23.04.1958
Sameinað þing: 40. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (692)

149. mál, fjáraukalög 1955

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. ríkisreikningurinn fyrir árið 1955 er nýlega orðinn að lögum. Hann gekk sína lögmæltu braut hér á hv. Alþ., í gegnum þrjár umr. í hvorri þingdeild, og jafnframt var hann athugaður í fjhn. beggja deilda. Þar með er Alþ. búið að samþ. umframgreiðslur ársins 1955 í raun og veru. Afgreiðsla fjáraukalaga fyrir árið 1955, sem hér liggja fyrir í frumvarpsformi, svo sem er venjulegt, er þess vegna í sjálfu sér ekki til þess að taka afstöðu til umframgreiðslna, heldur til þess að ganga frá skýrslu yfir aukafjárveitingar og fullnægja fyrirmælum stjórnarskrár, sem gerir ráð fyrir fjáraukalögum. Fjvn. athugaði fjáraukalagafrv. sem slíka skýrslu, bar það ýtarlega saman við reikninginn til þess að sannprófa, að tölur þess væru rétt teknar upp úr reikningnum og frv. sett upp í sama formi og verið hefur að undanförnu, en það má telja nauðsynlegt, vegna þess að þá getur samanburður á milli ára átt sér stað.

Nefndin fann við þessa athugun eina villu, sem veldur ósamræmi milli frv. og reikningsins. í stað útgjaldaaukningarinnar allrar á 13. gr. D. miðað við fjárl., er aðeins tekinn inn á frv. munurinn á aukningu tekna og gjalda 13. gr. D, og þetta er í ósamræmi við frv. að öðru leyti. Þetta leggur n. til, svo sem sjálfsagt er, að leiðrétt verði, og um leið þarf að leiðrétta heildartölu 1. gr. frv.

Brtt. eru fram settar í nál. á þskj. 411. Það er fyrst: Fyrir „kr. 100.413.935.90“ í 1. gr. komi: kr. 103.803.375.65. Og önnur till.: Fyrir „kr. 2.163.543.62 í 2. gr. (13. gr. D) komi: kr. 5.552.983.37. Að öðru leyti leggur n. einróma til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.