28.04.1958
Neðri deild: 84. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í B-deild Alþingistíðinda. (778)

131. mál, samvinnufélög

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir það með hv. síðasta ræðumanni, að mér finnst meðferð þessa máls hér í hv. d. vera mjög óeðlileg. Nú er það þannig, eins og kunnugt er, að fyrir d. liggur annað frv. um breytingu á skattskyldu félaga. Væri því auðvitað það eðlilegasta, að þessi mál hefðu orðið samferða og vísað til sömu n., en sá háttur hefur ekki verið hafður á, eins og kunnugt er. E.t.v. er þetta gert af ásettu ráði, enda verður þetta auðveldlega til þess, að menn missa þá heildaryfirsýn yfir málið, sem nauðsynleg er til þess að gera sér grein fyrir því, hvað hér er raunverulega um að ræða.

Af hálfu stuðningsmanna þessa frv. hefur því verið haldið fram, að samvinnufélögin byggju hér við ranglæti, miðað við annan atvinnurekstur, þar sem þeim er gert að leggja vissa prósentu af arði sínum í varasjóð, en tilsvarandi ákvæði gildi ekki um annan atvinnurekstur. Þetta kann að líta vel út, ef litið er á þetta ákvæði eitt. En það, sem hér skiptir meginmáli, er auðvitað sú staðreynd, sem allir þekkja, sem einhvern kunnugleika hafa á skattalöggjöf og skattamálum, að samvinnufélögin þurfa ekki að greiða skatt af því, sem þau leggja í stofnsjóð, en annar félagsskapur, sem atvinnurekstur annast, hefur enga samsvarandi möguleika.

Skattamál samvinnufélaga eru annars málefni, sem mikið hefur verið rætt, eins og eðlilegt er, og á því er ekki vafi, að samkv. þeirri löggjöf, sem nú gildir, njóta samvinnufélögin mjög verulegra skattfríðinda, og það er eðlilegt, að þeim, sem annan atvinnurekstur stunda, sé þetta nokkur þyrnir í augum. Ég vil engan veginn halda því fram, að sjálfsagt sé og eðlilegt, að allur atvinnurekstur, í hvaða formi sem hann er, sé skattlagður eftir nákvæmlega sömu reglu. Hitt hlýtur hins vegar að verða deilumál, og mun ég víkja nokkuð að því á eftir, hvað mikill mismunur á aðstöðu mismunandi félagsforms á að vera hvað skattgreiðslur snertir. En hvað sem líður réttmæti þess, að samvinnufélögin njóti þeirra skattfríðinda, sem þau njóta nú, þá er ekki á því nokkur vafi, að jafnvel þó að frv. það, sem nú liggur fyrir um breytingu á skattgreiðslu félaga, yrði samþykkt, sem engan veginn er þó víst enn þá, þá mundi það bil, sem nú er milli samvinnurekstrarins og einkarekstrar, verða aukið mjög frá því, sem nú er, hvað skattfríðindi snertir. Það er að vísu svo, að frv. það, sem nú liggur fyrir um breytingu skattgreiðslu félaga, gerir ráð fyrir því, að í stað þess að félagaskatturinn verði stighækkandi, eins og hann nú er, skuli greidd ákveðin prósenta af arði félaganna, þannig að skatturinn verður hlutfallslegur í stað þess að vera stighækkandi. Ég skal enga dul draga á það, þó að það mál sé ekki til umræðu hér nú, að þetta atriði út af fyrir sig tel ég til bóta. Ég tel eðlilegra, að félagaskattur sé hlutfallslegur, heldur en stíghækkandi. Á hinu er þó rétt að vekja athygli, að það er ekki um það að ræða, að það eigi að létta sköttum af félögunum í heild til hins opinbera eða ríkisins, og kemur það glöggt fram í grg. fyrir frv. Það er aðeins um að ræða breytingu á formi þessa skatts, en gert ráð fyrir því, að heildarskatturinn til ríkisins verði nokkurn veginn sá sami og áður. En breytingin er fyrst og fremst fólgin í því, að það eru stærri hlutafélögin eða þau, sem skila meiri hagnaði, sem koma til að lækka í skatti, en aftur á móti kemur skatturinn til að hækka á öðrum félögum. Þrátt fyrir þetta tel ég þetta atriði út af fyrir sig þó til bóta frá því, sem nú er. Það er að vísu gert ráð fyrir því í frv., að stríðsgróðaskattur félaga til bæjar- og sveitarfélaga falli niður, en það verður þá auðvitað komið undir því, hvort bæjar- og sveitarstjórnir telja sig mega missa þann tekjustofn, sem hér er um að ræða, hvort um raunverulega skattaívilnun þessum aðilum til handa verður að ræða hvað þetta atriði snertir. Hins vegar hefur verið á það bent, að verði það frv., sem hér liggur fyrir, samþ., þá þýði það mjög verulega ívilnun til handa samvinnufélögunum, þannig að það bil, sem nú er milli samvinnufélaga og t.d. hlutafélaga, kemur til að breikka mjög verulega frá því, sem nú er.

Nú tel ég mig síður en svo í hópi andstæðinga samvinnufélagsskaparins, þó að ég að vísu telji ekki, að samvinnuúrræðin og þetta form á atvinnurekstri sé nein allsherjarbót allra þjóðfélagsmeinsemda. Eftir sem áður tel ég ekki vafa á því, að það er ekki eingöngu þannig, að samvinnufélagsskapurinn eigi á sér fullan rétt, heldur er ekki vafi á því, að það er rekstrarform, sem ýmis vandamál getur leyst. Annað mál er svo það, hvort samvinnufélagsskapinn á að styrkja í svo ríkum mæli sem nú er, með stórkostlegum skattfríðindum, miðað við annan atvinnurekstur, og ég tel sérstaka ástæðu til þess að vekja athygli á því, að slík skattfríðindi geta haft í för með sér mjög verulegar hættur. Ég sé að vísu ekki svo mjög ofsjónum yfir því, að um einhvern hagnað sé að ræða á atvinnurekstri, hvort sem um samvinnufélagsskap er að ræða eða atvinnurekstur í öðru formi. Skilyrðið fyrir því, að hæfir menn fáist til að stunda atvinnurekstur, hlýtur ávallt að vera það, að von sé um einhvern hagnað, og ber síður en svo að lasta það, að sköttunum sé ekki þannig fyrir komið, að þessi hagnaðarvon hverfi með öllu, þannig að ef víst væri, að áhrifin af þessum skattfríðindum kæmu eingöngu fram í meiri hagnaði þessum aðilum til handa, þá væri minni ástæða til andstöðu við málið en ella. En þessu er engan veginn þannig varið að mínu áliti, að trygging sé fyrir því, að þær skattaívilnanir, sem veittar kunna að vera, þurfi að koma fram í betri afkomu og meiri hagnaði þeirra fyrirtækja, sem þessara fríðinda njóta. Það er mjög mikil hætta á því, að í stað þess að skattfríðindin bæti afkomu þeirra aðila, sem þeirra njóta, verði þau beinlínis skjól fyrir óhagkvæman atvinnurekstur. Það er ekki vafi á því, að ef ákveðið fyrirtækjaform nýtur skattfríðinda, þá skapar það möguleika á því, að rekstur slíkra fyrirtækja geti þrifizt, í fyrsta lagi þó að þeim sé verr stjórnað en öðrum fyrirtækjum, og í öðru lagi skapa skattfríðindin möguleika á því að ráðast í ýmiss konar rekstur, sem telja má óhagkvæman frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Skattfríðindin, í hvaða mynd sem þau eru, bitna því ekki endilega fyrst og fremst á þeim, sem ekki njóta þessara skattfríðinda, og þurfa ekki að þýða betri afkomu þeirra, sem njóta skattfríðindanna, en þau geta einmitt að verulegu leyti komið fram í því, að sá rekstur, sem skattfríðindanna nýtur, verður með óhagkvæmara móti en ella og bitnar þannig á þjóðfélaginu í heild. Það er ekki vafi á því, að munurinn á aðstöðu samvinnufélagsskaparins og annars félagsskapar, ekki sízt eftir að búið væri að samþykkja þetta frv., er orðinn svo mikill, að sú hætta, sem verið hefur fyrir hendi í þessu efni áður, hlýtur að fara stórum vaxandi. Ég skal taka það fram, að þetta sjónarmið, sem hér er nefnt, á ekki eingöngu við samvinnufélagsskapinn og þau skattfríðindi, sem hann kann að njóta, heldur auðvitað við öll slík skattfríðindi og þá auðvitað ekki sízt við hinn opinbera rekstur, en sú hlið málsins er ekki til umræðu nú.

Niðurstaðan af því, sem sagt hefur verið, verður sú, að ég tel stórlega varhugavert að samþykkja það frv., sem fyrir liggur, og er sammála hv. minni hl. allshn. um það, að réttmætt mundi vera, óháð því, hvað verður um afdrif hins málsins, sem fyrir liggur, að fella þetta frv.