25.02.1958
Neðri deild: 56. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

130. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Það má segja, að núverandi opinber skattheimta hafi undanfarin ár og sé enn að murka lífið úr því hagkerfi, sem við búum við. Þessi aðferð til þess að útrýma því hagkerfi, sem við búum við eins og önnur Vesturlönd, er að sjálfsögðu í samræmi við skoðanir vissra flokka í landinu, sem vilja koma á því kerfi, sem þeir berjast fyrir, en það er, að enginn einstaklingur megi eiga nokkuð, heldur að ríkið eigi allt. Þess vegna er allur rekstur í landinu, eins og sakir standa, byggður á sandi, meðan við verðum að þola þá opinberu skattheimtu, sem við búum við í dag. Þessi skattheimta er ein aðaluppistaðan í verðbólgunni. Menn láta sér yfirleitt ekki koma til hugar, að skattheimta geti haft mjög mikil áhrif á verðbólguna. En skattheimtan er ein aðaluppistaðan í verðbólgunni í dag, vegna þess að hún ýtir undir mjög mikla óheilbrigða eyðslu og hún eykur óhemjulega þrýsting á allar útlánastofnanir landsins. Skattheimtan er ein aðalástæðan fyrir því, hversu hátt útlánin eru komin í lánastofnunum þjóðarinnar. Og það veldur að sjálfsögðu því, að þessir peningar fara í umferð og til eyðslu. Ef skattalögin væru byggð á heilbrigðum grundvelli, mundi þeim félögum, sem hafa rekstur með höndum í landinu, verða leyft að safna sjóðum til þess að geta haldið rekstrinum gangandi. Í dag er ekki því að heilsa. Því félagsformi, sem mest er notað hérna, hlutafélagsforminu, er ekki leyft að halda eftir neinu af tekjum sínum, þegar ríki og bær eru búin að gera sínar kröfur. Til þess að geta starfað, verða svo þessi félög að flýja á náðir bankanna til þess að fá rekstrarfé. Það er ekki einungis svo, að þeim sé synjað um að safna rekstrarfé, heldur ganga skattarnir svo nærri félögunum, að þau verða að borga nokkuð af sköttunum af eignum sínum á hverju ári. Sumir halda, að þetta sé ekkert alvörumál og að ekki liggi á að leiðrétta svona meinsemd í þjóðlífinu. En það er annað verra, sem þetta ástand leiðir af sér. Það gerir alla menn í landinu að skattsvikurum, sem geta komið því við,og það er alvarlegt ástand. Allt þetta hefur svo valdið því, að meginhluti þjóðarinnar ber slíka fyrirlitningu fyrir skattalögum og opinberri skattheimtu, að skattheimtan nær hvergi tilgangi sínum í dag. Þetta er alvarlegasta hliðin á þessu alvarlega máli, sem margir forráðamenn þjóðarinnar hafa ekki viljað hlusta á undanfarin ár. En nú er meinsemdin að koma svo greinilega í ljós, að ekki er hægt lengur að skella við þessu skolleyrunum.

Ef þjóðin vill, að atvinnurekstur geti þrifizt hér í landinu, verður að breyta opinberri skattheimtu frá því, sem hún er í dag. Það má segja, að skattabrjálsemin sé í hámarki hér í landinu, og síðasta dæmið er stóreignaskatturinn, sem á var lagður á síðasta þingi og átti að innheimta 80 milljónir kr. hjá gjaldendum. En nú er upplýst, að hann innheimtir ekki 80, heldur 135 millj. kr. Hann er 70% hærri, en þingið ætlaðist til, að hann yrði. Eignirnar eru því nær undantekningarlaust, — ég fullyrði það, — því nær undantekningarlaust virtar á hæsta söluverði. Flestir þeirra, sem greiða þennan skatt, greiða hann af fasteignum, því að það eru aðallega fasteignirnar, sem koma skatthæðinni upp. Margir, fjöldamargir af gjaldendum skattsins eiga eingöngu fasteignir, sem eru notaðar við framleiðslu. Þeir, sem eiga eignir, sem eru notaðar til framleiðslu, eru allir í vandræðum með rekstrarfé. Það er á takmörkum hjá mörgum, að þeir geti rekið þessar framleiðslueignir, vegna þess að þá skortir rekstrarfé. Af þessum mönnum á að taka hundruð þúsunda og sumum milljónir króna. Þeir geta hvergi tekið þessar fjárhæðir nema úr eignum, Þeir mega ekki draga skattinn frá tekjum, og skattalögin, eins og þau eru nú, heimila þeim ekki að halda neinu eftir af því, sem þeir þéna á árinu. Til þess að geta greitt skattinn verða þeir að selja eignirnar. Annað geta þeir ekki gert. Og þá kemur spurningin um það, hver geti keypt þær, svo að þeir geti borgað skattinn.

Eitt gott dæmi er hér rétt við húsdyrnar. Það er stóreign, sem einn einstaklingur á, og þessi eign er notuð til almenningsþarfa. Hún er einhver nauðsynlegasta byggingin í Reykjavík. Þessi maður, að ég held, á ekki neitt annað, en þessa byggingu, en hún er mjög verðmikil. Þessi maður á að greiða þúsund krónur á dag í 10 ár í stóreignaskatt og vexti. Hvernig á nú þessi maður að fara að greiða skattinn? Hann fær ekki að halda neinu eftir af tekjum sínum. Hann getur því ekki borgað hann af tekjunum. Hann hefur engar aðrar útgöngudyr, en að selja eignina til þess að borga skattinn. En ef til vill hefur það líka verið hugmyndin á bak við þessar ráðstafanir, að menn yrðu að selja eignirnar og ríkissjóður að yfirtaka þær. Nefna mætti fjöldamörg fleiri dæmi þessu lík, en þetta sýnir, hversu geysileg skammsýni hefur ráðið, þegar þessi skattur var á settur, eins og ástandið er í landinu í dag. Ef menn syntu í peningum, syntu í lausafé og rekstrarfé, þá væri öðru máli að gegna. Þá mætti hugsa sér, að þeir gætu borgað þetta. En því miður er nú ekki því að heilsa.

Hvað því frv. viðvíkur, sem hér er til umræðu, verð ég að segja, að það er spor í rétta átt. Það er talsvert mikið spor í rétta átt, ég verð að viðurkenna það. Með þessu frv. er stríðsgróðaskatturinn afnuminn, og þá er afnumið það haft, sem fyrirmunaði öllum stærri rekstri í landinu að geta notið sín. Það er settur einn skattur, 25%. Að vísu er ekki mikið við því að segja. En mér sýndist í grg., að hæstv. fjmrh. ætlaði sér nú samt sem áður ekki að láta ríkissjóð verða fyrir neinum halla af þessari breytingu. Hér er því ekki um neina fórn að ræða af hendi ríkissjóðs, Mér fyndist þó, — og ég vil beina því til hæstv. fjmrh., — mér fyndist, að ríkissjóður gæti vel lækkað skatta, án þess að það sé tekið með hinni hendinni, sem gefið er með annarri. Gæti vel verið, að það væri alveg eins hollt að lækka skattana á þann veg og láta það koma framleiðslunni í landinu til góða.

Það er í öðru lagi hækkun á skattfrjálsri arðsútborgun, sem raunar er ekki nema ofur eðlilegt, þegar vextir eru komnir upp í 71/2–8%. Það er þó samt sem áður talsvert betra, en áður var.

Í þriðja lagi eiga öll félög að greiða skattinn, eftir því sem mér skilst, bæði hlutafélög og samvinnufélög. Eru þá sett hvað þessa skattgreiðslu snertir á sama grundvöll bæði félagsformin.

En þó að þetta sé spor í rétta átt, verð ég þó að láta í ljós þá skoðun, að litlu sé bjargað fyrir atvinnureksturinn í landinu, meðan engar skorður eru settar við álagningu útsvara. Hæstv. fjmrh. gat þess í ræðu sinni, að hann hefði ekki treyst sér til þess að fara lengra í þetta skipti, en að láta breytinguna ná til félagakafla skattalaganna. En ég vil benda á, að þó að það sé gott að fá þessa breytingu, getur hún orðið að engu, með því að engar skorður eru settar við álagningu útsvaranna, og á ég þar aðallega við veltuútsvarið. Eins og allir vita, er þetta útsvar lagt á einstaklinga og félög án nokkurs tillits til afkomu þeirra eða eigna. Ég efast um, að til sé nokkurt land í heiminum, þar sem slík skattheimta er viðhöfð. Ég er ekki út af fyrir sig að álasa bæjar- og sveitarfélögunum í þessu efni. Ég veit vel, að þau hafa þungan bagga að bera og hafa gert þetta út úr neyð. En sú skylda hvílir og hefur hvílt á stjórn landsins og þá fyrst og fremst hæstv. fjmrh. að koma þessu á réttan grundvöll. Og fyrr en það er gert, verður þessi breyting, sem hér er borin fram í dag, vægast sagt afar vafasöm og mjög vafasamt, hvort hún kemur framleiðslu og atvinnuvegum landsins að nokkru gagni, meðan útsvarshlið málsins er alveg óleyst.

Það er nú svo stutt síðan frv. var lagt fram, að menn hafa ekki haft tíma til þess að gera sér grein fyrir því, hvað kynni nú að vanta í frv. Það er gott, það sem gott er í því, en ég efast ekki um, að sitt hvað sé, sem vantar og ætti að vera í frv. Ég vil t.d. benda á, að við endurskoðun skattalaganna á undanförnum árum í mþn. lögðu sjálfstæðismenn áherzlu á það, að breyting yrði gerð á ákvæðum um frádrátt frá skatti vegna taps. Nú má færa tap aðeins á milli tveggja ára. Það hefur verið margsýnt fram á, að það er óheilbrigt að synja mönnum um að færa tap á milli fleiri ára, en tveggja, ef þeir verða fyrir miklum töpum. Það á að vera grundvallarhugsun laganna, að skattgreiðandinn megi draga frá heiðarleg töp, svo lengi sem þau eru til. Þetta og fleira verður vafalaust athugað nánar við meðferð frv. í n. En hvernig sem um slíkar till. fer, þá vil ég þó endurtaka það, sem ég sagði, að ég tel það stórt spor í rétta átt, sem hér hefur verið stigið, þó að ýmislegt vanti á, að það nái fullkomlega tilgangi sínum.