25.02.1958
Neðri deild: 56. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í B-deild Alþingistíðinda. (838)

130. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Áður en lengra er haldið, vil ég segja aðeins örfá orð út af þeim tveimur ræðum, sem þegar hafa verið haldnar.

Hv. 3. þm. Reykv. (EOI) sagði m.a., að sér sýndist sá ágalli á þessu frv., að með því væri afnumin sú sérstaða, sem ýmis framleiðsla eða ýmis atvinnurekstur hefði haft í skattalöggjöfinni, en allt nú gert jafnt að þessu leyti, bæði verzlunaratvinnurekstur og framleiðsluatvinnurekstur og iðnaðaratvinnurekstur. Þetta er vafalaust byggt á misskilningi hjá hv. þm. Í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir að nema neitt úr lögum af þeim ákvæðum, sem fyrir eru um sérstakar afskriftir, t.d. á ýmsum framleiðslutækjum og iðnaðartækjum, þannig að sá mismunur, sem áður hefur verið gerður í þessu efni, helzt alveg þrátt fyrir þessar nýju tillögur.

Hv. 3. þm. Reykv. drap nokkuð á, að mjög vafasamt mundi vera, að heppilegt væri að gera mögulegt að stofna til stórra hlutafélaga eða víðtæks félagsskapar af því tagi, — en gat um, sem rétt er, að eins og skattalöggjöfin hefur verið, þá hefur slíkt verið mjög torvelt, — þetta væri mjög vafasamt.

Ég er þeirrar skoðunar, að það sé eitt okkar mesta mein, hve fjármagnsmyndunin í landinu sé lítil og hefur lengi verið. Þar er náttúrlega ekki skattalöggjöfin ein, sem kemur til greina, heldur er það líka sú verðbólguþróun, sem hér hefur verið áratugum saman, og er allt of langt mál að ræða það í einstökum atriðum.

Ég held, að það sé talsverð hætta á því, að Íslendingar verði allt of háðir erlendu fjármagni varðandi framfarir sínar á næstunni, ef ekki tekst að bæta mjög úr í þessu efni og auka stórlega fjármagnsmyndun í landinu sjálfu. Ég álit, að það eigi að grípa til ýmissa nýrra úrræða í því efni, eins og t.d. þeirra að reyna meira, en áður hefur verið þær leiðir að stofna félagsskap, t.d. hlutafélög, um þýðingarmikil verkefni og reyna að fá almenning til þátttöku í þeim hlutafélögum. Í mínum augum standa mál þannig, að þetta frv, ætti að geta greitt mjög fyrir því, að þessi leið væri farin, meira en gert hefur verið. Auk þess mundi þetta frv. greiða fyrir því, að samvinnufélögin, sem eru, eins og við vitum, félög almennings í landinu, geti komið þessu við. En þarna hafa ákvæði skattalaganna mjög verið til trafala, bæði varðandi starfsemi hlutafélaga og samvinnufélaga.

Ég álít því mjög nauðsynlegt að breyta til einmitt í þessa átt, eins og ég raunar færði rök fyrir af minni hendi í framsögu málsins.

Hv. 3. þm. Reykv. (EOI) taldi skatteftirlit hér ákaflega lélegt, og ég held, að hann hafi tekið þannig til orða, að nærri stappi, að menn skammti sér skattinn sjálfir. Þetta er auðvitað alveg ofmælt hjá hv. þm., þó að skatteftirlit þyrfti að vera hér mun betra, en tekizt hefur að gera það. Sérstaklega vil ég upplýsa, að það hefur verið unnið verulega að því undanfarið að auka þetta aðhald, og verður áfram unnið að því að auka það og gera það sem bezt og fullkomnast, því að það er vitanlega mjög þýðingarmikið, að þetta eftirlit geti verið sem bezt.

Þá var það út af ræðu hv. 2. þm. Reykv. (BÓ). Ég vildi segja aðeins örfá orð út af henni. Hann taldi, að ákvæði frv. um breytta til högun á félagaskattinum væri mjög til bóta eða a.m.k. talsvert mikið spor í rétta átt, eins og hann tók til orða. En hann sagði í því sambandi, að þó yrði að taka það fram, að það væri litlu bjargað, á meðan ekki væru settar skorður við álagningu útsvara.

Ég verð að segja, að mér þykir þetta nokkuð eftirtektarverð ummæli af hendi hv. 2. þm. Reykv., sem er fulltrúi hér á þingi fyrir Sjálfstfl., en eins og við vitum, þá er Sjálfstfl. meirihlutaflokkur í Reykjavík. Í Reykjavík er mjög mikill atvinnurekstur, þ. á m. iðnaðarrekstur, og þessi ummæli hv. þm. jafngilda því, að það sé til lítils, þó að ríkið lækki skattana, á meðan Sjálfstfl. fær að leika lausum hala með skattálagningu sína í Reykjavík. Þetta er skýr og hrein yfirlýsing frá hv. 2. þm. Reykv. um þetta m.ö.o., að meiri hl. Sjálfstfl. í höfuðborginni sé líklegur til þess að ofsækja menn þannig með skattálögum og útsvarsálögum, að löggjöf eins og þessi, jafn stórfellda breytingu sem hún hefur í för með sér um greiðslu skatta til ríkisins, geti orðið gerð að engu í framkvæmdinni, þessi meirihluti í Rvík sé líklegur til þess að búa þannig að mönnum. Þetta er að vísu nokkuð í samræmi við reynslu þá, sem orðið hefur í þessu efni. En það er a.m.k. mjög merkilegt að fá slíka yfirlýsingu hér á Alþingi frá einum merkasta þm. Sjálfstfl., og þeim, sem er venjulega framsögumaður flokksins hér í skattamálum.

Þá sagði þessi hv. þm., að síðasta dæmið um skattabrjálæðið væri álagning stóreignaskattsins. Ég skal ekki fara mjög út í það, því að stóreignaskatturinn er ekki hér til umr. En sjálfstæðismenn kölluðu það ekki neitt brjálæði að leggja á stóreignaskatt, þegar þeir áttu sjálfir frumkvæði að slíkum skatti 1950. Þá var ekki talað um það úr þeirra herbúðum, að þar væri um nokkurt brjálæði að ræða.

Loks minntist hv. 2. þm. Reykv. á, að skattheimtan hér undanfarið hefði verið að smámurka lífið úr efnahagskerfinu, en forráðamenn landsins hefðu ekki viljað hlusta á réttmætar aðvaranir um þetta mál.

Hv. 2. þm. Reykv. og hv. sjálfstæðismönnum er nauðsynlegt að festa sér það í minni, að þegar löggjöfin var sett um að hækka sérstaklega beinu skattana og löggjöfin um stríðsgróðaskattinn og lengst var gengið í þessum efnum og vafalaust þannig gengið fram, að lýsing hv. 2. þm. Reykv. er auðvitað sérstaklega meint um það, þá var það Sjálfstfl., sem hafði fjármálaforustuna. Mörgum mun kannske koma þetta dálítið kynlega fyrir, þegar áróður Sjálfstfl. fyrr og síðar í þessum efnum er athugaður. En þetta er ómótmælanleg staðreynd. Og síðan hefur yfirleitt verið unnið í þá stefnu jafnt og þétt að lækka beinu skattana frá því, sem þeir voru, þegar Sjálfstfl. hafði fjármálaforustuna í landinu.

Þetta vildi ég taka fram út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði. Það er ekki viðeigandi annað, en að draga athygli manna að þessum atriðum, fyrst hv. þingmaður fór að ræða um þau sér í lagi.