16.05.1958
Efri deild: 98. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (797)

131. mál, samvinnufélög

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Mér þykir hlýða að þakka hv. þm. S-Þ. fyrir þetta fræðsluerindi, því að hann taldi, að mestur hluti þeirra umræðna, sem fram færu um þessi mál, byggðist á misskilningi og þar á meðal nál. okkar minni hlutans.

Ég vil í sambandi við þessa staðhæfingu hans spyrja: Er það rangt samkv. gildandi lögum, að skattgreiðsla samvinnufélaga miðist við varasjóðstillag? Er það rangt, að sú skylda hvíli á samvinnufélögunum í dag að leggja 1% af veltu í varasjóð og 2/3 þess sé skattskylt? Er þetta rangt? Ég spyr hv. þm. Ef þetta er rangt hjá okkur, þá viðurkenni ég fyrir mitt leyti, að nál. sé ekki rétt byggt upp. En ég held, að þetta sé hárrétt. Ég vildi gjarnan fá leiðréttingu hv. þm., ef ég fer hér rangt með. Og ég spyr hann einnig: Er nokkurt félag nú til hér í landi, sem hefur heimild til að draga frá opinber gjöld, áður en skattur er á lagður? Hér á að lögleiða þetta. Er þetta ekki sérstaða, sem hér á að koma fram? Ég spyr um það þennan hv. þm., sem þóttist vera að fræða okkur, sem lítið eða ekkert vita um þessi mál. Ég spyr hann: Er þetta rétt, eða er þetta rangt? Það er ekki annað, sem við segjum í nál., en að hér sé um sérstöðu að ræða, ef þetta verður lögfest. Ég veit ekki til, að það séu nokkur félög, sem njóta þessara fríðinda. Hitt er annað mál, ég tel, að allir skattþegnar ættu að njóta þeirra, en ekki einstakir skattþegnar.

Ég er sammála frsm. meiri hl., að þetta ætti að ræðast og afgreiðast í beinu sambandi við tekjuskattsfrv., sem liggur fyrir í Nd. Sennilega verður það þó þannig að láta skattafrv. daga uppi, en knýja þetta fram.