16.05.1958
Efri deild: 98. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

131. mál, samvinnufélög

Frsm. minni hl. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Það hefur verið fjallað um þetta mál í n., en nm. ekki orðið allir á eitt sáttir, eins og fram kom af framsöguræðu hv. 1. þm. N–M. (PZ).

Frv. þetta miðar að því að fella úr gildi nokkur ákvæði í lögum um samvinnufélög, nr. 46 frá 1937. Samkvæmt þeim lögum eru félögin nú skyld til þess að leggja vissa fjárhæð árlega í varasjóði. Í 3. gr. segir svo: „Arður af viðskiptum, er utanfélagsmenn kunna að hafa gert við félagið, skal lagður í varasjóð, nema honum sé varið á annan hátt til almenningsþarfa.“ Og í 24. gr. sömu laga segir, að árgjald í varasjóð félags og aðra óskiptilega tryggingasjóði skuli eigi vera minna samtals, en 1% af sölu aðkeyptra vara og afurða. Það er þetta síðartalda ákvæði, sem ætlað er að nema úr lögum með þessu frv., sem hér liggur fyrir, en hinu ákvæðinu á að breyta.

Því hefur verið haldið fram í umr. um þetta mál í hv. Nd. og einnig í blöðum undanfarnar vikur, að það sé ekki ástæða til þess að skylda samvinnufélög frekar, en aðra aðila, til að leggja vissa fjárhæð af mörkum í varasjóði árlega. Hefur verið bent á, að félögin séu nú orðin það fjárhagslega vel stæð og örugg, að þessa þurfi ekki með, og má þetta að ýmsu leyti til sanns vegar færa. En hér er þó fleira, sem athuga þarf, og það fyrst og fremst, að varasjóðstillag samvinnufélaga er raunverulega þeirra skattstofn. Það er sá stofn, sem skattar og gjöld til hins opinbera eru miðaðir við árlega. Það er því gefið mál, að með því að rýra þennan skattstofn og gera hann í sumum tilfellum að engu, er verið að skapa samvinnufélögunum mikið hagræði. Það er að vísu gert ráð fyrir því í öðru stjórnarfrv., sem liggur fyrir hv. Nd., að héðan í frá skuli samvinnufélög og hlutafélög greiða 25% af skattskyldum tekjum í ríkissjóð, og virðist hér vera um mikið jafnrétti að ræða, og algert jafnrétti a.m.k. á pappírnum.

Við, sem að þessu minnihlutanál. stöndum, ég og hv. þm. V-Sk. (JK), hefðum talið æskilegt, að þessi frv. bæði hefðu verið athuguð sameiginlega, vegna þess að þau grípa á vissan hátt hvort inn í annað. En því var ekki að heilsa, þar sem leiðir frv. skildi strax í upphafi og frv. um skattskyldu félaga hefur ekki enn komið frá Nd. og er þar í fjhn.

Því er ómótmælt, að samvinnufélag, sem ekki hefur nein utanfélagsmannaviðskipti, verður, ef þetta frv. nær samþykki, algerlega skattfrjálst. Við sjáum því ekki betur, en samvinnufélag geti samkvæmt þessu frv. í reyndinni ráðið því að mestu leyti sjálft, hverjar verða skattgjaldstekjur þess. Enn fremur er svo kveðið á í frv., að draga megi opinber gjöld frá þeim hagnaði af utanfélagsmannaviðskiptum, sem árlega er lagður í varasjóð. Fáum við ekki betur séð en á þennan hátt sé samvinnufélagi veitt hagræði og sjálfræði meira, en gerist um aðra skattþegna.

Eins og kunnugt er, hafa farið fram á undanförnum árum og áratugum miklar umr. um samvinnufélög og einkarekstur og ýmsar deilur verið háðar, aðallega milli framsóknarmanna og sjálfstæðismanna. Ég geri ráð fyrir, að þessar deilur hafi staðið alltaf öðru hverju, frá því að samvinnufélögin voru sett á stofn, a.m.k. frá 1920, þegar samvinnufélagalögin voru sett. Og í þessum umr. hafa ýmis rök verið færð fram á báða bóga, og eftir því sem ég hef fylgzt með þeim umræðum, hafa framsóknarmenn í sjálfu sér aldrei borið á móti því, að samvinnufélögin nytu vissra fríðinda. En þeir hafa sagt: Það er rétt, að samvinnufélögin njóti þessara fríðinda, vegna þess að þau eru á ýmsan hátt eðlilegra og hagkvæmara rekstrarform fyrir allan almenning. — Ein af rökum þessara manna hafa verið að benda á, og það hefur verið talið samvinnufélögunum til mjög aukins gildis, — að sá ágóði, sem þau kynnu að safna, færi aldrei út af viðkomandi félagssvæði, hins vegar gæti einkaatvinnurekandi hvenær sem er tekið sig upp með allt sitt og flutt burt úr héraðinu fyrir fullt og allt. Ef samvinnufélag léti hins vegar af störfum, þá skildi það þó a.m.k. ýmislegt eftir sig í héraðinu, m.a. væntanlega gildan varasjóð, sem ætti þar að ávaxtast, unz nýtt samvinnufélag tæki til starfa á því sama svæði, sem ynni að sama markmiði.

Þegar af þessari ástæðu telur minni hl. n., að þetta frv. þurfi frekari athugunar við. Og sannleikurinn er sá, að skattamálin og þessi mál öll eru orðin það flókin og yfirgripsmikil, einkum á síðari tímum, að mér virðist, að um þau geti enginn alþm. talað fullum hálsi, þegar taka á tillit til allra aðstæðna, nema hafa skattasérfræðinga sér við hlið.

Hv. frsm. meiri hl. taldi, að þetta ákvæði, sem nú á að lögfesta, væri alveg sjálfsagt. Enn fremur taldi hann upp ýmsa aðila, sem ekki greiða skatt, en eru þó ekki skattfrjálsir að lögum. Ja, mér er spurn: Hvers vegna greiða þessir aðilar ekki skatt? Væri ekki athugandi að láta þá greiða skatt? Þessar sífelldu skattaívilnanir til hinna og annarra skapa ákaflega leiðinlegt andrúmsloft í þessu efni, og væri held ég réttara að hreinsa til í eitt skipti fyrir öll og láta alla aðila sitja þar við sama borð, að svo miklu leyti sem mögulegt er.

Ég gat þess, að það hefðu verið miklar umr. um þessi mál undanfarin ár og áratugi og að mér virtist, að af málflutningi framsóknarmanna hefði komið fram, að samvinnufélögin hefðu á vissan hátt notið fríðinda á undanförnum árum, en það væri ekki nema sjálfsagt. En nú kveður svolítið við annan tón í þeirra málflutningi. Nú telja þeir, að fyrst þegar þetta frv. verður að lögum, séu samvinnufélögin orðin jafnrétthá öðrum rekstraraðilum í þessu efni, vegna þess að hingað til hafi þau notið miklu verri kjara. Þessa röksemd hef ég ekki rekizt á í þeirra málflutningi hingað til, svo að mér sé minnisstætt. — En það eru nú sjálfsagt miklu meira spennandi umr. í Nd. núna, þar sem bjargráðin eru til umr., heldur en það, þó að ég og hv. 1. þm. N-M. færum hér að skattyrðast út af gömlu deilumáli, sem mikið hefur verið rætt um, — það mundi ýmsum finnast gamlar lummur. En ég get ekki stillt mig um að enda þessi orð mín með því að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta, smápistil úr leiðara Tímans þriðjudaginn 29. apríl s.l. Sá leiðari ber yfirskriftina „Skattfríðindasögur Morgunblaðsins.“ Þar segir svo:

„Það er stefna framsóknarmanna, að samvinnufélögin njóti sem líkastrar aðstöðu og einkareksturinn. Þeir telja, að sérstök hlunnindi séu samvinnuhreyfingunni ekki hagkvæm, þegar til lengdar lætur, heldur geti dregið úr árvekni hennar og framtaki; jafnréttisaðstaðan sé henni bezt; á þeim grundvelli geti hún skapað einkarekstrinum hollt aðhald og hann henni — og almenningi þannig tryggð hin bezta þjónusta.“

Ég veit ekki betur, en þetta sé einmitt aðalinntakið í röksemdum sjálfstæðismanna undanfarin ár í þessum efnum. Ef þessi leiðari, svo sem maður verður að gera ráð fyrir, túlkar sjónarmið framsóknarmanna, þá sé ég ekki annað, en framsóknarmenn og sjálfstæðismenn séu orðnir algerlega sama sinnis í þessu máli. Ég man það, — það hefur líklega verið í minni fyrstu stjórnmálaræðu, — þá vék ég að þessum málum og sagði nákvæmlega það sama að efni til og hér er sagt í leiðara Tímans. En ég hafði ekki fyrr lokið máli mínu, en ég fékk yfir mig álitlega gusu af formælingum úr öðrum áttum.

Þegar á þetta er litið, held ég, að ekki hefði annað þurft. en að fá nokkra útvalda sérfræðinga í þessum efnum til þess að forma þær till., sem allir aðilar hefðu getað sætt sig við í framtíðinni. Ég verð því miður að ætla, að með því að reka þetta mál á þennan hátt séu hv. framsóknarmenn að reyna að vekja sjálfstæðismenn upp til andstöðu við samvinnufélögin til þess að geta svo túlkað það í sínum málflutningi og blaðakosti, eins og sézt hefur nú undanfarna daga, að sjálfstæðismenn vilji umfram allt fjandskapast við samvinnufélögin. En ég segi fyrir mig, að það er fjarri því, að mig langi neitt til að gera slíkt. Ég viðurkenni fyllilega og hef frá upphafi viðurkennt gildi samvinnufélaga og er sjálfur þátttakandi í samvinnufélagi, sem starfar þar, sem ég á heima. Að öllu þessu athuguðu hefðum við talið eðlilegt að hrapa ekki svona að þessu máli, heldur athuga það allt saman miklu betur, einmitt í sambandi við það frv., sem nú liggur fyrir hv. Nd., einkum þegar þess er gætt, að þessir tveir stjórnmálaflokkar, sem ég hef gert að umtalsefni í þessari ræðu minni, virðast vera orðnir alveg sammála um allt, sem máli skiptir í þessu efni.

En á þessu stigi leggjum við til, að frv. verði fellt.