28.03.1958
Efri deild: 75. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

164. mál, sala áfengis, tóbaks o. fl.

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. gat þess í framsöguræðu sinni, að á Shannonvellinum á Írlandi væru seldar ýmsar aðrar vörur, en áfengi og tóbak. Síðar í ræðu sinni gat hann þess og, að skilyrði vegna húsakosts væri ekki á Keflavíkurflugvelli til sölu á öðru, en áfengi og tóbaki.

Mig langaði nú til að hafa orð á því á þessu stigi málsins, hvort samt sem áður væri ekki rétt að hafa í frv. heimild til handa ríkisstj. til viðtækari sölu, þótt ekki væri hægt að framkvæma hana eins og sakir standa.

Ég teldi, að það væri einhvers virði fyrir okkur að geta haft þarna innan langs tíma, ef þetta kæmist á fót, á boðstólum íslenzka úrvalsvöru af ýmsu tagi, og teldi það ekki minna virði fyrir okkur, en áfengissöluna í sjálfu sér.

Ég stóð aðeins upp til að hafa orð á þessu og vildi beina því til hv. n., sem málið fær, hvort hún vildi ekki athuga þessa hlið málsins, að ganga þannig frá frv. eða lögunum þegar í stað, að heimildin væri til víðtækari sölu, en aðeins áfengis og tóbaks, eins og frv. hljóðar nú á.

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson): Það komu fram hjá hv. þm. Barð. nokkrar áhyggjur út af því, hvort íslenzkir flugfarþegar, sem leið eiga um Keflavíkurflugvöll, gætu komizt inn í hina tollfrjálsu vínbúð og gert þar viðskipti á sama hátt og þeir, sem fara um flugvöllinn í gegnumflugi.

Út af þessu vil ég aðeins taka fram, að íslenzkir flugfarþegar, sem hefja flugferð á Keflavíkurflugvelli eða ljúka henni þar, fara frá vél eða að, um húsakynni tollgæzlunnar á vellinum, en koma ekki við í vínbúðinni.

Þá spurðist hv. þm. Barð. fyrir um það, hvort rétt væri, að tollfrjálst áfengi og tóbak hefði slíkt aðdráttarafl, að flugfarþegar, sem ættu leið yfir Atlantshafið, óskuðu sérstaklega eftir að koma við á flugvöllum, sem byðu upp á tollfrjálsar verzlanir, ef lenda þyrfti á annað borð.

Hjá flugmálastjórninni liggja fyrir og hafa lengi legið fyrir áskoranir frá erlendum flugfélögum, sem hafa stundað flug um Keflavíkurflugvöll, um að komið yrði á rekstri tollfrjálsrar áfengissölu á Keflavíkurflugvelli. Segja hin erlendu flugfélög, að á meðan slík þjónusta sé ekki til á vellinum, þá kjósi þau heldur, þegar því verði við komið, að fara um aðra flugvelli, sem geti boðið upp á hana, vegna þess að vitað sé, að farþegarnir óski þess.

Þá gat hv. þm. Barð. þess, að ríkið mundi sennilega hafa litla tekjuöflun af þessu, vegna þess að ekki væri ætlað að leggja mikið á það vín og tóbak, sem þarna yrði selt.

Það er rétt, það er ekki tilætlunin að hafa verulegan hagnað af víninu og tóbakinu. Hins vegar er tilætlunin að reyna að laða flugvélarnar til okkar, fá þær til þess að lenda hér, svo að við fáum af þeim lendingargjöldin, og upp úr því er miklu meira að hafa, en þó að eitthvað væri verið að leggja á áfengi og tóbak. Það eru þessi lendingargjöld, sem við höfum misst af vegna þeirrar þjónustu, sem aðrir flugvellir hafa boðið, en við ekki haft.

Þá minntist hv. 1. landsk. þm. á það, hvort ekki væri æskilegt að hafa í lögunum heimild til þess að reka tollfrjálsa verzlun með annað, en aðeins áfengi og tóbak.

Ég gat þess í framsögu, að ég hefði miðað frv. við áfengi og tóbak, vegna þess að eins og nú háttaði til á flugvellinum væru ekki tök á að koma þar upp verzlun með aðrar vörur. Hins vegar get ég vel fallizt á, að athugað verði í nefnd, hvort rétt sé að hafa heimildina almennari, en frv. gerir ráð fyrir.