22.05.1958
Efri deild: 104. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (865)

130. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Forseti (BSt):

Hvað það snertir, að eitthvað hafi verið tilkynnt um fundarhöld hér í d. í ríkisútvarpinu, þá bað ég ekki ríkisútvarpið að tilkynna neitt um fundarhöld hér, hvorki eitt né annað. Ég frábið mér því allar aðfinnslur út af því. Á hinn bóginn fól ég skrifstofunni og símavörzlu Alþingis fyrir um það bil klukkutíma að boða alla þm. d. á þennan fund og lagði ríka áherzlu á það, að allir hv. þm. d. fengju tilkynningu um fundinn. Við erum nú jafngamlir á þingi, ég og hv. þm. Vestm., og munum báðir sjálfsagt eftir því ótal sinnum, að þegar mjög líður að þinglokum, eru oft kallaðir saman fundir, án þess að borin sé prentuð dagskrá til þingmanna.