17.04.1958
Efri deild: 79. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 814 í B-deild Alþingistíðinda. (812)

164. mál, sala áfengis, tóbaks o. fl.

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Nefndinni þótti rétt að gera við þetta frv. tvær brtt., en er eiginlega alveg samþykk efni þess, þrátt fyrir það þótt brtt. séu gerðar.

Brtt., sem er við 1. gr., er í því fólgin, að eins og greinin var, mátti skilja það svo, að íslenzkir menn, sem færu í áframhaldandi flugi í gegnum Keflavíkurflugvöll, ættu ekki aðgang að þessum veitingum, þar sem sett var: „til erlendra farþega“.

Til að komast fram hjá þessu og láta vera skýrt, að allir þeir, sem færu í gegnum völlinn í framhaldsflugi, hefðu þessi réttindi, var orðalagi 1. gr. breytt lítils háttar.

Þá þótti líka rétt að breyta örlítið orðalagi 2. gr. Það er vitað mál, að þeir vellir, sem þessar útsölur hafa, hafa þar margt fleira á boðstólum, en vín og tóbak, og að því er einhver vísir þarna, um bréfsefni, um póstkort o.fl., og ef aðstæður yrðu þær í framtíðinni, að betri skilyrði yrðu til slíkrar sölu og væri hægt að víkka þau eitthvað út, þá þótti rétt að taka inn í það heimild til þess. Þess vegna var bætt aftan við: „og hvers konar aðrar vörur“ í 2. mgr. En afleiðingin af þessu varð svo sú, að fyrirsögninni á frv. varð að breyta lítils háttar.

Þetta eru engar efnisbreytingar að heitið geti, og með þessum breytingum leggjum við til að frv. verði samþykkt.