22.05.1958
Efri deild: 104. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (866)

130. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil taka það fram, að ég hef hvorki fengið símahringingu né prentaða dagskrá aðra en þá, sem gilti fyrir fund í Nd. í dag. Hún beið mín heima, eins og venjulegt er um dagskrár, um hádegi. Og hvað það snertir, að hæstv. forseti hafi ekki látið útvarpinu í té fregn um þetta mál, þá er það áreiðanlegt, að það er eins og ég sagði, að það var sagt frá því í fregnum, að það yrði enginn fundur í öðru en Nd. hér í dag, og ég kannast ekki við, að maður sé skyldur til að gegna fundarboði, sem kemur á þann hátt eins og nú í hendur manns algerlega af tilviljun og án þess að farið sé að formlegum leiðum í því, því að síðast þegar fundi var slitið í þessari hv. d., þá sagði forseti, eins og venja er til, að næsti fundur yrði boðaður með dagskrá.