06.05.1958
Efri deild: 89. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í B-deild Alþingistíðinda. (788)

131. mál, samvinnufélög

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég vil í sambandi við þetta mál spyrja hæstv. ráðh.: Hvernig er háttað sambandi þessa frv., ef að lögum verður, við skattgreiðslu samvinnufélaga til ríkissjóðs? Verður nokkur breyting að þessu frá gildandi reglum um skattgreiðslu samvinnufélaga, og ef svo er, þá spyr ég: Hver er breytingin, og hvaða verkanir getur hún haft? Það er ekki að tilefnislausu, að ég spyr um þetta. Þegar þetta mál var rætt í hv. Nd. og sjálfstæðismenn gagnrýndu það sem skattamál, sögðu flokksbræður hæstv. ráðh. í deildinni, að allt þetta væri á misskilningi byggt, hér væri ekki um skattamál að ræða, sögðu þeir. Blað hæstv. ráðh. hefur sagt hið sama, og það hefur gengið lengra. Það hefur staðhæft, að sjálfstæðismenn hafi með gagnrýni sinni verið að ofsækja samvinnufélögin. Ég kann ekki við þessa framkomu. Það, sem máli skiptir, er þetta: Snertir þetta frv. skatta samvinnufélaganna til ríkissjóðs, eða snertir það ekki skattamál? Þetta er aðalatriði málsins. Hitt er ekki sæmandi, að vera að fara í felur með tilgang frv. Sé það hins vegar vilji manna að leysa samvinnufélögin að mestu undan skattgreiðslu til ríkissjóðs, þá er að ganga hreint til verks. Af þessum ástæðum hef ég leyft mér að beina þessari fyrirspurn til hæstv. ráðh. og óska svars hans.