29.04.1958
Neðri deild: 85. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í B-deild Alþingistíðinda. (729)

168. mál, hlutatryggingasjóður bátaútvegsins

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það liggur nokkurn veginn í augum uppi, að samkvæmt þessari brtt. hv. sjútvn. er haldið áfram á sömu brautinni og hér er alltaf verið á, sem sé að leggja á nýja skatta og hækka útgjöldin á atvinnuvegunum eða þjóðinni til þess að gera þetta eða hitt.

Ég hef nokkrum sinnum hér á Alþingi lýst þeirri skoðun minni, að af öllum sköttum og tollum, sem lagðir eru á þjóðina, sé ekkert gjald þó jafnfráleitt og að leggja á útflutningsgjald, leggja á þær afurðir, sem verið er að flytja úr landi og þarf að gefa með í stórum stíl úr ríkissjóði eða nú útflutningssjóði, til þess að það sé mögulegt að halda atvinnunni uppi. Nú á hér að bæta samkvæmt þessari till. einni millj. ofan á gjöld sjávarútvegsins, og má segja, að það væri kannske ekki þýðingarmikið, ef framlögin frá útflutningssjóði væru hækkuð að sama skapi til þessara sömu aðila. Ef ég man rétt, var það á síðasta sumri eitt af útgjöldum útflutningssjóðs að borga á hverja síldartunnu, saltaða síldartunnu, hátt upp í 100 kr., og maður sér þess vegna, hvernig ástandið er á því sviði, eins og yfirleitt í allri framleiðslunni.

Þetta mál liggur ákaflega ljóst fyrir, og ég skal ekki fara um það mörgum orðum, en ég vildi segja þessi orð aðeins til þess að gefa í skyn eða segja frá því, hvernig á því stendur, að ég mun greiða atkvæði á móti þessum brtt. og að sjálfsögðu á móti frv., ef þær verða samþykktar, því að það er með öllu útilokað, að það sé hægt að fá mig til að samþykkja útflutningsgjald á sjávarafurðir.