23.04.1958
Sameinað þing: 40. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (694)

149. mál, fjáraukalög 1955

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Það er auðvitað hárrétt, sem hv. þm. A-Húnv. sagði, að það er skylt, að fjáraukalög séu rétt, þótt í raun og veru séu þau bara skýrsla, en hafi ekki verulegt gildi annað, þar sem ríkisreikningurinn ber með sér umframgreiðslurnar og með afgreiðslu hans eru heimildirnar veittar. Um það erum við sammála. Skýrslan á að vera rétt, og sérstaklega er æskilegt, að myndaðar séu fastar reglur um það, hvernig hún er upp sett. Og fjáraukalagafrv. núna, með þeirri leiðréttingu, sem fjvn. leggur til að á frv. sé gerð, er í samræmi við uppsetningu fjáraukalaga á undanförnum árum.

Nú má alltaf deila um ýmis atriði á reikningunum, hvort þau eigi að takast inn á fjáraukalög, t.d. eins og það, sem snertir eignahreyfingu hjá landssímanum. Enn fremur er 20. gr. samsafn af ýmsum hlutum, sem deila má um, hvort eigi að vera á fjáraukalögum eða ekki. Þar eru fyrirframgreiðslur, þar eru lán, þar eru afborganir, þar er geymslufé í sjóði o.s.frv. Ég álít, að það hefði verið mjög æskilegt t.d., að yfirskoðunarmenn ríkisreikninga settu reglur um það, hvernig fjáraukalögin skyldu upp byggð, að því leyti sem það liggur ekki ljóst fyrir og getur verið umdeilanlegt. En í þetta sinn eru fjáraukalögin í sama stíl og þau hafa verið að undanförnu, og fjvn. taldi rétt að gera ekki röskun á forminu, því að grundvallaratriðið er það um gildi fjáraukalaga, eins og þau eru orðin nú, að þau séu sambærileg frá ári til árs og gefi hugmynd um breytingar, sem verða á umframeyðslu frá ári til árs. Það er auðvitað sjálfsagt, að við fjvn.-menn ræðum við hv. yfirskoðandann á milli 2. og 3. umr. og tökum til athugunar, hvort okkur getur ekki komið saman um till. í þessu efni eða láta frv. vera í því formi, sem það hefur verið.