13.05.1958
Neðri deild: 94. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (843)

130. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta frv. um breyt. á lögum um tekju- og eignarskatt hefur verið til athugunar hjá fjhn. d. Liggja nú fyrir tvö nál., frá meiri og minni hl. Meiri hl. hefur skilað nál. á þskj. 489 og mælir með samþykkt frv., en einn nm., hv. 3. þm. Reykv., skrifar þó undir álitið með fyrirvara, og flytur hann nú brtt. um að fella niður þrjár fyrstu greinar frv. En meiri hl. ber fram brtt. við frv. viðkomandi skattgreiðslum hjóna, og eru þær fluttar eftir beiðni hæstv. ríkisstj. Minni hl., hv. 2. þm. Reykv. og hv. 9. landsk., hefur svo lagt fram sérálit og flytur einnig nokkrar brtt. við frv.

Vil ég nú fara nokkrum orðum um einstakar greinar frv. og brtt. meiri hl.

Í 1. gr. frv. eru ákvæði um skattskyldu svonefndra sameignarfélaga. Í gildandi lögum segir, að ef ekki séu fleiri en þrír félagar í verzlunarfélagi eða öðru atvinnufélagi með persónulegri ábyrgð, skuli skattur ekki lagður á félagið sjálft, heldur hvern einstakan félaga, ef ósk kemur fram um það frá félaginu, um leið og tekjur eru taldar fram, enda fylgi beiðninni þær skýrslur, sem með þarf til þess að ákveða skatt hvers einstaks félaga. Ef frv. verður samþykkt, verður skattgreiðslu slíkra félaga hagað þannig hér eftir, að sameignarfélög og samlög, sem hafa það að meginmarkmiði að annast vinnslu eða sölu á framleiðsluvörum félagsmanna, verða sérstakir skattgreiðendur. Um önnur sameignarfélög gildir það sama, enda séu þau skrásett firmu og hafi tilkynnt til firmaskrár, að þau óski að vera skattlögð sem félög. En hafi slík tilkynning ekki borizt firmaskrá innan ákveðins tíma, skal tekjum og eignum félags af þessari tegund skipt niður á eigendur félagsins og þær skattlagðar með öðrum tekjum og eignum þeirra.

Í 2. gr. frv. er lagt til, að skattgjald allra skattskyldra félaga skuli vera hið sama, 25% af skattskyldum tekjum þeirra. Stríðsgróðaskatturinn, sem aðeins félög hafa greitt síðan 1954, á að falla niður.

Í 3. gr. frv. segir, að félög þau, er um ræðir í 3. gr. a, en það eru hlutafélög, samlagshlutafélög og önnur félög með takmarkaðri ábyrgð, megi draga frá tekjum sínum útborgaðan arð, þó ekki meira en 8% af innborguðu hlutafé eða stofnfé. Í núgildandi lögum er ákveðið, að félög þessi megi draga frá tekjum sínum 5% af innborguðu hlutafé eða stofnfé.

Ég vil nefna enn eitt atriði í frv., sem sérstaklega snertir félög. Það er ákvæði 5. gr. um, að eignarskattur félaga skuli vera 7 af þúsundi af skattskyldri eign. Þykir rétt að ákveða eignarskatt þeirra jafnan þúsundhluta af eignunum, en hverfa frá stighækkandi skatti, og er þetta í samræmi við ákvæði frv. um, að tekjuskattur verði jafn hundraðshluti af skattskyldum tekjum félaga. Áætlað er, að eignarskattur félaga eftir þessu nýja ákvæði muni nema svipaðri heildarfjárhæð og áður.

Félög hafa undanfarin 15 ár greitt tekjuskatt og stríðsgróðaskatt samkv. lagafyrirmælum frá 1942. Tekjuskattur hlutafélaga og stríðsgróðaskattur allra félaga hafa verið stighækkandi samkvæmt skattstigum, sem þá voru settir, og félög nutu aldrei þess vísitöluumreiknings á tekjum við skattaútreikning, sem í gildi var fyrir einstaklinga. Lagaákvæðin frá 1942 um skattgreiðslur félaga eru því fyrir löngu orðin úrelt, og má vel segja, að dregizt hafi lengur, en skyldi, að gera breytingar á þeim. En breytingar á lögum um skattgreiðslur einstaklinga voru gerðar fyrir fjórum árum, eins og kunnugt er. Eins og skýrt er frá í aths., er frv. fylgja, er ekki gert ráð fyrir, að þessi nýja skipan hafi í för með sér nokkra teljandi breytingu á tekjuskatti félaga til ríkisins í heild.

4. gr. frv. er um breytingar á tekjufrádrætti við skattaálagningu, er fiskimenn njóta. Sá sérstaki tekjufrádráttur, er sjómenn á fiskiskipum njóta auk hlífðarfatakostnaðar, er aukinn úr 500 kr. á mánuði upp í 850 kr. á mánuði. Þá segir og, að hlutaráðnir menn njóti frádráttar, þótt eigi séu þeir lögskráðir.

Í 5. gr. frv. eru ný ákvæði um eignarskatt, bæði einstaklinga og félaga. Þegar skattalögunum var breytt árið 1954, var ekki gerð breyting á eignarskattinum, en um allmörg undanfarin ár hefur skatturinn verið innheimtur með 50% álagi. Hér er till. um nýjan eignarskattsstiga fyrir einstaklinga, en jafnframt á 50% álagið að falla niður. Ég hef áður minnzt á eignarskatt félaga.

Árið 1955 voru sett lög um samræmingu á mati fasteigna, og samkvæmt því hefur nýtt fasteignamat nú gengið í gildi. Í lögunum var svo fyrir mælt, að þegar nýja matið tæki gildi, skyldi endurskoða lagaákvæðin um eignarskatt og miða endurskoðunina við það, að eignarskatturinn hækkaði ekki almennt vegna hækkunar á fasteignamatinu. Eignarskattstiginn nýi í frvgr. er því við það miðaður, að skatturinn frá einstaklingum verði í heild svipaður og áður samkv. áætlunum, sem um það hafa verið gerðar. Svo er einnig um eignarskatt félaga samkv. frv., eins og ég hef áður vikið að.

Ákvæðin í 7. gr. frv. snerta svonefnda nýbyggingarsjóði útgerðarfyrirtækja. Upphaflega var ákveðið í lögum frá 1941 og síðar í skattalögunum 1942, að sérstök þriggja manna nefnd skyldi hafa eftirlit með því, að fylgt væri fyrirmælum laga um ávöxtun og ráðstöfun á fé nýbyggingarsjóða, en síðar var með lögum nr. 50 frá 1948 ákveðið, að ríkisskattanefnd skyldi taka við verkefni þessarar sérstöku nefndar, og hefur framkvæmdin verið þannig síðan samkvæmt þessum sérstöku lögum. En hér eru ákvæðin um yfirfærslu á eftirlitinu til ríkisskattanefndar felld inn í lagagreinina, en þetta hefur vitanlega ekki í för með sér neina efnisbreytingu á gildandi lögum.

Áður hafa verið í gildi sérstök lög um lækkun tekjuskatts af lágtekjum. Ákvæði um þetta efni, sem gildi við skattaálagningu í ár, eru tekin inn í frv. í 10. gr. þess. Skattlækkunin á lágtekjunum er hér sett töluvert meiri en áður. Eru nánari skýringar á þessu í aths. um frvgr. Ég sé ekki ástæðu til að ræða að svo stöddu meira um efni frv., en vil bæta við nokkrum orðum um þær brtt., sem fram eru bornar á þskj. 489, í nál. meiri hl.

Á s.l. ári skipaði fjmrh. fimm manna nefnd til að athuga aðstöðu hjóna til skattgreiðslu og gera tillögur um það mál. Nefnd þessi samdi frv. um breytingar á skattalögunum eingöngu varðandi skattgreiðslur hjóna. Eftir að ríkisstj. hafði athugað frv., var það sent fjhn. þessarar deildar með tilmælum um, að hún tæki þær till., sem felast í frv., til flutnings sem brtt. við skattalagafrv., sem hér liggur fyrir. Flytur meiri hl. fjhn, þessar brtt. á þskj, 489. Eru þar teknar óbreyttar till. fimm manna nefndarinnar varðandi skattgreiðslur hjóna, og vil ég fara nokkrum orðum um aðalatriðin í þeim till.

Fyrst er að nefna efnisatriðin í 2. brtt. Þar segir, að ef gift kona, sem er samvistum við mann sinn, vinni fyrir skattskyldum tekjum utan heimilis og annars staðar, en við fyrirtæki, sem hjónin eða börn þeirra eiga eða reka, megi draga 50% frá þeim tekjum hennar, áður en skattur er reiknaður af sameiginlegum tekjum hjónanna. Enn fremur segir, að þegar gift kona tekur þátt í atvinnurekstri með manni sínum, eigi þau rétt á því, að metið sé vinnuframlag konunnar og síðan dregnir 50% frá hlut hennar, áður en skattur er lagður á sameiginlegar tekjur hjónanna. Frádráttarstofninn sé þó aldrei hærri en nemur tvöföldum persónufrádrætti konunnar. Loks er í 2. brtt. ákvæði um það, að ef einstæðir foreldrar eða aðrir einstaklingar halda heimili og framfæra þar skylduómaga sína, megi þeir draga frá skattskyldum tekjum upphæð, sem nemur hálfum persónufrádrætti hjóna og þriðjungi af persónufrádrætti ómaganna, þ.e.a.s. skylduómaga á heimilinu. Ákvæði hliðstæð þessu eru í gildandi lögum, en sá málsliður í 10. gr. l., sem geymir það ákvæði, er umorðaður með þessari brtt., og því er þetta ákvæði tekið hér með.

Í a-lið 3. brtt. segir, að hjón skuli bæði undirrita skattframtal. — Í b-lið þeirrar brtt. er svo ákvæði um, að ef gift kona aflar skattskyldra tekna með vinnu sinni utan fyrirtækis, sem hún og maður hennar, annaðhvort eða bæði, eða börn þeirra eiga og reka, geti hjónin krafizt þess að verða sérstakir skattgreiðendur hvort um sig. Eru ákvæði um það í málsgr., hvernig lögákveðinn frádráttur skiptist milli hjónanna, þegar þessi heimild er notuð. Þennan kost geta hjónin valið, ef þau telja hann hagfelldari, en að njóta þess frádráttar á atvinnutekjum konunnar, sem heimilaður er í 1. efnismálsgr. 2. brtt. og áður er um rætt.

Þá er lagt til í niðurlagi 3. brtt., að persónufrádráttur hjóna hækki um 1.000 kr. og verði sá sami og hjá einstaklingum.

Loks segir í 4., brtt., að eitt ákvæði í till. skuli ekki koma til framkvæmda, fyrr en við álagningu skatta á næsta ári.

Till. þessum fylgir ýtarleg grg. frá höfundum þeirra, og er sú grg. prentuð með nál. meiri hl. á þskj. 489. Vísa ég til hennar til nánari skýringar á málinu.

Á undanförnum árum hefur oft verið rætt um, að breyta þyrfti lagaákvæðum um skattgreiðslur hjóna. Frv. um þetta efni hafa verið flutt á Alþingi nokkrum sinnum, þó að málið hafi ekki hlotið afgreiðslu. Ekki hafa till. í málinu allar verið á einn veg, heldur með ýmsu móti. En málinu mun einkum hafa verið hreyft vegna þess, að þátttaka kvenna í ýmiss konar launuðum störfum utan heimilanna, þar á meðal í opinberum störfum, hefur farið vaxandi á síðari tímum. Margt hefur verið rætt um málið og m.a. það, hvort það væri heppilegt eða ekki, að giftar konur ynnu mikið utan heimilanna. Á það hefur verið bent, að þjóðfélaginu mundi hollast, að húsfreyjur sinntu fyrst og fremst heimilisstörfum og uppeldi barna sinna eins og áður, en varhugavert gæti verið á ýmsan hátt, að giftar konur yfirleitt ynnu mikið utan heimila sinna, eins og nú mun tíðkast í sumum öðrum löndum. Víst vil ég taka undir þetta. En á hitt má þó jafnframt líta, að hjá mörgum giftum konum eru ástæður þannig, að ekki er óeðlilegt, að þær taki að sér störf utan heimilanna. Á það fyrst og fremst við um þær konur, sem ekki hafa börn til að annast, og er þá skiljanlegt, að þær vilji búa við svipaða aðstöðu að því er skattgreiðslu varðar eins og ógiftar konur.

Eins og ég nefndi áðan, hefur margt og mikið verið rætt um málið að undanförnu, bæði hér á þingi og utan þess. Því hefur verið haldið fram, að vegna lagafyrirmælanna um samsköttun hjóna væri svo komið, að karl og kona, sem felldu hugi saman, létu það ógert í mörgum tilfellum að ganga í hjónaband, en byggju saman ógift. Og því hefur jafnvel verið haldið fram, að hjónaböndum væri slitið að lögum vegna skattalaganna, en hlutaðeigandi persónur byggju svo saman eftir sem áður, hefðu aðeins skilið að lögum til þess að geta orðið tveir sjálfstæðir skattgreiðendur. Ekki veit ég, hvað hæft er í slíkum sögum, en trúlegt þykir mér, að um nokkrar ýkjur hafi þar verið að ræða. Í samræmi við þetta og í framhaldi af því var svo að því vikið í ræðum þeirra, er báru fram frv. um hjónaskattsmálið hér á þingi fyrir nokkrum árum, að hér á landi fæddust tiltölulega fleiri óskilgetin börn, en í nágrannalöndum okkar, og skattalögunum um kennt. Mig minnir, að því væri haldið fram og byggt á hagskýrslum, að Íslendingar hefðu a.m.k. Norðurlandamet á því sviði. Hvað sem um þetta má segja, er víst, að það er ekki nýtt í sögunni, að óskilgetin börn komi í heiminn Það fyrirbæri er miklu eldra, en skattalögin.

Í árbókum Espólíns er víða sagt frá siðferðisástandi hér á landi á þeim tímum, sem þeir annálar ná yfir, en það er alllangt tímabil. Um árið 1820 segir Jón Espólín t.d. svo: „Börn þau, er getin voru fyrir utan hjónaband, töldust fjórða og fimmta hvert. Freistuðu og margir að verða af með konur sínar, og margt gekk öfugt í þeim efnum.“ Þetta var nú fyrir tæplega 140 árum. En ekki voru skattalögin þar að verki, heldur einhverjar aðrar orsakir, og ég hef takmarkaða trú á því, að hlutfallstala óskilgetinna barna hér á landi breytist mikið, þó að þessar till. um skattgreiðslu hjóna verði lögfestar. En vitanlega geta tillögurnar átt rétt á sér fyrir því.

Margt orkar tvímælis í þessum efnum, en þó sýnist mér, að þessar till. séu miklu aðgengilegri en þær, sem áður hafa komið fram um skattgreiðslur hjóna, enda nú betur vandað til undirbúnings till. T.d. vil ég benda á það, að nú er gert ráð fyrir því, að konur, sem vinna að framleiðslustörfum eða á annan hátt að öflun skattskyldra tekna með mönnum sínum á heimilunum, njóti einnig hlunninda í þessu efni.

Ég tel því rétt að samþykkja þær till. um þetta efni, sem nú liggja fyrir, og því hef ég átt hlut að því með samnefndarmönnum mínum í meiri hl. fjhn. að bera þær fram. Annars er það svo um þessar brtt., að þær hafa í för með sér nokkuð aukna fyrirhöfn við álagningu tekjuskatts, og svo er um ýmsar þær breytingar á skattalögum, sem lögfestar hafa verið síðustu árin. Og verði haldið áfram að afla tekna í ríkissjóð með tekjuskatti, væri það áreiðanlega heppilegt, ef tækist að finna einfaldari skattareglur og aðferðir við álagningu skattsins. Þetta tel ég að þyrfti að taka til athugunar, og gæti þá svo farið, að einhverjar breytingar yrðu gerðar á þeirri byggingu, sem hér er verið að reisa, áður en langt líður, því að skattamál verða sjálfsagt oft til meðferðar á löggjafarsamkomunni. En eins og nú er ástatt, tel ég rétt að samþykkja brtt, á þskj. 489 og gera frv, svo breytt að lögum.