að byggja mikið af fiskibátum úr stáli, en innflutningur slíkra báta hingað, er fyrir nokkru hafinn, og má gera ráð fyrir, að hann fari vaxandi, ef reynslan af þeim stálbátum, sem nú eru í notkun, verður sæmileg.

Þá eru nú að koma til sögunnar ný efni til skipasmiða, sem áður voru óþekkt, þótt enn sé of snemmt að spá um notkunargildi þeirra, en það eru efni, sem væntanlega mundu ekki fúna.

Það er því vel hugsanlegt, að þeim vanda, sem af bráðafúanum stafar, verði áður en langt líður bægt frá bátaútgerðinni, a.m.k. að verulegu leyti, en á meðan svo er ekki, verður að sjá svo um, að tjónið verði mönnum ekki ofviða, þeim sem fyrir því verða, og finna til þess viðunandi leið.

Sjútvn. hefur athugað þetta frv., sem hér liggur fyrir, og rætt það á nefndarfundum. Nefndin hefur rætt við fulltrúa frá skipaskoðun ríkisins, fengið upplýsingar hjá atvmrn. varðandi bráðafúalán og ýmis einstök atriði í frv. og kynnt sér ýmislegt, sem fram hefur komið opinberlega um þetta mál undanfarið.

Að athuguðu máli eru nm. sammála um að leggja til, að frv. verði samþykkt með nokkrum minni háttar breytingum, sem tilgreindar eru á þskj. 313, en þar að auki flytur meiri hluti n. eina brtt., sem prentuð er á þskj. 314.

Ég skal taka það fram, að í frv. eru eitt eða tvö atriði að auki, sem nefndin hefur hugsað sér að athuga nánar milli umræðna og hefur unnið að því að afla sér upplýsinga um hjá ráðuneytinu.

Brtt., sem nefndin ber fram á þskj. 313, eru við 3., 4. og 6. gr. Brtt. við 3. og 4. gr. eru aðeins orðalagsbreytingar, og felst ekki í þeim nein breyting á efni frv., orðalag aðeins fært til betri vegar að nefndarinnar dómi. En brtt. við 6. gr. hefur í för með sér nokkra efnisbreytingu. Í 6. gr. er ákveðið, að ágreiningur, ef hann verður til staðar milli vátryggða og vátryggjanda, skuli lagður í gerð, og í gerðardómi skuli vera 3 menn, tilnefndir af hæstarétti. Síðan segir í 2. mgr., að gerðardómur skuli háður í Reykjavík. Þetta virðist n. óþarft ákvæði, að gerðardómurinn skuli háður í Rvík. og sé rétt að hafa þetta atriði óbundið.

Þá skal ég geta brtt. á þskj. 314, sem flutt er af þrem nm. Hún er við 5. gr. og fjallar um endurtryggingu hjá ríkissjóði, sem gert er ráð fyrir að eigi sér stað, a.m.k. fyrst um sinn. Í brtt. er svo fyrir mælt, að á meðan leita þurfi endurtryggingar hjá ríkissjóði, skuli ákvörðun iðgjalda háð samþykki atvmrn. og fjmrn.

Þetta sýnist okkur, sem að till. stöndum, eðlilegt og sjálfsagt ákvæði, og er þess að vænta, að menn geti á það fallizt, að svo sé.