16.05.1958
Efri deild: 98. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

131. mál, samvinnufélög

Frsm. meiri hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þetta er ósköp lítið frv. og breytir í sjálfu sér ekki miklu. Það, sem það breytir, er, að það ákveður að losa samvinnufélögin við þá kvöð, sem á þeim einum hefur hvílt hér á landi, að leggja ákveðinn hluta af tekjuafgangi ársins í varasjóð. Það hefur átt að leggja 1% af öllum vörum, sem seldar hafa verið til félagsmanna, í varasjóð. Þetta hafa félögin oft ekki getað, og þá hefur það komið fyrir, að óbilgjarnar skattanefndir hafa áætlað þeim tekjur, sem væru það háar, að þær nægðu til í 1% í varasjóðinn, og hækkað svo skatta eftir því. Kærur um þetta hafa komið til ríkisskattanefndar nokkrum sinnum. Vitanlega gátu þau ekki lagt meira í varasjóðinn, en þau höfðu tekjur til, og breyttum við og námum burt slíkar tilbúnar áætlunartölur. Með þessu frv. er þessi kvöð alveg leyst, svo að svona lagað þarf ekki að koma fyrir, ef það verður samþykkt. Slík kvöð hvílir heldur ekki á neinum félagssamtökum eða einstaklingum öðrum, mér vitanlega. Aftur á móti er ákveðið, að leggja skuli í varasjóð allar tekjur af verzlun utanfélagsmanna. Það er náttúrlega svo og svo með verzlun utanfélagsmanna, það er oft dregið í efa, að hægt sé að finna hana rétta og nákvæma, og það er sjálfsagt erfitt. En ákvæði er um það í lögum, að liggi það ekki fyrir, þá eigi yfirskattanefnd að áætla það, hverjar þær séu, og þá kemur af sjálfu sér ágóðinn, þegar það hlutfall er fengið. Það á að renna í varasjóð félaganna, en þó þannig, að þau opinberu gjöld, sem hvíla á félaginu vegna þessara viðskipta, má draga frá, áður en tekjuafgangurinn er lagður í sjóðinn.

Þessi ákvæði, sem hér er lagt til að breytist í samræmi við það, sem ég nú hef sagt, eru eiginlega svo sjálfsögð, að ég held, að það þurfi ekki um þau að tala. Þó að menn séu á móti þeim, eða telja sig vera það, þá er það eiginlega af annarlegum sjónarmiðum, en ekki af því, að þeir telji ekki, að þetta sé rétt.

Þetta frv. er nú flutt um leið og flutt er annað frv., sem ekki er komið til þessarar d. enn þá, um breytingar á tekjuskattslögunum, þar sem lagt er til, að öll félög verði sköttuð jafnt með 25% af tekjuafganginum.

Það mun verða talað um það af einhverjum, kannske hér af minni hl. í n. líka, að það sé ekki sambærilegt, því að félögin hafi möguleika til þess að koma sér hjá því að greiða mikið í ríkissjóð með því að úthluta tekjuafganginum sem arði til félagsmanna. Það er mikið rétt, að arður, sem úthlutað er til félagsmanna, og eign, sem við það myndar stofnsjóð, sem stendur inni í félögunum, og er eign hvers einstaklings, hann verður ekki skattskyldur hjá félaginu sem slíkur, heldur hjá einstaklingunum. Og við því er ekkert að segja. Það er ætlazt til þess beint í samvinnulögunum, að á þann hátt myndist stofnfé, sem félagið hafi sem veltu í sínar þarfir. Undir svipuðu númeri hafa verið látin ganga hér á landi allmörg félög, sem þó ekki eru samvinnufélög og ákaflega hæpið er, hvort rétt hefur verið framkvæmt eða ekki. Ég skal aðeins nefna af þeim félögum t.d. Samlag skreiðarframleiðenda, sem s.l. ár hefur um 2 millj. kr. óúthlutaðan arð um áramót og ekki er látið borga skatt af honum. Hefði það verið samvinnufélag, hefði það verið látið borga skatt af honum, en þó fyrst fengið að draga frá það, sem það borgaði út af arði í fyrra. Ég skal nefna Lýsissamlag ísl. botnvörpunga, sem á orðið nokkrar millj. í sjóði, stofnsjóði, sem er sérsjóðir þeirra, sem lýsið hafa lagt inn, og ekki er einu sinni talið fram hjá þeim og aldrei hefur verið skattlagt. Ég skal nefna Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sem sama gildir um. Ég skal nefna Sölusamband ísl. fiskframleiðenda, — já, það er nú skattfrjálst að lögum eins og Mjólkursamsalan, þau eru bæði skattfrjáls að lögum sérstaklega. Ég skal nefna Innkaupasamband stórkaupmanna. Þessi félög starfa öll á nokkurs konar samvinnugrundvelli, en kalla sig ekki samvinnufélög, hafa notið sams konar fríðinda í öllum sköttum og meira þó en samvinnufélögin og ættu auðvitað öll að takast og skattleggjast aftur í tímann eins og samvinnufélögin. Það hefur nú ekki verið gert, — Samtrygging ísl. botnvörpuskipa sömuleiðis og Innkaupasambandið sömuleiðis. Það er til heill bunki af svona félögum hér í Rvík fyrir landið allt og í Vestmannaeyjum, sem njóta sams konar hlunninda utan laga eins og samvinnufélögin njóta að lögum, sum hafa haft þau alveg, eins og Vestmannaeyjafélögin, önnur hafa tekið sér enn meira vald og hafa skákað í því skjólinu.

Með þeirri breytingu, sem nú verður gerð, náttúrlega breytist þetta. Þessi félög koma þarna inn undir, nákvæmlega eins og samvinnufélögin, enda eru þau í eðli sínu samvinnufélög, þó að þau séu stofnuð af mönnum, sem ekki geta fellt sig við nafnið, — það er ekki annað, sem um er að ræða, — og þá gengur jafnt yfir alla hvað þetta snertir.