19.05.1958
Neðri deild: 100. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (824)

164. mál, sala áfengis, tóbaks o. fl.

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Ég hef flutt hér brtt. við þetta frv. um, að leitað skuli álits áfengisvarnaráðs, þegar gefin er út reglugerð um meðferð áfengis í þeirri útsölu eða þeim útsölum, sem hér á að stofna til. Í áfengislöggjöfinni er svo ákveðið, að um allar reglur, sem gefnar eru út samkvæmt þeim lögum, skuli leitað álits áfengisvarnaráðs, og tel ég eðlilegt, að það verði einnig gert í þessu tilfelli, því að sömu forsendur eru að sjálfsögðu fyrir því eins og hinu. Það leiðir af sjálfu sér, að það er mikils um vert og alveg nauðsynlegt, að allrar varúðar sé gætt í sambandi við framkvæmd áfengissölu á þessum stöðum, að þetta áfengi verði ekki selt nema til þeirra manna, sem eru í framhaldsflugi á vélunum, og ef svo er, sem haldið er fram og að mér skilst byggt á nokkrum kunnugleika, að þeir, sem ferðast í flugvélunum, leggi allmikið upp úr því að geta fengið slíkt áfengi keypt á viðkomustöðum þeirra, þá sé ástæða til að taka tillit til þess í sambandi við þýðingu þessara samgangna í höndum Íslendinga.

Hér er enn fremur gert ráð fyrir því að hafa þarna á boðstólum ýmsa aðra hluti, t.d. tóbak og ýmsa dýra muni, sem máske eru seldir með minna tollálagi, en almennt gerist. Og það er sagt og þá sérstaklega á þeim flugvellinum, sem talið er að mestri samkeppni valdi við flugvellina hér um samgöngurnar á milli Evrópu og Vesturálfu heims, að þá sé einnig allmikið upp úr þessu lagt af þeim, sem með flugvélunum ferðast, að eiga þess kost að geta keypt slíka muni á leið sinni, þar sem flugvélarnar koma við. Og sé þetta verulegur þáttur í því að styrkja aðstöðu Íslendinga í millilandafluginu í samkeppni við aðra, þá er náttúrlega sjálfsagt að taka það til athugunar og gera það, sem skynsamlegt er og hyggilegt og ef til vill arðvænlegt í þessu efni. En að þessu stefnir þetta frv., sem hér liggur fyrir, að styrkja aðstöðu Íslendinga í samkeppni við önnur flugfélög, einkum á leiðinni milli Evrópu og Ameríku eða Vesturheims. En sem sagt, ég þarf ekki að hafa um þetta fleiri orð, hv. frsm. n. hefur fyrir sitt leyti lagt með því, að þessi till. mín verði samþykkt.