19.05.1958
Neðri deild: 100. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

130. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það kom nú fram í þessari síðustu ræðu hv. frsm., þm. V-Húnv. (SkG), sem hann var raunar búinn að gefa í skyn áður, að hann vill ekki taka tillit til þeirra laga, sem um það fjalla, að eignarskatturinn sé áfram eins og hann var, áður en endurskoðun fasteignamatsins fór fram. En þar segir í 10. gr. laga nr. 33 14. maí 1955, um samræmingu á mati fasteigna, að þegar hið nýja fasteignamat samkvæmt lögunum tekur gildi, skuli endurskoða gildandi lagaákvæði um eignarskatt og miðist sú endurskoðun við það, að skatturinn hækki ekki almennt vegna hækkunar á fasteignamatinu. Nú hef ég sýnt fram á það með glöggum tölum, að það er ekki nóg með það, að þetta sé algerlega svikið, heldur er eignarskattsstiginn mikið hækkaður umfram það frá því, sem áður var, og verður þess vegna gífurleg hækkun á þessum skatti frá því, sem áður var. En þetta á að fóðra með því að fella niður skatt á lægstu eignunum, upp undir 30 þús. kr., sem eru auðvitað smáar upphæðir.

Varðandi mína till. um að reikna út með gamla fasteignamatinu í þetta sinn, þá er það miðað við, að það verði haldið sig við lög og undirbúin breyting á þessum lögum fyrir næsta þing og þá komið því á, sem ætlazt var til með lögunum upphaflega. Það var ekki einasta það, að þetta ákvæði væri í lögunum, heldur er mér kunnugt um það og var margsinnis upplýst, að þetta var samningur milli þeirra flokka, er studdu fyrrverandi stjórn, að eignarskatturinn skyldi ekki hækka af þessum ástæðum. En það er eins og fleira, sem nú gerist hjá hv. stjórnarflokkum, að það er hvorki tekið tillit til loforða, samninga og jafnvel ekki laga, og má þó segja, að þar farist menn mjög á mis eftir því, hvaða menn þar eiga hlut að máli. Nú ætti það að koma í ljós við atkvgr. um mína brtt., hverjir það eru hér í hv. d., sem vilja fara eftir loforðum og lögum, sem áður voru sett um þetta efni.

Það þýðir ekki neitt fyrir hv. þm. V-Húnv. að vera með vífilengjur um það, að minn samanburður hafi ekki verið réttur. Ég tók það strax fram, að sá samanburður var á gildandi lögum, sem eru 14. gr. laga nr. 46/1954, og þessu frv. Það þurfti ekkert að fara milli mála eða valda neinum misskilningi. En tilbúningur hv. þm. er byggður á öðrum ástæðum, sem ég gaf ekki að neinu leyti tilefni til, að taka með þá hækkun, sem ákveðið hefur verið að innheimta skattinn með, því að það má alltaf gera slíka hluti og breytingu frá lögum varðandi þau efni, og mundi auðvitað enginn öruggur fyrir því, að það sé ekki hægt að samþykkja hér að innheimta þennan skatt, sem á að setja með þessu frv., líka með 50% álagi, ef fyrir því fengist meiri hluti hér á hv. Alþingi.