28.04.1958
Neðri deild: 84. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (774)

131. mál, samvinnufélög

Frsm. meiri hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 262 um breyt. á l. um samvinnufélög, er flutt af hæstv. ríkisstj. og hefur verið til meðferðar í allshn.

Nefndin hefur ekki orðið einhuga um afgreiðslu málsins. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþykkt, en minni hl., að það verði fellt, og eru álit nefndarhlutanna á þskj. 436 og 437.

Þær breytingar, sem frv. fer fram á að gerðar verði á lögunum um samvinnufélög, eru við 3. og 24. gr. laganna.

Þegar lög um samvinnufélög eða samvinnulögin, eins og þau hafa verið nefnd, voru sett fyrir 37 árum, voru mörg af kaupfélögum landsins fámenn og skammt á veg komin, enda sum þeirra þá nýlega tekin til starfa og þátttaka fyrst í stað minni, en síðar hefur orðið. Af andstæðingum þessa félagsskapar var þá mjög á því alið, að félögin væru fjárhagslega ótraust og varhugavert að eiga við þau mikil viðskipti. Í samvinnulögunum var því lögð áherzla á, að félögin yrðu gerð sem traustust fjárhagslega. M.a. var þeim í þessum lögum gert skylt að safna varasjóðum og beinlínis ákveðið ílögunum, á hvern hátt efla skyldi varasjóðina. Samkvæmt 3. gr. laganna ber að leggja í varasjóð arð af viðskiptum við utan félagsmenn, nema það af honum, sem varið er á annan hátt til almenningsþarfa, en samkvæmt 24. gr. l. ber að leggja í varasjóðinn eigi minna samtals en svarar 1% af samanlagðri sölu aðkeyptra vara og afurða. Auk varasjóðsákvæðanna voru svo í lögunum sérstök ákvæði um það, að félagsmenn í kaupfélagi bæru sameiginlega ábyrgð á skuldbindingum félagsins.

Nú eru að ýmsu leyti aðrir tímar í þessum efnum en þá voru, þ.e.a.s. fyrir 37 árum, þegar samvinnulögin voru sett. Fylgi samvinnustefnunnar hefur almennt farið mjög vaxandi í landinu. Félagsmenn í samvinnufélögum skipta nú nokkrum tugum þúsunda. Sú hjátrú, ef svo mætti segja, sem fyrrum var víða ríkjandi og alið á, að samvinnufélögin væru sérstaklega varhugaverðar stofnanir fjárhagslega, má nú heita úr sögunni. Þvert á móti er það nú orðin almenn skoðun, enda á reynslu byggð, að helzta úrræðið til þess að greiða fyrir framförum og velmegun í hverju byggðarlagi sé að halda þar uppi sem öflugustum félagsskap með sem mestri þátttöku almennings. Út á við njóta samvinnufélögin nú álits og trausts fullkomlega á borð við aðra aðila, sem viðskipti annast. Lagaákvæði til þess að efla traust félaganna hafa því ekki lengur sömu þýðingu og fyrrum.

Samábyrgðarákvæðið var fellt niður úr samvinnulögunum fyrir 20 árum eða svo, og hefur ekki orðið vart við, að það hafi orðið félögunum til óþæginda. Eftir standa enn ákvæðin um hin árlegu framlög varasjóðs, en með þessu frv. er lagt til, að ákvæði 3. gr. samvinnulaganna um skyldu til að greiða í varasjóð samtals 1% af aðkeyptum vörum og seldum afurðum verði fellt niður. Eftir sem áður geta félögin lagt fé í varasjóð eftir þessari reglu eða á annan hátt, ef þau telja sér það nauðsynlegt, en þeim er það þá ekki skylt samkvæmt landslögum.

Sömuleiðis verður það enn í lögum, þó að þetta frv. verði samþykkt, að félögunum sé skylt að leggja í varasjóðinn allan arð af viðskiptum við utanfélagsmenn, að frádregnum opinberum gjöldum, nema honum sé varið á annan hátt til almenningsþarfa, sbr. 6. lið 1. gr.

Með þessu eru varasjóði að jafnaði tryggðar nokkrar tekjur, og er vart þörf á, að frekari fyrirmæli séu í landslögum um það efni. Það er rétt að taka það fram, að öðrum félögum en samvinnufélögum er hvergi gert skylt að Leggja ákveðið umsetningargjald í varasjóð. Hér er því um það að ræða að auka sjálfsákvörðunarrétt samvinnufélaga í þessu efni til móts við önnur félög, sem eru að lögum sjálfráð um það, hvað þau leggja í varasjóði sína. Meiri hlutinn telur, að hér sé um eðlilega lagabreytingu að ræða.

Þá má benda á það, sem raunar stendur í nál. meiri hl. á þskj, 436, að í 26. gr. samvinnulaganna er svo ákveðið, að ekki megi úthluta arði til félagsmanna, fyrr en allar eignir félagsins hafa verið afskrifaðar nægilega, árgjöld í sjóði greidd og 3% af verði aðkeyptra vara, sem félagsmenn hafa keypt, lagðir í stofnsjóð, sem er eign félagsmanna. En stofnsjóðsinnstæður félagsmanna í kaupfélögum eru að lögum til tryggingar skuldbindingum félagsins.

Fjárhagsgrundvöllur samvinnufélaganna er því með lögum, þó að þetta frv. verði samþykkt, betur tryggður, en hjá öðrum félögum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, en eins og ég sagði áðan, leggur meiri hl. n. til, að frv. verði samþykkt.