16.05.1958
Efri deild: 98. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (800)

131. mál, samvinnufélög

Frsm. meiri hl. (Páll Zóphóníasson):

Það virðist hafa komið fram bæði hér í d. og eins í nál. og í Nd., að varasjóðstillag samvinnufélaganna sé einhver skattstofn fyrir félögin. Þetta er mjög misskilið. Ég skrapp í gær upp í ríkisskattanefnd og náði mér í eitt framtal frá einu samvinnufélagi, og það leit nú þannig út, að tekjuskatturinn var 3.676 kr., sem var 8% af skattskyldu tekjunum. Og skattskyldu tekjurnar voru varasjóðstillag að hér um bil 5/9 og aðrar tekjur að 4/9, svo að það er alrangt að tala um varasjóðstillagið sem skattstofn félaganna. Þess vegna er það byggt á algerum misskilningi, þessi samtenging þessa frv. við hitt frv. Þegar verið er að tala um, að samvinnufélögunum hafi verið ívilnað o.s.frv., þá hefur verið hægt að blekkja fólk, af því að samvinnufélögin hafa verið skattlögð eftir öðrum leiðum, en ýmis önnur félög. Það er það, sem er orsökin. Það hefur verið ósköp svipuð útkoman, en þau hafa verið skattlögð eftir öðrum leiðum, og þess vegna hefur verið svona auðgert að blekkja, að jafnvel sjálfstæðismenn hafa oft getað það.

Hitt er rétt, sem þm. V-Sk. sagði, að það er ekki til í lögum að leyfa á sama hátt að draga opinber gjöld frá eins og gert er hér í þessu frv., en það er heldur ekki á sama hátt lögð kvöð á neinn annan skattþegn, eins og þarna er gert, að leggja allan ágóða af verzlun utanfélagsmanna í varasjóð.

Þetta væri nokkuð tilsvarandi eins og við segðum við einhverja verzlun, sem verzlar með ákveðna vöru aðallega: Jú, ef þú verzlar með aðrar vörur, þá skaltu taka ágóðann, sem af því verður,og þú borgar af honum útsvar, þú leggur hann í sérstakan sjóð til að tryggja þina framtíð, en sá hluti af gjöldunum, sem þú borgar opinberlega, sem liggur á þessum viðskiptum, hann er skattfrjáls, — Þetta er ekki sagt við neinn, en þetta er sagt hér um bil þó við samvinnufélögin: Það, sem þú skiptir við utanfélagsmenn, — þú mátt skipta við þá, — og það, sem þú hagnast á viðskiptum við þá, það getur þú ekki notað á sama hátt og aðrar þínar tekjur, þú verður að festa það í sérstökum sjóði, en vegna þess að á það kemur einhver hluti af þeim sköttum, sem þú borgar, þá máttu draga það frá, áður en þú festir það eða leggur það til hliðar fyrir framtíðina. — Þetta er það, sem gert er, og þetta er nýtt. Ég er með þessu ákvæði og sé ekkert við það að athuga. (Gripið fram í: Skattskyldan er ekki létt með því.) Nei, nei, hún er ekkert létt með því, ekkert annað, en að hann er alltaf fyrri, þessi partur, sem kemur inn. (Gripið fram í: Borgar fyrir sig sjálfur.) Já, borgar með sér sjálfur á alveg sérstakan hátt.

Ég nefndi í minni fyrri ræðu nokkuð mörg félög, sem væru hér á landi hálfgerð samvinnufélög. Ég nefndi til dæmis samvinnufélag skreiðarframleiðenda, sem um hver áramót á stóra sjóði, sem eru ógoldnar verðuppbætur til félagsmannanna, leggur af því ákveðinn hluta í sjóði til að tryggja sig og sína starfsemi og greiðir hitt sem uppbætur árið eftir. Þetta er nákvæmlega tilsvarandi og samvinnufélögin gera, og það hefur alltaf verið farið þannig með þau, að óborgaði sjóðurinn, sem til er um áramót, er talinn eign félagsins, borgaður af honum eignarskattur ævinlega og alltaf. En til frádráttar kemur svo það, sem greitt er í stofnsjóði félagsmanna árið áður, en það, sem eftir er, telst tekjur. Eins ætti að fara með þessi hálfgerðu samvinnufélög, þó að það hafi ekki verið gert.

Ég held, að þegar menn fara að athuga þetta frv., hv. minni hl. og þeir, sem honum fylgja, þá muni þeir komast að raun um, að það sé sjálfsagt að samþykkja það og það fyrirbyggi m.a. það, að einstakar yfirskattanefndir og stundum skattanefndir hagi svo til, þegar eitthvert kaupfélag hefur ekki nógar tekjur til að láta 1% af öllum viðskiptum félagsmanna fara í varasjóð, að búa þá til tekjur. Þannig var það um eitt kaupfélag á árinu 1954, að áætluð var tekjuviðbót á það kr. 81.377.49, til þess að það næði því að borga þetta 1% af öllum viðskiptum félagsmanna í varasjóðinn. Og svo voru tekjurnar hækkaðar sem því nam. Svo urðum við að lækka aftur tekjuskattinn í ríkisskattanefnd úr kr. 10.886,00, sem hafði verið hægt að koma honum upp í með þessu móti, og niður í kr. 6.544.00. Svona var farið að fara með samvinnufélögin hingað og þangað um landið af mönnum, sem segjast vilja þeim vel, og þetta þurfti að fyrirbyggja. Það var náttúrlega brot á samvinnulögunum að láta ekki 1% í varasjóðinn. En hvar átti að taka það, þegar peningarnir voru ekki til og ágóðinn var enginn? Hvar átti að taka hann? Kaupfélögunum var bara áætluð tekjuviðbót, sem því nam, alltaf nákvæmlega, að þau hefðu 1% í varasjóðinn. Þessu þarf að breyta, og það gera þessi lög — eða frumvarp — og þau á að samþykkja.