25.02.1958
Neðri deild: 56. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (837)

130. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér þykir dálítið annað hljóð í hv. 2. þm. Reykv. (BÓ), þegar hann ræðir þetta frv. nú, heldur en var í síðasta skiptið, þegar hann ræddi hér um tekjuskattsfrv., sem þá lágu fyrir. Þá var verið að gera nokkra breyt, viðvíkjandi tekjuskatti sjómanna eða réttara sagt á frádrætti þeirra, og hv. 2. þm. Reykv. kom upp, eins og oft í skattamálum, fyrir hönd Sjálfstfl. og sagði, að nú væri allt of lítið að gert, það yrði að ganga miklu lengra í slíku og sjómenn ættu það að öllu leyti skilið, og flutti jafnvel till. um slíkt.

Það er nú ofur lítið um sjómenn í þessu frv., sem liggur hérna fyrir. En hv. 2. þm. Reykv. og Sjálfstfl. hefur líklega alveg gleymt því að gera neinar brtt. viðvíkjandi því að ganga ofur lítið lengra viðvíkjandi sjómönnunum, því að mér heyrðist á hv. 2. þm. Reykv., að hann hefði orðið svo feginn yfir 1., 2. og 3. gr. í þessu frv., að það hefði bókstaflega ekki komizt að í hans huga, að muna nú eftir þeim till., sem Sjálfstfl. væri vanur að gera til þess að bæta kjör alþýðunnar, eftir að hann væri kominn í stjórnarandstöðu.

Ánægjan yfir þeim tilslökunum, sem átti að gera gagnvart auðvaldinu, var svo mikil, að það komst ekkert að hjá hv. 2. þm. Reykv. annað en að lýsa ánægju sinni yfir slíkum tilslökunum, og er ríkisstj. sannarlega ekki vön að fá slíkar ánægjuyfirlýsingar úr þeirri átt. (ÓTh: Það liggur fyrir frv. frá Sjálfstfl. um þetta). Já, það er ekki verið að ítreka það, þegar hv. 2. þm. Reykv. er að ræða um þessi mál. Hann var búinn að steingleyma því sjálfur, að það væri nokkurt slíkt frv. til, annars hefði hann minnt á það.

Nú komst ekkert annað að, en ánægjan yfir fyrstu greinunum í þessu frv., og ég held, að það sé fyllilega rétt, bæði hjá hæstv. fjmrh, og hv. 2. þm. Reykv., sem báðir fyrst og fremst hafa gert þessar fyrri greinar frv., sem fyrir liggur, að umræðuefni, að það mun verða litið svo á seinna meir, sem þar sé um aðalatriði í þessu frv. að ræða.

Það er ýmislegt gott í síðari greinum þessa frv., margt sem samið hefur verið um og hefur staðið til um nokkurn tíma að ætti að ná fram að ganga, bæði viðvíkjandi kjörum sjómanna, viðvíkjandi lækkun skatta á lágtekjum og öðru slíku. En eins og greinilegt er af þeim umr., sem nú þegar hafa orðið um þetta mál, verða þessi hagsmunamál alþýðu manna auðsjáanlega ekki aðalatriðið í þeim umr., sem hérna fara fram, enda er þar að vísu ofurlítið haldið áfram á braut, sem barizt hefur verið fyrir undanfarið, en þar sem um er að ræða fyrri hluta frv. viðvíkjandi breytingunni á hlutafélagaskattinum, þar er hins vegar farið inn á nýjar brautir af hálfu ríkisstj. Og ég mun nú gera það að nokkru umtalsefni. Ég vil um leið láta það hins vegar í ljós, að ég álít, að það, sem hæstv. fjmrh. minntist á viðvíkjandi hjónaskattinum, þurfi helzt að fylgjast með þessu, en ekki bíða seinni tíma eða annarrar löggjafar.

Það er þá viðvíkjandi hlutafélagaskattinum og þeim brtt., sem gerðar eru út af honum. Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að skattalögin hefðu verið að murka lífið úr því kapítalistíska hagkerfi, sem við búum við. Hann vildi, skildist mér, alveg sérstaklega kenna það stríðsgróðaskattinum og þeim lögum, sem í sambandi við hann voru sett, og bætti því hins vegar auðvitað við, að þetta, að skattalögin vildu murka svona lífið úr því kapítalistíska þjóðfélagi, það væri náttúrlega gert af þeim, sem vilja það kapítalistíska þjóðfélag feigt. Ég vil nú minna hann á, hverjir það eru, sem vilja það kapítalistíska þjóðfélag feigt að hans áliti. Stríðsgróðaskatturinn var settur 5. maí 1941, og þá var það gamla þjóðstjórnin, sem setti hann, og undir lögin skrifa Hermann Jónasson, Eysteinn Jónsson, Jakob Möller, Ólafur Thors og Stefán Jóh. Stefánsson. Ég veit ekki, hvort það er einmitt meining hv. 2. þm. Reykv. að álíta, að það hafi verið þessir menn, sem hafi sett þennan skatt með tilliti til þess, að þeir vildu endilega hið kapítalistíska skipulag feigt. Ef það væru hins vegar einhverjir menn þar í, sem hefðu endilega viljað þetta kapítalistíska þjóðfélag feigt á þeim tíma, þá gafst nú kannske tækifæri árið eftir til að breyta þarna ofurlítið um. Þá voru núverandi lög um stríðsgróðaskattinn sett, og þau voru gefin út 20. maí 1941 og þá var nefnilega komið upp í 200 þús. kr. hámarkið. Og hver gaf þau lög út? Þau eru undirskrifuð af Jakob Möller, fjmrh. Sjálfstfl., þannig að mér sýnist hv. þm. vera að fara að dylgja nokkuð skarplega að Sjálfstfl. um, að hann vilji það kapítalistíska þjóðfélag feigt. Þá var Sjálfstfl. einn í ríkisstj. á Íslandi, þegar þau lög voru gefin út. Það er ekki það, sem veldur, hvað þarna er, að þau sósíalistísku áhrif hafi verið svo mikil. Það er allt annar hlutur. Og ég held, að það sé alveg rétt, að við gerum okkur það greinilega ljóst, því að ég velt alveg, að þessi breyting, sem hér er að fara fram, mun upp á seinni tímann þykja marka nokkur tímamót í íslenzkri skattalöggjöf, eins og líka hv. 2. þm. Reykv. tók réttilega fram.

Það hefur verið svo með okkar þjóðfélag, frá því að kapítalisminn yfirleitt fór að ryðja sér til rúms í því fyrir og um aldamótin, að þetta útlenda auðvaldsskipulag, sem áður var, berst hingað til lands í bændaþjóðfélag, sem hafði mjög eindregnar og ákveðnar hugmyndir viðvíkjandi auðmagni og auðvaldi, og það er engum efa bundið, að afstaða bænda almennt hér á Íslandi og allrar alþýðu um aldamótin er sú að vera hrædd við allt, sem heitir auðmagn. Það stafaði þegar af þeirri reynslu, sem þeir Íslendingar hlutu, sem fluttust til Ameríku, til Kanada og Bandaríkjanna, á síðari hluta síðustu aldar. Þeir urðu skelfdir við að komast í kynni við það auðvald, sem þar ríkti. Og við, sem enn þá munum fyrstu áratugi þessarar aldar hér, vitum, hvernig það gagnsýrði allt íslenzkt þjóðfélag, þessi ótti við, að hér kynni líka að koma upp auðvald. Og það er mér kært að minnast meira að segja á þær kennslubækur, sem maður sjálfur lærði í skóla, eins og Karls Finnbogasonar, — meira að segja í landafræðikennslubókunum þá var þessi ótti sterkur. Og það hefur allan tímann verið svo hér á Íslandi, að okkar bændaþjóðfélag hefur óttazt tilkomu auðmagns í landinu og með hvers konar löggjöf raunverulega reynt að setja skorður við því. Það hefur verið ótti fátækrar, smárrar, frumstæðrar bændaþjóðar við, að mikið fjármagn gæti safnazt á einstakra manna hendur og orðið þess vegna þjóðinni ofjarl. Og þau dæmi, sem þeir höfðu séð fyrir sér, einmitt af því, hvernig slíkt auðmagn hafði skapazt, hve voldugt það hafði orðið, þau ollu því, að menn voru smeykir. Þessi andstaða hefur raunverulega mótað okkar tekjuskattslöggjöf alla leið síðan. Meira að segja hefur Sjálfstfl., þegar hann hefur farið einn með stjórn, ekki farið varhluta af þessari ákaflega sterku andúð, sem hefur verið svona rótgróin hjá þessari bændaþjóð.

Þess vegna hefur raunverulega tekjuskattslöggjöfin á Íslandi verið þannig, að stórgróði hefur verið bannaður. Við höfum oft orðað þetta, og ég held, að við höfum verið sammála, 2. þm. Reykv. (BÓ) og ég, um okkar skilgreiningu á þessu, þó að við rekjum orsakirnar misjafnt, ég hef orðað þetta þannig hér áður fyrr, að kapítalisminn væri bannaður á Íslandi og hann yrði að þrífast hér í banni laganna með skattsvikum og gjaldeyrissvikum. Og ég held, að það sé nokkurn veginn rétt, að það er ekki vegna þess, að við sósíalistar höfum verið svo voldugir, að við höfum verið að útrýma honum, — ég man sérstaklega eftir, að ég sagði þetta oft við fjmrh. Sjálfstfl., sem við einu sinni sátum í ríkisstj. með, og hann samþykkti þetta algerlega, — heldur var þetta vegna þess, að þarna var á ferðinni ákaflega sterk, frumstæð hvöt hjá varfærinni bændaþjóð, sem vildi ekki hleypa sér út í neinar gönur í þessum efnum. Þess vegna hefur auðvaldið á Íslandi orðið að þrífast í hálfgerðu banni laganna, með skattsvikum og öllu mögulegu slíku, vegna þess, hve auðmagnsþróuninni hefur verið þröngur stakkur skorinn frá upphafi. Og það er rétt einmitt, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði hér áðan, að þetta hefði gert alla, sem geta það, að skattsvikurum.

Á þessu eru vissulega tvær hliðar. Það mundu vera ýmsir, sem e.t.v. kynnu að óska eftir því, að kapítalismi gæti þróazt hér á löglegan hátt og gróði myndazt á löglegan hátt. En sannleikurinn er, að afstaða þjóðarinnar gagnvart gróðamyndun hefur verið sú, að gróðamyndun væri siðferðislega forboðin, og á því hefur þetta raunverulega byggzt. Og það er ekkert undarlegt. Það á rót sína að rekja til þess, að okkar þjóð, sem um aldir er búin að vera nýlenduþjóð, búin að vera þjóð, sem lætur arðræna sig og sér allan gróðann hverfa út úr landinu og hatar þess vegna gróðamyndun og fyrirlítur hana og finnst hún hátt upp hafin yfir slíkt athæfi, — afstaða slíkrar þjóðar verður auðvitað allt önnur en þjóðar, þar sem gróðamyndun á sér stað í landinu sjálfu. Við skulum muna eftir því, að þegar borgarastéttin brýzt til valda í Englandi og byrjar að skapa sér gróða, þá gerir hún það undir þeirri forsendu, að það sé ákaflega kristilegt athæfi að safna saman auð. Púrítanisminn enski verður eins og hennar trúarkenning um það, hve það sé eðlilegt og guði þóknanlegt að vera sparsamur og iðinn og duglegur og safna auð og eyða honum ekki. Hún á þess vegna mjög sterkar rætur í íslenzku þjóðlífi og í íslenzkri þjóð, þessi andstaða á móti gróða. Og það er engum efa bundið, að það væri það bezta fyrir íslenzka þjóð, ef hún gæti þróazt á þann veg, að hún þyrfti aldrei að viðurkenna auðmagnsmyndun eða gróðamyndun sem löglegan atvinnuveg. Það væri bezt, ef hún gæti þróazt á þann veg, að hún gæti fengið að hlaupa sem mest yfir kapítalismann sem slíkt stig. Það veit enginn, hvað mikið kann að fara forgörðum hjá okkar þjóð, þegar verður farið að líta svo á, að gróðamyndun sé eðlilegur hlutur, löglegur og jafnvel lofsamlegur. Allar áminningar Hallgríms Péturssonar eða hverra annarra sem er, svo að ég tali nú ekki um kristninnar, það fer að verða nokkuð lítið úr þeim, þegar farið er að ganga inn á það sem löglegt athæfi í einu þjóðfélagi. (BÓ: Mega menn spara?) Sparnaður og gróði er alveg sitthvað, og gróði skapast ekki fyrir sparnað, heldur fyrir arðrán, og það ættu þeir, sem eru í slíkri aðstöðu eins og hv. 2. þm. Reykv., að gera sér ljóst.

Þess vegna er, þegar svona mál koma fram eins og þessi hérna, úr mjög vöndu að ráða, og það er rétt a.m.k., að þeir, sem setja svona mál í gegn, geri sér alveg fyllilega ljóst, hvað af því kann að hljótast.

Hin rökin eru svo aftur vissulega þung, að eigi á annað borð gróðamyndun að eiga sér stað í landinu og vilji menn ýta undir hana, þá sé ákaflega hart að gera það á þann veg, að menn þurfi um leið að vera lögbrjótar og að almenningsálitið verði þannig, að raunverulega sé það afsakað, það sé eiginlega ekki talið nema eðlilegt, að menn hafi einhvern veginn reynt að komast hjá þessu.

Mér skildist á hv. 2. þm. Reykv., að það mundi nú raunverulega vera hans hugmynd, ef jafnstórar tilslakanir væru gerðar eins og þær, sem hérna felast í, að stighækkandi skatturinn á hlutafélög verði afnuminn og í staðinn settur 25% skattur, sem sé jafn á öllum, smáum sem stórum, þá mundi líka ýmislegt eiga að fara að breytast hjá kapítalistunum sjálfum, hjá auðfélögunum sjálfum, það yrði líka að ganga út frá því, að þau færu að gerast tiltölulega heiðarleg, a.m.k. í því að telja fram til skatts. Og ég get nú raunverulega ekki skilið, að þetta frv. sé flutt í öðru skyni, en því af hálfu hæstv. ríkisstj., en að einmitt það eigi að vera höfuðtilgangurinn, þannig að ef eitthvað svipað ætti að halda áfram eins og verið hefur um skattsvik á Íslandi fram að þessu, hvað hlutafélög snertir, þá sé ekki til neins unnið með þessu frv., sem hérna liggur fyrir. Mér skilst, að forsendurnar fyrir þessu frv. hljóti að vera þær, að það verði að vera algerlega umbreytt hvað snertir framtalningu af hálfu hlutafélaga upp frá þessu. Við vitum ósköp vel, að hlutafélög hafa haft öll möguleg ráð í þessum samböndum, og sum stærstu hlutafélögin, sem mynduð hafa verið, hafa jafnvel farið inn á alls konar kúnstir í þessu sambandi, eins og útdeilingu arðs með 30 ára skuldabréfum og annað slíkt, fyrir utan svo öll þau skattsvik, alla þá eyðslu, sem var í sambandi við þetta og er, og annað slíkt.

Ég held, að það sé rétt fyrir okkur að gera okkur það ljóst, þegar við ræðum um breyt. í þessu efni, að í þessum gömlu, grónu kapítalistísku löndum, eins og Englandi og Bandaríkjunum, eru skattsvik undantekning hjá auðfélögum. Almennt séð er rétt talið fram í þessum löndum. Ég hef stundum orðið var við það, þegar maður hefur sagt það við menn hér heima, að þeir hafa orðið undrandi: Hví í ósköpunum skyldu þeir ekki svíkja skatt í Ameríku eða Englandi eins og hér? Samt sem áður er þetta svo, að þetta mun vera rétt, og ég hef heyrt það staðhæft og get ekki á móti því borið, að það mundi vera svo t.d. í London, ef firma færi fram á það við lögfræðifirma að búa út falska skattskýrslu, að hvert einasta lögfræðifirma mundi vísa því frá sér. Þau eru ekki mörg í Reykjavík, sem mundu gera það, þannig að þegar verið er að ræða um hlut eins og þetta, þá hlytu þeir, sem með því eru, að ætla sér að stuðla að alveg gerbreyttri afstöðu, ekki bara hjá almenningi, heldur líka hjá þeim félögum, sem í hlut eiga.

Það er eitt frá sósíalistísku sjónarmiði, sem gæti sérstaklega mælt með því, að þessi breyting verði á. Það er, að með því skattkerfi, sem verið hefur t.d. í Bandaríkjunum og í Englandi, þá getur maður lesið það í hinum opinberu skýrslum alveg nákvæmlega, hve mikil gróðamyndun er í landinu, hvað t.d. stærstu hlutafélögin græða og borið þetta saman við, hvaða vinnulaun þessi félög borga út. Og þessir stóru amerísku hringar, — það er oft og tíðum ekki fjarri því, að gróðinn, sem þeir hafa, sé jafnhár vinnulaununum, sem þeir borga, sem sé af hverjum verkamanni hefðu þeir raunverulega jafnmikið upp úr hans vinnukrafti eins og þeir borga honum fyrir vinnukraftinn. Það væri náttúrlega mjög gott, ef á annað borð hefði verið lögleitt kapítalistískt þjóðfélag á Íslandi, að maður hefði getað haft slíkar skýrslur til þess að geta vitnað í um þann gróða, sem myndazt hefur á Íslandi. Og ég get ekki skilið annað, en það hljóti að vera einn tilgangurinn með þessari aðferð gagnvart hlutafélögunum, að þarna verði algerlega umbreytt og að öll sú gróðamyndun, sem fram fer, fái algerlega að koma fram og það opinberlega, þannig að um það þurfi ekki að rífast. Hingað til höfum við í öllum þeim umræðum, sem fram fara um efnahagsmál og þjóðhagsmál á Íslandi, alltaf orðið að gizka á þennan lið. En ég er hræddur um, að það verði að vera tvennt til staðar í sambandi við slíkt. Það er annars vegar, að það verði fylgzt á allt annan hátt, en verið hefur, með öllum skattframtölum hlutafélaganna, og enn fremur tryggt, að svo miklu leyti sem eftirlit er með slíku, að það gangi, jafnt yfir.

Ég veit ekki, hvort meiningin er að halda áfram þeirri reglu, sem verið hefur, að menn geti svo að segja talið fram sjálfir og svo og svo mikið af þeim hlutafélögum, sem starfandi eru í þjóðfélaginu, geti skammtað sér skattinn sjálf eftir sem áður. Þá mundi þetta bara þýða lækkun fyrir þau. Og ég vildi gjarnan heyra það, ekki endilega núna, heldur við áframhaldandi umr. um þetta mál og í n., hvort það ætti að breyta öllu því framtalskerfi, sem verið hefur hér fram að þessu. Mér liggur nær að halda, að það yrði að taka til mjög alvarlegrar endurskoðunar alla aðferð við bókhald á Íslandi, ef svona á að breyta hlutafélagalögum. Það má mikið vera, ef það væri ekki rétt, að það opinbera yfirleitt teldi fram fyrir þessi fyrirtæki. A.m.k. þarf að hafa mjög góða gát þarna á, meðan þetta er að breytast. Það er ekki búið í einu vetfangi að kippa í lag þeirri spillingu, sem átt hefur sér stað í sambandi við þetta mál. Og það væri ákaflega æskilegt sem sagt að heyra, hvernig menn hugsi sér það framkvæmt, því að ef ekkert breytist með þetta, þá er þessi hluti frv. að öllu leyti bara til ills eins, þá fórnar hann því eftirliti, sem þjóðfélagið þarna getur haft með kapítalmynduninni í landinu, réttara sagt þeim ráðstöfunum, sem það þannig gerir til að hindra hana, en í staðinn fyrir að gera kapítalismann löglegan meira eða minna og auðsöfnunina léti það skattsvikin viðhaldast.

Ég segi þetta vegna þess, að ég vil, að þeir, sem með þessu eru, geri sér alveg ljóst, hvers konar breytingar eru að verða með þessu, en einnig vegna hins, að ég álít að nokkru leyti brotið blað með svona löggjöf viðvíkjandi þeirri afstöðu, sem hefur annars mótað skattalöggjöf Íslands frá upphafi þessarar aldar, — þeirri gömlu afstöðu bændaþjóðarinnar að óttast auðmagnið, vilja ekki mynda það og fordæma gróðann sem raunverulega siðferðislega ranglátan og eigi þess vegna ekki að eiga sér stað. Menn eiga ekki að geta grætt. Það er það eina, sem hefur staðið á bak við þá hugmynd, sem ráðið hefur í sambandi við skattalögin.

En svo er önnur hlið á þessu máli, sem líka er vert að menn átti sig vel á og ég veit ekki, hvort menn hafa gert sér fyllilega ljóst allir í sambandi við þetta mál. Það er afstaðan gagnvart miklu fjármagni. Það hafa ekki getað verið til á Íslandi stór hlutafélög. Það hefur verið hægt að reka smá hlutafélög og þau næstum því með þessu móti, sem við hv. 2. þm. Reykv. vorum að lýsa áðan, en stór hlutafélög hafa bókstaflega ekki getað verið til, vegna þess að það var ekki nokkur minnsti möguleiki fyrir þau að geta skilað neinum gróða. Við skulum sérstaklega hugsa okkur, að eftir skattalöggjöf Sjálfstfl. um stríðsgróðaskattinn var bókstaflega alveg loku fyrir það skotið, þegar 200 þús. kr. tekjur voru settar sem svo að segja hámark, sem menn gætu grætt. Hvernig var hægt að mynda hlutafélag, sem hefði kannske 10, 20, 30, 40 millj. kr. hlutafé, og ætla því að mega ekki græða meira, en 200 þús. kr.?

Hefur þetta bara verið tóm tilviljun, eða stafar það af því, að við höfum látið setja gamlar tölur í löggjöfina? Ég held, að það, sem þarna hefur búið á bak við, hafi verið það, að þjóðin hefur verið almennt á móti því, að það væri hægt að mynda stór hlutafélög í landinu, og löggjöfin, eins og hún hefur verið fram að þessu, hefur komið í veg fyrir slíkt. Þjóðin óttast stór hlutafélög. Þessi afstaða þjóðarinnar almennt hefur skapað það fyrirbrigði, að íslenzku þjóðinni hefur þótt það sjálfsagt, að þegar eitthvað mikið þyrfti að gera, þá yrði þjóðin öll að leggjast á eitt, engir einstaklingar að taka sig út úr, og ef þyrfti að gera einhverja stóra hluti í þessum efnum, þá yrði það að vera heildarátak þjóðarinnar. Og þetta hefur verið ekki aðeins skoðun sósíalistísku flokkanna í landinu, þetta hefur líka verið skoðun Framsóknarfl. og Sjálfstfl. Þegar menn hafa lagt í stórvirki eins og t.d. sementsverksmiðjuna, þá hefur það þótt sjálfsagður hlutur, að þetta væri þjóðareign, alveg sjálfsagður hlutur, og þegar rætt hefur verið mál eins og með áburðarverksmiðjuna, þá er það aðeins sérstök tilviljun, vegna sérstakra aðstæðna að, að ofurlitlu leyti skuli hlutafélagsformi leyft að komast þar að með ríkisfyrirtæki. Þetta hefur stafað af því, að þjóðin hefur verið hrædd við stórt fjármagn í fárra manna höndum, og hafi þurft að koma upp stórum atvinnufyrirtækjum, þar sem þurft hefur mikið fjármagn, hefur þess vegna þjóðin álitið sjálfsagt, að þjóðin ætti þau. Þetta hefur verið svo sjálfsagt í meðvitund fólks, að þegar meira að segja Sjálfstfl. og Framsfl, eru einir í ríkisstj. hér um nokkurt skeið á undanförnum áratug, og þegar ég veit að lagt var allmikið að þeim að láta sementsverksmiðjuna verða einkafyrirtæki eða hlutafélag, þótt ekki væri nema hlutafélag að nafninu til, þá stóðu þessir tveir flokkar á móti því og hindruðu það, og sementsverksmiðjan er enn ríkisfyrirtæki og þjóðareign.

Nú sagði hæstv. fjmrh., að það væru mikil verkefni fram undan, m.a. í sambandi við iðnað, og þess vegna væri rétt, að nokkur breyting yrði gerð á skattalögunum, sem gerði það mögulegt, að menn gætu myndað stærri hlutafélög.

Ég hefði fyrir mitt leyti kosið, að það væri áfram skoðun þjóðarinnar og þar með líka Sjálfst.- og Framsfl., að þegar við þyrftum að leggja í stór fyrirtæki, sem útheimtu svo mikið fjármagn, að íslenzkir einstaklingar gætu ekki lagt í það, þá legði þjóðin í það sem heild og það yrði fyrst og fremst þjóðareign, sem reist yrði við okkar stóriðjufyrirtæki, t.d. við okkar fossa, og að svo miklu leyti sem eitthvað af fyrirtækjum yrði einstaklingseign, þá væru það frekar þau smærri. Hins vegar dylst mér ekki, að í sambandi við þá breytingu, sem hér er verið að gera, opnast viss möguleiki, sem hingað til hefur ekki verið til og ég fyrir mitt leyti er hræddur við, að útlent auðmagn geti komið inn í landið, án þess að við getum haft eins mikið eftirlit með því og við höfum getað gert og höfum gert fram að þessu. Það er vitanlegt, að hér á Íslandi er ákaflega lítið útlent auðvald starfandi í landinu, svo lítið, að það má næstum því segja, að það sé ekki neitt. Það hefur þýtt m.ö.o., að jafnt íslenzk borgarastétt, sem hér hefur eignazt nokkrar eignir, sem íslenzk bæði bændaalþýða og önnur alþýða hefur eignazt það, sem til er á landinu af fyrirtækjum, og á það sjálf.

Ég gæti trúað að sumu leyti, að Ísland væri af þeim löndum, þar sem á annað borð ríkir kapítalistískt skipulag, þá væri það eitt af þeim löndum, þar sem íbúarnir sjálfir, hvort heldur það eru nú kapítalistar, verkamenn, bændur eða aðrir, ættu sem næst því 100% af öllum þeim fyrirtækjum, sem í landinu væru. Hið erlenda auðmagn í landinu er hverfandi lítið. Og við vitum ósköp vel, af hverju þetta stafar. Þetta stafar af því, að það hefur eðlilega ekki verið girnilegt fyrir erlent auðmagn að leggja fé í fyrirtæki í þessu landi, vegna þess að þau gátu ekki gefið gróða, gátu a.m.k. ekki gefið gróða á löglegan hátt, og fyrir útlent fjármagn var afar erfitt að ætla að gefa slíkan gróða á ólöglegan hátt. Íslenzkir einstaklingar, sem eru hnútunum kunnugir, hefðu kannske getað einhvern veginn, eins og talað hefur verið um, snúið sig út úr slíku, en fyrir útlendinga var það bókstaflega óhugsandi.

Það er hins vegar engum efa bundið, að með þessari breytingu á tekjuskattslögunum opnast hvað tekjuskattinn snertir möguleikar fyrir því, að útlendu auðmagni, að svo miklu leyti sem það eftir íslenzkum lögum getur starfað, — og það mundi geta starfað hér nokkuð í íslenzkum hlutafélögum, — því eru opnaðir möguleikar til að taka þátt í íslenzkum hlutafélögum með þessu móti.

Ég veit, að það er hægt að færa ýmis rök að slíku, að það gæti verið heppilegt fyrir íslenzkt atvinnulíf, — ef menn vilja í því kapítalistíska þróun, þá gæti það verið heppilegt, að slíkir möguleikar væru opnaðir í landi, þar sem eins mikið er eftir að gera og hjá okkur. Ég hef áður lýst því, og skal ekki endurtaka hér mína skoðun í því efni, að ég álít, að slík þróun yrði bezt með því að, að svo miklu leyti sem við þyrftum að fá erlent fjármagn, þá tækjum við það að láni, ríkið sem slíkt, og hagnýttum það hér innanlands, ýmist í fyrirtæki, sem ríkið sjálft á, eða jafnvel að einhverju leyti lánað einstaklingum, þegar um minni fyrirtæki væri að ræða.

En ég vil minna á, að einmitt sú mikla þróun, sem átt hefur sér stað á Íslandi, það sem af er þessari öld, og sú þróun, þar sem verkamenn, bændur og borgarar raunverulega hafa lagzt á eitt um að byggja okkar land upp og hafa unnið stórvirki í því sambandi, — þessi þróun, þessi efnahagslega þróun hefur gerzt þannig, að þjóðin hefur verið efnahagslega mjög sjálfstæð hvað það snertir, að útlent auðmagn kemst ekki inn í landið. Menn hafa átt þetta sjálfir. Við höfum getað deilt um það, hvernig það skiptist okkar á milli, einstaklinganna á Íslandi, stéttanna og annað slíkt. En í heild hefur útkoman orðið þessi: Íslendingar hafa átt þetta sjálfir. Og ég held, að það sé svo dýrmætur hlutur, hvað mikið sem við kunnum nú að kvarta, þegar okkur kemur illa saman, liggjum í deilum og öllu mögulegu slíku, að þá eigum við að athuga ákaflega vel, áður en við sleppum því. Það þýðir, að ég álít, að við þurfum að vera ákaflega vel á verði gagnvart þeim möguleika, sem opnast fyrir erlent fjármagn hvað breytinguna á tekjuskattinum snertir að komast inn í íslenzkt atvinnulíf og verzlunarlíf, — möguleika, sem hingað til hefur ekki verið til. Það getur verið stór hætta á ferðum í þessu sambandi, og sé útlent auðmagn einu sinni komið inn í ríkum mæli, þá fylgir því sú hætta, að Íslendingar ráða ekki við það og að jafnvel slíkt útlent auðmagn geti náð tökum á ekki aðeins efnahagslífi landsins, heldur jafnvel stjórnmálalífi landsins. Við þurfum ekki að líta til annars, en meira að segja þeirrar baráttu, sem menn hafa jafnan oft orðið að heyja bæði í Noregi og Danmörku viðvíkjandi slíkum áhrifum, og hafa samt þær þjóðir að mörgu leyti reynt að vera á verði.

Ég vil þess vegna í sambandi við þennan þátt löggjafarinnar hvetja til ýtrustu varúðar um, að menn átti sig vel á því, hvaða breyting þarna er að verða, og geri sérljóst, að henni fylgir hætta, jafnvel stór hætta.

Ég tók eftir því, að hv. 2. þm. Reykv. sagði hér áðan, að það hefði verið ein aðferðin við að reyna að leyfa mönnum að græða að hafa afskriftirnar miklar. Kom ekki hv. 2. þm. Reykv. eitthvað inn á það, að við hefðum verið að hagræða því í sambandi við atvinnufyrirtækin og annað slíkt? (Gripið fram í.) Jæja, þá bið ég afsökunar, ef það er ekki rétt hjá mér. Ég man eftir, að í nýsköpunarstjórninni höfðum við einmitt þá aðferð að leyfa þeim, sem voru þá að leggja í skipin og önnur fyrirtæki, að afskrifa um 20%, ef þeir gætu. En þetta var miðað við það þá, að menn væru að leggja í atvinnufyrirtæki. Og sannleikurinn var, að með því að þjóðin hefði svona mikið eftirlit með því, hvernig undanþágurnar undan skattalögunum væru gefnar, var hægt að sjá svo um, að það gæti skapazt gróði á vissum sviðum, við skulum segja hvað snertir framleiðsluatvinnuvegina, þannig að menn mættu þar afskrifa sín tæki og það jafnan fljótt, jafnvel á fimm árum, ef menn gætu grætt það mikið, að menn hefðu efni á því. Og þetta hefur — held ég — að mestu leyti staðið síðan. Þetta sama var aftur á móti ekki viðurkennt við t.d. verzlunina, og ég álit, að það hafi verið rétt að mismuna á þennan hátt. Þjóðfélagið sagði: Við getum leyft gróðamyndun og eignasöfnun, þegar menn eru að leggja í atvinnufyrirtæki, sem hjálpa til þess að auka framleiðslu þjóðarinnar, og þess vegna mega þessi atvinnutæki afskrifast svona, hvort sem þau eru nú í sjávarútvegi, landbúnaði eða iðnaði, en við getum ekki leyft svona, þegar um verzlun er að ræða, og verzlunin var sem sé undir sama harða eftirlitinu, skorinn jafnþröngur stakkur og áður.

Ég vil vekja athygli á því, að með þeirri breytingu, sem hérna er gerð á tekjuskattslögunum, er enginn munur gerður þarna á. Það fjármagn, sem sett er í verzlun, fær sömu aðstöðu og sama rétt í sambandi við gróðamyndun og það fjármagn, sem sett er í atvinnurekstur eða framleiðslu á einn eða annan hátt.

Þetta álít ég mjög varasamt. Það er ekki það mikið um fjármagn á Íslandi eða fjármagn, sem við ráðum yfir, að við höfum efni á því að láta fjármagn yfirleitt leika lausum hala, og skattalögin, svo gölluð sem þau hafa verið, og jafnvel með þeirri spillingu, sem þau hafa oft skapað, þá hafa þau þarna verið visst aðhald. Það hefur verið hægt að veita undanþágu í skattalögunum viðvíkjandi framleiðslunni, sem ekki hefur verið gerð viðvíkjandi verzluninni. Hins vegar er það vitanlegt, að meinið í öllu efnahagslífi Íslands, eitt stóra meinið í öllu efnahagslífi Íslands á þessari öld hefur verið það, að fjármagnið hefur alltaf streymt of mikið í verzlunina, en of lítið í framleiðslutækin. Þetta var strax niðurstaða, sem sú fyrsta stjórn, sem Framsfl. og Alþfl. mynduðu hér á Íslandi, 1934 til 1937–38, komst að, og sú bezta rannsókn, sem enn þá hefur verið gerð á efnahag Íslands, sú skýrsla, sem Rauðka, eins og hún var kölluð, sem skipulagsnefnd atvinnumála samdi þá, komst einmitt að þeirri niðurstöðu, að það fjármagn, sem streymdi í verzlunina, væri allt of mikið. Það var þá um 100 millj. kr., sem hún taldi að væri í verzluninni á Íslandi, á sama tíma sem í öllum sjávarútveginum var t.d. bara 22 millj. kr. fjármagn. Og þetta er raunverulega átumeinið í íslenzku þjóðfélagi, að verzlunarauðmagnið hefur verið of áhrifaríkt í öllu atvinnulífi Íslands og í öllu efnahagslífi Íslands á þessari öld og hefur alltaf haft svo sterk pólitísk völd í landinu, að það hefur raunverulega getað skammtað þeim atvinnurekstri, sem er í framleiðslunni, aðstæðurnar, — og þetta er hættulegt.

Ég álít, að það hefði einmitt með tilliti til þess líka, sem hæstv. fjmrh. minntist nú á, að það væru stór verkefni fram undan, eins og í sambandi við iðnað og annað slíkt, þá hefði verið ákaflega rétt að athuga í þessu sambandi, hvort það hefði einmitt ekki átt að draga í sambandi við samþykkt svona laga úr þeim möguleikum, sem verzluninni væru gefnir. Það er siður en svo, að við þyrftum að uppörva til meiri fjármagnsmyndunar í verzlunarhlutafélögum á Íslandi. Það lægi nær fyrir okkur að þjóðnýta olíufélögin og láta ríkið reka þau, heldur en að fara að ýta undir, að það mynduðust á fleiri sviðum sterk hlutafélög, sem settu fjármagn þjóðar og einstaklinga í verzlunarreksturinn fyrst og fremst. Ég held, að það væri eitt af því, sem þyrfti að taka til athugunar við þetta mál í nefnd og í framhaldsumr. um það.

Svo vil ég að síðustu segja það, og það er nú að sumu leyti líka í sambandi við það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að mér fannst hann eiginlega fullbráðlátur. Mér fannst bera nokkuð mikið á því, að verzlunarauðvaldið í Reykjavík lýsti ánægju sinni yfir þessu frv. og ætlaðist nú til að fara að fá eitthvað meira. Hann lauk sínu máli með því að segja, að það væri nú litlu bjargað við þetta frv., þó að hann segði, að það væri talsverð bót að því, meðan engar skorður væru reistar við álagningu útsvara. Það er svo sem auðséð, hvað stórkapítalið hjá okkur á Íslandi muni fara fram á næst.

Ég vek greinilega athygli á því í sambandi við þetta frv., að með því eru numdar úr lögum þær skorður, sem hingað til hafa verið fyrir bæjarfélög, að þau megi ekki leggja útsvör á aðila, sem hafa 200 þús. kr. skattskyldar tekjur eða þar yfir, þannig að þessar 200 þús. kr. hafa sem sé verið loftið, sem maður hefur rekið sig upp undir í slíku sambandi. Þetta hámark er nú afnumið, um leið og lögin um stríðsgróðaskatt eru afnumin. Að vísu ber að muna það, að svo og svo mikið af stríðsgróðaskattinum hefur verið greitt aftur til bæjanna, en þetta þýðir hins vegar, að þeir bæir, sem hafa t.d. mikið af auðfélögum innan sinna vébanda, fá nú aðstöðu, — og við skulum nú segja, að kapítalistarnir í landinu fari að verða mjög duglegir og fari að telja miklu réttar fram, en hingað til, því að þeirra gróði sýnir sig að vera miklu meiri, en þeir hafa viljað af láta fram að þessu, þá er gefið, að bæir, við skulum segja eins og sá, sem ég er fulltrúi fyrir, Reykjavík, geta þá farið að leggja miklu meiri útsvör á þessi auðfélög, og því finnst mér að hv. 2. þm. Reykv., sem líka er fulltrúi Reykjavíkur hér og almennings í Reykjavík, eftir því sem hann telur, og allra stétta, hefði nú átt að vera dálítið ánægður yfir. Þetta þýðir, að fólk hér í Reykjavík má vafalaust eftir samþykkt þessara laga búast við því, að sú þunga útsvarsbyrði, sem hvílt hefur á verkamönnum og millistéttafólki, fari nú að minnka, vegna þess að nú geta auðfélögin farið að bera þarna þó nokkuð miklu meira, en verið hefur hingað til.

Hv. 2. þm. Reykv. veit, hve þungt hefur verið kvartað undan miklum útsvörum í Reykjavík og að þau hafa bæði þótt hækka mjög ört, heildarupphæðin, og þyngjast á láglaunamönnum og ekki hvað sízt á meðaltekjumönnum. Það er þó aldrei meiningin hjá auðmannastéttinni í Reykjavík að koma næst með þá kröfu, að það eigi að fara að takmarka einhvern rétt okkar kæra sveitarfélags til þess að leggja útsvör á þá ríkustu í þessu sambandi? Mér heyrðist jafnvel hv. 2. þm. Reykv. telja þessa ágætu löggjöf, sem hann var annars að lýsa svo mikilli ánægju yfir, fara að gerast harla vafasama, þegar hann kom að því, að nú væri eftir útsvarsrétturinn og álagning hans hjá sveitarfélögunum á Íslandi. Ég vil um leið lýsa ánægju minni yfir því, að sá réttur er þó ekki af tekinn, heldur þvert á móti aukinn með þessu, þannig að ef stjórnarvöld skyldu ekki standa nægilega vel á verði í sambandi við þær tilslakanir, sem nú eru gerðar um tekjuskattinn, þá er þó sveitarfélögunum á Íslandi enn veittur sá gamli réttur, sem þau hafa haft svo að segja frá alda öðli til þess að standa á verði um hag íbúanna og almennings. En það er svo sem auðséð, hvaðan árásin muni koma á þann rétt. Hins vegar er það engum efa bundið, að þó að hægt verði að breyta þessu viðvíkjandi tekjuskattinum og sú mjög vafasama tilraun verði gerð, þá verður öðru máli að gegna viðvíkjandi útsvörunum. Þar kemur áreiðanlega til með að verða staðið harðar á móti, að nokkur breyting verði á, hvernig sem auðmannastéttin kann að sækja það. Og frá sjónarmiði sveitarfélaganna er það engum efa bundið, að ýmis þeirra munu vafalaust fagna því að fá þann rétt, sem þau fá með þessu.

Ég vildi láta þessar athugasemdir mínar koma fram við 1. umr. málsins, því að ég álít alltaf gott við hverja löggjöf, sem samþ. er, að menn hugsi sem allra ýtarlegast um, hverja afleiðingu hún kann að hafa. Hafi ég miklað eitthvað fyrir mér af þeim hættum, sem ég hef séð, þá þætti mér vænt um, ef svo reyndist. En höfuðatriðið fyrir mér hefur verið hitt að vara við þeirri hættu, sem ég sé í þessu, og þeirri miklu breytingu, sem með því verður á því kerfi, sem ríkt hefur viðvíkjandi tekjuskatti á Íslandi, það sem af er þessari öld.