23.04.1958
Sameinað þing: 40. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

149. mál, fjáraukalög 1955

Jón Pálmason:

Herra forseti. Enda þótt hér sé um að ræða deiluatriði, sem varðar um 20 millj. kr., hvort eigi að vera á fjáraukalögum eða ekki, þá er þetta, eins og ég tók fram áðan, formsmál og ekki annað. En ég tel eigi að síður, úr því að verið er með fjáraukalög á annað borð, að þá sé rétt að taka inn á þau öll útgjöld, alveg eins þó að þau fari til framkvæmda og þó að það sé fyrir eigið fé, eins og t.d. hjá landssímanum, og hefur verið svo áður.

Varðandi aðstöðu okkar yfirskoðunarmanna vil ég taka það fram, sem sjálfsagt allir yngri þm. ekki vita, að það var lengi svo, að yfirskoðunarmenn sömdu fjáraukalögin, og þá voru þau samin mjög nákvæmlega, þannig að það var tekinn hver einn og einasti liður inn í fjáraukalög á hverri grein og allar umframgreiðslur teknar þar með. Nú eru nokkur ár síðan yfirskoðunarmenn hættu þessu og lögðu til í sínum athugasemdum, að það yrði leitað aukafjárveitingar, og síðan hefur fjáraukalagafrv. verið sem skrifstofuverk samið af fjmrn. og með þeim hætti, að það eru teknar bara niðurstöðutölur á hverri grein. Um það hefur aldrei verið, að ég hygg, neinn ágreiningur varðandi þær upphæðir, sem eru á rekstrarreikningi ríkisins, en hitt, sem hér greinir á um, varðar framkvæmdir bæði hjá landssímanum og samkvæmt 20. gr., sem ég tel að eigi að vera á fjáraukalögum, enda þótt það hafi ekki verið tekið inn þar enn. Hins vegar get ég endurtekið það, að þetta er mál, sem hefur ekki mikla þýðingu að þræta um, vegna þess að það hefur enga fjárhagslega þýðingu, en er formsmál eingöngu. En réttast er, úr því að bundið er við að setja fjáraukalög á hverju þingi, að það sé þá gert í fullu samræmi frá ári til árs, eins og hv. frsm. viðurkenndi alveg hreinlega.