13.05.1958
Neðri deild: 94. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í B-deild Alþingistíðinda. (845)

130. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Þegar skattamál eru hér til umr., vil ég fyrst lýsa þeirri skoðun minni, að ég álít, að okkar skattakerfi í heild sé sjúkt og það þurfi róttækrar endurskoðunar við. Slík endurskoðun þyrfti að fara fram bæði með aðstoð sérfróðra manna á hinu svo mjög flókna sviði hagmálanna sem skattamálin eru, auk þess sem einnig þyrfti að koma til praktísk þekking á þessum málum. Meðan slík heildarendurskoðun á skattakerfinu hefur ekki farið fram, eru allar till. til úrbóta á helztu vanköntum þess að mínu áliti bót, sem sett er á ónýtt fat, og þess vegna varla til frambúðar. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að ræða hér skattamál almennt, það eru önnur stærri mál, sem hv. þm. hafa nú að sinna, þannig að ég sé ekki ástæðu til þess að eyða tíma hv. þdm. í slíkt. En eins og hv. frsm. minni hl., hv. 2. þm. Reykv., tók fram, þá höfðum við skipt þannig með okkur verkum, að ég mælti nokkuð fyrir einni brtt., sem við höfum flutt, nefnilega till. um skattamál hjóna.

Þessi mál hafa verið mjög til umr. á opinberum vettvangi að undanförnu. Grundvallarorsök þessa vandamáls er að mínu áliti hin mikla stighækkun á tekjuskattinum, sem nú er orðin og hefur verið að undanförnu. Það er auðvitað atriði, sem um má deila, hvort skattstigarnir eigi að vera stighækkandi. Hvað snertir félagaskatt, þá er afstaða okkar minnihlutamanna, eins og þegar hefur komið fram í ræðu hv. frsm. minni hl., sú, að við teljum það ákvæði til bóta að gera hlutafélagaskattinn hlutfallslegan í stað þess að vera stighækkandi, eins og hann er nú. Það er að mínu áliti ekki hægt að koma auga á neinn skynsamlegan grundvöll fyrir því, að skattur á félögum sé stighækkandi, enda mun það mjög óvíða tíðkast á erlendum vettvangi, og að því leyti sem það kann að vera tilfellið í einstökum löndum, þá er stighækkunin til mikilla muna minni, en hér hefur verið hingað til, þannig að þá till. styðjum við, svo langt sem hún nær.

Hvað aftur á móti snertir skatta einstaklinga, þá tel ég, að mikilvæg rök megi færa fyrir því, að slíkur skattur sé að nokkru leyti stighækkandi. Það má með sanni segja, að krónan, sem fer til að fullnægja þörfum hinna efnuðustu fyrir munað, sé þjóðfélaginu minna virði, en sú króna, sem fer til þess að seðja börn fátæka mannsins, þannig að skynsamleg rök má færa fyrir því, að hvað einstaklinga snertir eigi skatturinn að vera stighækkandi. Annað mál er það, að sú stighækkun tekjuskattsins, sem nú er, er komin út í fullkomnar öfgar. Þegar þannig er komið, að menn, sem hafa sæmilegar tekjur, verða að greiða 3 kr. af hverjum 4, sem þeir vinna sér inn, í tekjuskatt til ríkis og bæjarfélaga, þá hlýtur það að draga mjög verulega úr hvöt manna til þess að afla sér tekna. Sérstaklega hefur þetta auðvitað gengið út yfir hjón, þar sem konan hefur unnið úti, því þó að ekki sé um mjög háar tekjur að ræða hjá hvorum aðilanum fyrir sig, þá er það svo, að þegar þetta kemur saman, þá verður stighækkunin geysilega mikil, þannig að þetta atriði, hve stighækkun tekjuskattsins er komin út í miklar öfgar, er grundvallarástæðan fyrir því vandamáli, sem hér er um að ræða.

Varðandi þróun þessara mála má aðeins benda á það, að þegar það var ákveðið á sínum tíma, árið 1942, að hverfa frá því fyrirkomulagi, sem verið hafði til þess tíma, að draga útsvar og skatt frá tekjum, en lækka skattstigann tilsvarandi, þá voru margir svartsýnir á það, að þótt ekkert væri í sjálfu sér við þetta að athuga, þá mundi fljótlega sækja í sama horfið aftur, þannig að það yrði að hækka skattstigann að nýju, eftir að þessi breyting væri gerð. Þá var hámark skattstigans, eftir því sem ég man bezt, lækkað úr 40% niður í 22%. Nú hefur farið þannig, að það hefur komið á daginn, að þessir svartsýnu menn höfðu á réttu að standa. Skömmu eftir þetta voru lagðir á ýmiss konar viðbótarskattar, eins og tekjuskattsviðauki eða hvað það nú hét, stríðsgróðaskattur o.s.frv. Til þess að gera skattkerfið nokkru einfaldara var þessu svo breytt árið 1954, en þá varð niðurstaðan sú, að skattstiginn á hæstu tekjur til ríkisins var aftur settur upp í 40%, eða það sama og verið hafði, áður en breytingin var gerð árið 1942.

Þær till., sem hér liggja fyrir frá hv. meiri hl. fjhn., ráða auðvitað á þessu verulega bót hvað snertir þær konur, sem vinna úti. Frá því hefur verið skýrt, og þarf ekki að rekja það nánar. En að áliti okkar, sem í minni hl. erum, gengur þessi till. of skammt. Það er að vísu ráðin nokkur bót á þessu vandamáli og veruleg bót hvað snertir konur, sem vinna úti. Fyrir hinu má ekki loka augunum, að þau hjón, þar sem konan sinnir heimilisstörfum, bera byrði skattstigans að fullu eftir sem áður, þannig að þarna verður um að ræða verulegt misræmi hvað snertir aðstöðu þeirra hjóna, þar sem konan vinnur úti og þar sem svo er ekki. Nú er það þannig í gildandi skattalögum, að kona, sem vinnur útí, fær að nokkru frádrátt fyrir kostnaði, sem hún hefur vegna barna sinna utan heimilis. Þar að auki mundu þessar konur nú fá dregið frá skattskyldum tekjum helming þess, sem þær vinna sér inn. Þetta er auðvitað verulega til bóta hvað þær snertir. Aftur á móti ef konan sinnir heimilisstörfum, þá njóta þau heimili hvorugrar þeirra ívilnana, sem hér er um að ræða. Ég endurtek það, að ég tel það út af fyrir sig til bóta, að réttur er þannig hlutur þeirra kvenna, sem vinna úti. Það hefur verið bent á það með réttu, að einmitt þessi mikla skattlagning á heimili, sem þannig stendur á um, verði til þess, að þjóðfélaginu nýtast verr kraftar sérmenntaðra kvenna, sem eru giftar, þar eð vegna skattaálagnanna telja þær ekki borga sig að vinna úti, og auk þess má vera, að eitthvað sé um það, að fólk, sem býr saman, sjái sér ekki fært að ganga í hjónaband vegna skattaálagnanna. Það sjá allir, að hvort tveggja þetta er óheilbrigt og úrbóta er þörf. Hins vegar hefur almennt verið litið þannig á, að hið eðlilega starfssvið konunnar sé undir flestum kringumstæðum heimilisstörfin og það sé óeðlilegt, að þau heimili, þar sem svo háttar til um, verði miklu verr sett hvað skattaálögur snertir, heldur en önnur heimili. Þess vegna leggjum við til, að úr því að á annað borð er farið út í að leiðrétta það misrétti, sem hér er um að ræða, sem út af fyrir sig er lofsvert, þá verði þetta skref tekið að fullu og hjón, þar sem konan vinnur að heimilisstörfum, fái þá skattaívilnun, að tekjum þeirra skuli skipt til helminga og reiknaður skuli skattur af hvorum helmingi um sig. Til þess að vega að nokkru á móti þeim tekjumissi, sem ríkissjóður og aðrir opinberir aðilar mundu verða fyrir af þessum sökum, þá leggjum við til, að persónufrádráttur fyrir hjón sé lækkaður nokkuð frá því, sem nú er, enda er tilfellið það, að ef ekki væri um þessa miklu stighækkun skattstigans að ræða, þá væri það að mínu áliti sanngjarnt, því að það er hlutfallslega ódýrara að lifa fyrir hjón, sem saman búa, heldur en einn einstakling. Annað mál er svo það, að persónufrádrátturinn í heild er of lágur, en það atriði höfum við ekki séð okkur fært að taka almennt til meðferðar. Hins vegar vil ég taka það fram í sambandi við þessa brtt. okkar, að verði hún felld, þá munum við styðja þær till., sem hv. meiri hl. hefur borið fram um sköttun hjóna. Enn fremur vil ég vekja athygli á því, að verði aðalatriðið í till. okkar, a-liður í brtt. 3 á þskj. 502, fellt, þá munum við að sjálfsögðu taka aftur b-liðinn, því að þessi lækkun á persónufrádrættinum, sem við leggjum hér til, er auðvitað bundin við það, að heimildin til þess að skipta tekjum hjóna til helminga verði að lögum.