12.12.1957
Neðri deild: 38. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

5. mál, tollskrá o. fl

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þessi ræða, sem hv. 1. þm. Reykv. (BBen) flutti hér áðan, er í sjálfu sér ekki svaraverð. Hann var að rabba hér um daginn og veginn, svona hálfgert í gamantón, fram og aftur og segja ýmsar sögur um það, hvernig samstarfið hefði gengið við mig, á meðan við vorum saman í ríkisstj. En þær voru í höfuðatriðum á þá lund, að ef mínir flokksmenn í ríkisstj. hefðu haft áhuga fyrir einhverju máli, þá hefði verið alveg sjálfsagt, að ég hefði stutt fjárveitingu til þess, en barizt á móti öllu því, sem ráðh. samstarfsflokkanna lögðu til. Þetta er auðvitað eins og hvert annað slúður hjá hv. 1. þm. Reykv. og áreiðanlega mælt gegn betri vitund, því að hann veit vel, að þetta er ekki rétt, enda hefur hann sjálfur óspart gortað af því, að hann hafi í þeirri ríkisstj., sem við áttum báðir sæti í, fengið hækkaðar fjárveitingar mjög svo til ýmissa þeirra málaflokka, sem hann hafði með höndum. Og ég veit ekki betur, en það hafi verið með mínu samþykki,

Svo sagði þessi hv, þm., - og ég skal láta það verða endinn á þessum fáu orðum, sem ég segi út af þessu, því að ræða hv. þm, var ekki svaraverð, — svo sem til sannindamerkis einu atriði og benti á hæstv. sjútvmrh.: Svo sjá menn það, að hæstv. sjútvmrh, kinkar kolli. — En það sáu bara allir, að hæstv. sjútvmrh. kinkaði ekki kolli, Þannig leyfir þessi hv. þm. sér að segja frá því, sem er fyrir allra manna augum. Og hvað halda menn svo, að það sé að marka, sem slíkur maður segir um það, sem enginn maður getur vitað, hvort það er satt eða ósatt?