12.05.1958
Neðri deild: 91. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (703)

185. mál, tollafgreiðslustöðvun

Ólafur Thors:

Herra forseti. Það er rétt, að það hefur verið venja undanfarin ár, að þegar fyrir dyrum hafa staðið svipaðar ráðstafanir og nú eru í vændum, hefur frv. svipað því, sem hér liggur fyrir, verið afgreitt.

Ég verð að vísu að segja það, að ég tel ósköp litlu máli skipta, hvort þetta frv. verður samþykkt eða ekki, vegna þess að mánuðum saman, að ég segi ekki missirum, hefur þjóðin vitað, að það væri von á einhverjum örlagaríkum ráðstöfunum. Ég hygg þess vegna, að allir, sem hafa haft nokkur föng á því að fá sín plögg tollafgreidd eða sínar erlendu skuldir greiddar, hafi gert allar þær ráðstafanir, sem tiltækar eru til að tryggja sig gegn þeim ófögnuði, sem þeir hafa talið vera í vændum. Ég sé hins vegar enga ástæðu til þess, úr því að hæstv. fjmrh. óskar eftir, að þessi lög séu samþykkt, að neinn setji sig á móti því, og ég hef umboð míns flokks til þess að tjá okkur samþykka því og þá með þeim hætti, að málið verði afgreitt nú í þessari d. og án nefndar. En ég hefði kosið að mega athuga nokkru nánar, hver meðferð málsins verður í Ed., vegna þess að það er ekki enn alveg fullt samkomulag á milli hæstv. ríkisstj. og sjálfstæðismanna um meðferð aðalmálsins, en þetta er aðeins undanfari þess. Og ég hefði kosið, að auðið yrði að ná samkomulagi að fullu um það, áður en þetta mál verður endanlega afgreitt. Við höfum rætt um það, að 1. umr. aðalmálsins yrði á miðvikudag. Það hafa komið fram óskir frá hæstv. ríkisstj., að því yrði svo lokið í þessari viku. Ég hef sagt, að ég geti ekki tekið á því neina ábyrgð fyrir hönd Sjálfstfl., en skýrt frá því, að við höfum enga tilhneigingu til að draga málið. Og það eina, sem þá væri óafgert á milli okkar, er, hvenær færi fram eldhúsdagur eða hvort það færu fram sérstakar útvarpsumræður um þetta mál. Og ég hefði kosið, að það yrði gengið frá því, áður en endanlega verður gengið frá þessu máli.

En sem sagt, hæstv. forseti, þá sjáum við enga ástæðu til að vera á móti þessu frv. og heldur enga ástæðu til þess að óska eftir, að það fari til nefndar.