19.05.1958
Neðri deild: 100. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í B-deild Alþingistíðinda. (826)

164. mál, sala áfengis, tóbaks o. fl.

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Þegar nefndin fór að athuga frv., eins og það kom frá Ed., varð mönnum það strax ljóst, að ef slík heimild væri gefin eingöngu á Keflavíkurflugvelli, eins og frv. upphaflega gerði ráð fyrir, mundi við það hlutur innlendra flugfélaga, sem hafa bækistöð sína á Reykjavíkurflugvelli, verða gerður miklu verri, en hlutur hinna erlendu félaga, og því þótti n., a.m.k. meiri hl. hennar, sjálfsagt, að gengið yrði þannig frá frv., að möguleiki væri fyrir því, að innlendu félögin sætu við sama borð, hvað þetta snertir, með sína erlendu farþega.

Hv. þm. N-Þ. bar nokkurn ugg í brjósti um það, að erfitt væri að búa svo vel um hnútana í þessu efni, að ekki yrði misnotað. Samkvæmt frv. á áfengisverzlun ríkisins að reka þessar útsölur undir yfirstjórn utanrrh. Till. nefndarinnar byggist á því, að hún komist í framkvæmd, þegar slíkar breytingar hafa verið gerðar á afgreiðsluhúsakynnum félaganna á Reykjavíkurflugvelli, að telja mætti tryggt, að ekki væri hætta á, að misnotkun ætti sér stað, enda tel ég sjálfsagt, að gengið sé þannig frá, áður en heimildin kemur til framkvæmda. Ég fyrir mitt leyti, er ekkert hræddur um það, að ekki sé hægt að ganga þannig frá húsakynnum og allri skipun í sambandi við þetta, að misnotkun geti ekki komið til mála, Þetta er nú orðið algengt víða erlendis, að til sé verzlun, sem selur flugfarþegum tollfrjálsar eða að mestu leyti tollfrjálsar vörur, um leið og þeir fara út af vellinum. En þar er þannig frá gengið, að farþegar fá ekki að fara út úr þessum vistarverum, sem tollvöruafgreiðslan er í, fyrr en þeir fara í flugvélina. Þeir mega ekki opna þá pakka, sem þeir kaupa þar, fyrr en þeir eru komnir í flugvélina. Þetta er gert til þess að tryggja, að misnotkun eigi sér ekki stað, og er ekkert við því að segja. Ég fyrir mitt leyti tel sjálfsagt, að þessi heimild verði gefin hér, því að það er opinbert leyndarmál, að ferðir erlendra ferðamanna yfir Ísland með erlendum flugvélum hafa minnkað einungis af þeirri ástæðu, að þeir fá ekki sömu fyrirgreiðslu hér og þeir fá á flestum öðrum flugvöllum erlendis, er þeir koma til.