15.04.1958
Efri deild: 78. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

125. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir til 2. umr., er stjórnarfrv., komið frá Nd. Sjútvn. hefur athugað frv. og leggur til, að það verði samþykkt, en hins vegar flytur hún tvær smávægilegar brtt. á þskj. 379. Er fyrri till. einvörðungu orðalagsbreyting, sem gerð er samkv. ábendingu fræðimanna, sem unnu að undirbúningi frv., en hin síðari er flutt af þeirri augljósu ástæðu, að málið mun ekki hljóta afgreiðslu fyrir þann tíma, sem ákveðinn er að lögin taki gildi, þ.e.a.s. gildistíminn verði frá 1. maí, en ekki 15. apríl, eins og nú er gert ráð fyrir í frv. eftir meðferð hv. Nd.

Aðalefni þessa frv. er það, að tekin verði upp skyldutrygging á öllum íslenzkum tréskipum, sem stunda fiskveiðar og ekki hafa þilfar, gagnvart svonefndum bráðafúa, sem hefur valdið miklu tjóni á íslenzkum fiskiskipum nú á seinni árum. Þó að svo sé ákveðið í 1. gr. frv., að þessi skyldutrygging nái ekki til opinna vélbáta eða skipa, sem annað stunda en fiskveiðar, þá er þó svo ákveðið í þessari sömu grein, að Samábyrgðinni, sem ætlað er að annast þessar tryggingar, sé einnig skylt að vátryggja slík skip, ef eigendur þeirra óska þess, með þeim kjörum, sem ráðh. ákveður í samráði við Samábyrgðina.

Í 2. gr. frv. eru ákvæði um það, að skipin skuli metin til fjár eftir gildandi matsreglum bátaábyrgðarfélaganna og Samábyrgðarinnar.

Það þykir nauðsynlegt í sambandi við framkvæmd þessara fyrirhuguðu laga, að allur sá floti, sem tryggja þarf, verði metinn. Enda þótt þær skemmdir, sem hér ræðir um, séu eingöngu á tré skipanna, þá er það augljóst, að verði slíkar skemmdir verulegar, þarf oft og tíðum að rífa ýmislegt annað, vélar upp úr skipum og annað slíkt, og þykir því nauðsynlegt að meta allt skipið til fjár, þegar grundvöllur er lagður að þessari tryggingu.

Þá er í frv. ákvæði um það, að árgjöld skuli ákveðin árlega af ráðherra í samráði við Samábyrgðina og að þessi árgjöld séu miðuð við áhættu samkvæmt reynslu síðustu 3 ára. Þessi ákvæði stafa af því, að verðmæti þess flota, sem þarna ræðir um, breytist ár frá ári, og einnig má gera ráð fyrir því, að áhætta kunni að minnka verulega, þegar þau ákvæði taka gildi, sem tryggja betra eftirlit með þessum skemmdum, og að reynt verði frekar en undanfarið hefur verið gert að koma í veg fyrir, að þær komist á hættulegt stig.

Í sambandi við þetta eru ákvæði um það í 4. gr. frv., að árleg skoðun fari fram á öllum tréskipum til þess að kanna, hvort skemmdir af bráðafúa séu finnanlegar, og á það að geta komið í veg fyrir, að þær nái því marki að hafa valdið tilfinnanlegu tjóni. A.m.k. má ætla, að þar sé um verulega breytingu til bóta að ræða, frá því, sem verið hefur.

Loks eru svo ákvæði í frv. um það, að tryggingarnar skuli vera sérstök deild í Samábyrgðinni og stjórn hennar ákveði með hliðsjón af hag sínum, hve mikinn hluta áhættunnar hún beri í sambandi við trygginguna, en hins vegar verði ríkissjóður endurtryggjandi, a.m.k. fyrst um sinn, og taki þannig á sig þá áhættu, sem eftir verður, þegar eigendur skipanna hafa samkvæmt ákvæðum um lágmark bótaskyldu tekið sinn hluta og Samábyrgðin sinn.

Aðalvinningurinn við þetta frv. virðist vera sá, að öryggi útgerðarinnar gagnvart þeim stórfelldu og óviðráðanlegu áföllum, sem hún hefur orðið fyrir á undanförnum árum í sambandi við bráðafúann, aukist, í öðru lagi, að byrðar ríkissjóðs, sem á undanförnum árum hefur orðið að taka á sig milljónabyrðar vegna fúaskemmda í skipum, minnki, og í þriðja lagi, eins og ég hef drepið á áður, að unnið verði betur að því að koma í veg fyrir tjón af völdum þessa vágests í fiskiskipum okkar og þá um leið að öryggi bæði skipa og áhafna verði meira, en áður hefur verið í sambandi við þessi atriði.