16.05.1958
Efri deild: 98. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (799)

131. mál, samvinnufélög

Frsm. minni hl. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Hv. þm. S-Þ. varð nokkuð tíðrætt um misskilning þann, sem honum þótti vera um að ræða af hálfu okkar nm. í minni hl., og má vera, að skýrar hefði mátt að orði komast í nál., a.m.k. að því er varðar þá 2/3 af varasjóðstillögum, sem skattskyldir eru, en ekki allt tillagið, eins og ætla mætti, ef ekki er athugað gaumgæfilega. En hv. þm. féll enn fremur í þá freistni, sem ýmsum hv. framsóknarmönnum liggur ákaflega nærri hjarta, að láta í það skína, að þeir einir skilji samvinnufélagsskapinn og það sé raunverulega þeirra félagsskapur og þeirra eign.

Eins og hv. þm. drap á, er öllum heimillaðgangur að samvinnufélagi, eða a.m.k. öllum, sem fullnægja vissum skilyrðum, og við vitum, að í samvinnuhreyfingunni íslenzku eru menn af öllum stjórnmálaflokkum.

Ég get ekki stillt mig um að minna hv. þm. á eitt atriði, sem ég hlustaði á fyrir nokkrum árum. Það var þegar erindreki Sambands ísl. samvinnufélaga var að spyrja einn af frumherjum samvinnuhreyfingarinnar úr Dalasýslu, sem var þá kominn á efri ár, hvers hann mundi óska, ef hann ætti sér eina ósk til handa samvinnufélögunum. Ja, því er fljótsvarað, sagði hinn gamli samvinnumaður. Það er, að samvinnuhreyfingin íslenzka losi sig sem allra fyrst úr faðmlögum hinna pólitísku flokka. Og varð ekki misskilið, við hvað hann átti. Þetta vildi ég biðja vín minn, hv. þm. S-Þ., að hugleiða ögn nánar.

Hv. þm. varð enn fremur tíðrætt um það, að ég hefði slegið því föstu, að aðaltilgangur varasjóðsframlags samvinnufélaga væri sá að vera skattstofn þeirra. Þetta hef ég nú reyndar ekki gert, og ég verð að segja, að mér finnst þetta að sumu leyti óeðlilegt, að láta skattskyldu félaganna á nokkurn hátt byggjast á þessu framlagi þeirra í varasjóð. En hinu verður á hinn bóginn ekki neitað, að með því að lögfesta þetta frv. minnkar skattstofninn, eins og löggjafinn hefur núna gengið frá þessu atriði.

Ég læt þetta vera mitt síðasta orð um þetta mál, a.m.k, í dag, en ég vildi einungis spyrja hv. þm. S-Þ, einnar spurningar, — og hann getur alveg eins svarað henni eftir þennan þingfund eða einhvern tíma, þegar leiðir okkar liggja saman, því að við hittumst nú daglega, og harma ég það ekki neitt: Er hann sammála þeim pistli úr leiðara Tímans, sem ég las upp áðan? Ef svo er, þá erum við sammála í öllum meginatriðum, og þá held ég það sé ekkert oftraust á okkur báðum, að við mundum leysa hin atriðin í þessu máli sæmilega vel, með sérfræðinga við okkar hlið, þannig að þessum málum gæti orðið vel skipað í framtíðinni, svo að allir mættu vera ánægðir.